Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Fréttir

Tourette-samtökin styrkja Magnús Orra til kvikmyndagerðar
Magnús Orri Arnarson ásamt Auðbjörgu Sigurðardóttur, gjaldkera Tourette-samtakanna, við Mannréttindahúsið þar sem samtökin eru til húsa.
Þriðjudagur 6. janúar 2026 kl. 11:11

Tourette-samtökin styrkja Magnús Orra til kvikmyndagerðar

Tourette-samtökin veittu nýverið Magnúsi Orra Arnarsyni styrk til að styðja við áframhaldandi kvikmyndagerð hans. Magnús Orri hefur vakið athygli undanfarin ár fyrir verk sín og sýnt með skýrum hætti að fatlað fólk getur látið drauma sína rætast. Frá þessu er greint á vef samtakanna.

Magnús Orri hóf að læra kvikmyndagerð í framhaldsskóla en verkefnin tóku verulega við sér þegar hann var fenginn til að gera kynningarmyndband fyrir Íþróttasamband fatlaðra. Síðan þá hefur hann unnið að fjölbreyttum verkefnum og lagt ríka áherslu á að segja sögur sem varpa ljósi á mannlega reisn, virðingu og þátttöku.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Fyrr á árinu 2025 var frumsýnd heimildamynd hans Sigur fyrir sjálfsmyndina, þar sem hann fylgdi íslenskum keppendum á Heimsleikum Special Olympics sem fóru fram á Ítalíu um vorið. Í myndinni veitir hann innsýn í keppnina sjálfa og það samfélag sem byggir á mannúð og virðingu, sem einkennir starf Special Olympics. Þetta var fyrsta heimildamynd Magnúsar Orra, sem sjálfur keppti á leikunum í Abu Dhabi árið 2019.

Tourette-samtökin stóðu, í samstarfi við Bíó Paradís, fyrir sérstakri skynsegin sýningu á Sigri fyrir sjálfsmyndina í október síðastliðnum. Að sýningu lokinni sat Magnús Orri fyrir svörum áhorfenda, en hann er greindur með Tourette og einhverfu. Myndin var síðan sýnd á RÚV 29. desember.

Árangur Magnúsar Orra hefur einnig verið viðurkenndur með Hvatningarverðlaunum ÖBÍ 2025, sem forseti Íslands afhenti honum við hátíðlega athöfn 3. desember, á alþjóðadegi fatlaðs fólks.

Tourette-samtökin segja Magnús Orra vera mikilvæga fyrirmynd og að hann sé þegar með fleiri kvikmyndaverkefni í bígerð. Til að hvetja hann áfram veittu samtökin honum styrk að upphæð 250 þúsund krónur.