RNB Heilsuvika
RNB Heilsuvika

Viðskipti

Ætlaði að kaupa jólagjöf handa manninum en greip í tómt
Eigendur Maron Herrafataverslunar - María og Helgi
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 31. júlí 2022 kl. 14:00

Ætlaði að kaupa jólagjöf handa manninum en greip í tómt

Marion Herrafataverslun

„Við erum bara ótrúlega þakklát fyrir móttökurnar og vonum að við getum veitt þá þjónustu sem þurfti,“ segir María Ósk Guðmundsdóttir, eigandi Marion Herrafataverslunar. Hún og maki hennar, Helgi Grétar Gunnarsson, opnuðu verslunina í Hólmgarði þann 7. júní síðastliðinn en hugmyndin að versluninni kviknaði þegar María ætlaði að kaupa jólagjöf handa Helga en hafði ekki tíma til að fara til Reykjavíkur.

„Hugmyndin kom upp fyrir svona einu og hálfu ári síðan. Við vorum þá að velta því fyrir okkur hvers vegna það væri ekki herrafataverslun í Reykjanesbæ. Ég var einmitt að leita að jólagjöf fyrir makann minn og nennti ekki að fara til Reykjavíkur. Þá spratt upp hugmyndin að opna herrafataverslun. Ég var að klára fæðingarorlof fyrir stuttu og við vorum að hugsa hvað ég ætti að fara að gera í haust og ákváðum að slá til og bjóða upp á þessa þjónustu, því það vantaði hana,“ segir María. Þau María og Helgi segja bæjarbúa vera ánægða með þessa nýjung og að þau reyni að hlusta á eftirspurn viðskiptavinanna. „Við erum að reyna að vera vakandi fyrir því hvað er í tísku og hvað þarf hérna og tökum við ábendingum frá fólki. Við höfum tekið inn vörur sem fólk hefur bent okkur á. Fyrsta pöntunin okkar var frekar erfið þar sem við vissum ekki hvað fólk vildi en núna höfum við verið að hlusta á fólkið og hvað markaðurinn vill,“ segir María.

Marion Herrafataverslun

Verslunin er staðsett í Hólmgarði í Reykjanesbæ og segir María marga hafa furðað sig á staðsetningunni en María er með góð svör við því. „Þetta er huggulegt hverfi með gott aðgengi að búðinni og nóg af bílastæðum, það heillaði mig svolítið að það væri komið smá líf þarna aftur,“ segir hún og bætir við: „Ég veit líka að karlmenn eru þannig að þeir vilja hafa hlutina einfalda og geta gengið að þeim.“

María segir það erfitt að opna verslun að sumri til þar sem margir leita út úr bænum og vegna þess að flestar verslanir eru að losa sig við vörur. „Fyrsti mánuðurinn var mjög góður, það er stöðugt búið að vera eitthvað að gera. Það eru svo margir í fríi núna og þetta er erfiður tími til þess að byrja fyrirtæki þar sem margar búðir eru að losa sig við hluti á meðan við erum að byrja með eitthvað nýtt,“ segir hún. Í versluninni má finna nærföt, úlpur, hversdagsleg föt, jakkaföt og allt þess á milli en nær allar vörurnar eru góðar og vandaðar frá dönskum merkjum. María segir fólkið í bænum vera ánægt með úrvalið og að það sé vongott um að verslunin sé komin til að vera. „Fólk er virkilega ánægt með þetta og það segir okkur að það voni að þetta muni ganga. Það ríkir almenn ánægja með vörurnar og verðið,“ segir María.

Aðspurð hvaðan nafnið á versluninni kemur segir María þetta: „Eins og staðan er í dag þá vildum við ekki kyngreina neitt. Þó þetta sé „Marion Herrafataverslun“ þá þurftum við í raun að halda herrafataverslun þarna inni svo það myndi hringja bjöllum hjá fólki að um herraföt væri að ræða en Marion er kynlaust nafn. Konur geta alveg komið og keypt sér herrafatnað, já eða hvaða kyn sem er. Við viljum vera svolítið nútímaleg í þessu og vera opin fyrir allskonar,“ segir María.

Marion Herrafataverslun