Fjögur björgunarskip og bátar til aðstoðar ásamt þyrlu
Fiskibáti, sem leki kom að vestur af Hafnabergi í gær, var fylgt til hafnar í Sandgerði og kom þangað upp úr kl. 19 í gærkvöldi.
Alls tóku fjögur skip og bátar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þátt í verkefninu sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Oddur V. Gíslason frá Grindavík, Árni í Tungu, opinn björgunarbátur frá Grindavík, Hannes Þ. Hafstein, björgunarskipið í Sandgerði og Njörður G, opinn björgunarbátur frá Reykjanesbæ, voru öll kölluð út.
Útkallið barst upp úr klukkan 16 í gær. Bátar og skip héldu til aðstoðar og þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, hélt til Sandgerðis og tók þar um borð dælur sem voru um borð í björgunarbátnum Nirði G.
Þyrlan hélt svo að bátnum og lét dælur og sigmann síga niður í hann til að koma dælingu af stað. Skömmu síðar komu Árni í Tungu og Hannes Þ. Hafstein á vettvang.
Dæling gekk vel og höfðu dælur vel undan lekanum, sem þá hafði minnkað aðeins.
Síðan var bátnum fylgt til hafnar í Sandgerði, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.





