Pistlar

Vísir flytur saltfiskvinnslulínu til Helguvíkur
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 2. febrúar 2024 kl. 08:20

Vísir flytur saltfiskvinnslulínu til Helguvíkur

Þegar þessi pistill kemur þá er janúarmánuður svo til liðinn og heilt yfir þá má segja janúar hafi verið nokkuð góður aflalega séð. Reyndar núna, þegar þessi pistill er skrifaður, er búin að vera nokkur brælutíð og bátar lítið komist á sjóinn.

Ég ætla reyndar að byrja í Helguvík því að Vísir í Grindavík hefur ákveðið að færa eina saltfiskvinnslulínu sína úr Grindavík  til Helguvíkur. Í Grindavík hefur Vísir verið með þrjár saltfiskvinnslulínur en vegna þeirra atburða sem hafa verið að gerast í Grindavík upp á síðkastið var ákveðið að setja eina línu í Helguvík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Húsnæðið sem Vísir mun nota hefur staðið svo til ónotað í nokkur ár, eða frá því að Síldarvinnslan ákvað að loka loðnubræðslunni þar árið 2018. Saltver hafði þar á undan verið þar að flokka loðnu sem síðan var fryst í húsnæði Saltvers í Njarðvík. Þetta mun væntanlega þýða að línubátar og togari Vísis munu fara að landa í Helguvík, sem er hluti af Reykjaneshöfnum.

Talandi um báta Vísis þá hefur Sighvatur GK landað 462 tonnum í þremur róðrum og mest 160 tonnum í einum róðri, Páll Jónsson GK 434 tonn í þremur og mest 184 tonn í einni löndun og togarinn Jóhanna Gísladóttir GK með 400 tonn í fimm löndunum og mest 90 tonn. Athyglisvert að sjá hversu mikið meira lestarrými línubátarnir hafa miðað við togarann. Aðrir línubátar eru t.d. Valdimar GK með 497 tonn í sjö löndunum og mest 103 tonn í einni löndun. Af minni bátunum er Margrét GK hæst með 170 tonn í fjórtán róðrum, öllu landað í Sandgerði, Gísli Súrsson GK 144 tonn í fjórtán í Ólafsvík, Auður Vésteins SU 112 tonn í einum, líka þar, Óli á Stað GK 78 tonn í níu, Daðey GK 72 tonn í sjö, Dúddi Gísla GK 71 tonn í sjö og Hulda GK 68 tonn í níu löndunum. Þessir fjórir bátar voru að landa í Sandgerði.

Netaveiðin er búinn að vera nokkuð góð. Erling KE með 171 tonn í sextán róðrum og af því var 46 tonnum landað í Sandgerði, restinni í Njarðvík. Friðrik Sigurðsson ÁR 132 tonn í tuttugu, Addi Afi GK 29 tonn í níu og Sunna Líf GK 23 tonn í níu róðrum.

Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 115 tonn í níu, Siggi Bjarna GK 106 tonn í níu og Benni Sæm GK 89 tonn í átta róðrum. Aðalbjörg RE er síðan komin  á veiðar og er með 25 tonn í þremur, fyrst landað í Reykjavík en kom síðan til Sandgerðis. Aðalbjörg RE hefur verið að veiðum inni í Faxaflóanum og er að eltast við kola þar.

Maggý VE er ekki komin á veiðar en það fer örugglega að styttast í bátinn því hann á rúmlega 300 tonna kvóta óveiddan en undanfarin ár hefur Karl Ólafsson, sem lengi var með Haförn KE og Örn KE, verið skipstjóri á Maggý VE.

Að lokum langar mig að koma aðeins inn á föður minn, Reyni Sveinsson, sem lést 21. janúar síðastliðinn. Jarðarförin verður í Sandgerðiskirkju þann 1. febrúar kl. 14:00. Vegna þess að Byggðavegurinn er lokaður þá þarf að aka inn í Sandgerði og beygja til hægri við sundlaugina og aka Suðurgötuna alla leið á enda og beygja þar til hægri inn Austurgötuna. Þar við endann er hringtorg og bílastæði eru meðal annars á bak við kirkjuna þar sem tjaldstæðið er.