Pistlar

Vetrarvertíðin 2024 fer vel af stað
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. janúar 2024 kl. 06:04

Vetrarvertíðin 2024 fer vel af stað

Þá er 2024 gengið í garð, vetrarvertíð hafin og fyrstu dagarnir í janúar voru mjög góðir, það góðir að meira segja nokkrir handfærabátar gátu farið út til veiða. Reyndar eru veður þannig í þessari viku að líklegast verður ekki sjóveður fyrr en um helgina.

Það voru þrír færabátar sem fóru út til veiða og gekk nokkuð vel hjá þeim. Agla ÁR með 1,98 tonn í tveimur róðrum og mest 1 tonn. Allt var þetta ufsi. Dimon GK 966 kíló í tveimur róðrum og var ufsi af því 857 kíló og Guðrún GK 1,5 tonn í einni löndun og af því þá var ufsi 1,3 tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Netabátarnir eru líka byrjaðir og þar með talinn Erling KE sem var allt haustið 2023 í slippnum í Njarðvík. Erling KE er kominn með 59,5 tonn í fjórum róðrum og mest 22,7 tonn í einni löndun, Friðrik Sigurðsson ÁR 35 tonn í fjórum róðrum og mest 17 tonn í einni löndun, Sunna Líf GK 9,4 tonn í þremur róðrum og mest 4 tonn og Addi Afi GK 13,3 tonn í þremur og mest 6,3 tonn.

Góð byrjun hjá netabátunum og þessi góða byrjun bendir til þess að vertíðin verði ansi góð – en hafa ber í huga að netabátarnir eru mjög fáir frá Suðurnesjum núna miðað við hvernig þetta var til að mynda fyrir 24 árum síðan, árið 2000.

Hjá línubátunum var veiðin mjög góð. Hulda GK kominn með 27,5 tonn í fjórum róðrum og mest 9,5 tonn, Margrét GK 34,7 tonn í fimm og mest 12,6 tonn, Sævík GK 34,5 tonn í þremur og mest 12,3 tonn, Óli á Stað GK 27,1 tonn í þremur og mest 10,2 tonn, Daðey GK 25,7 tonn í þremur og mest 12,1 tonn í róðri og Dúddi Gísla GK 23,3 tonn í þremur og mest 9,4 tonn. Allir að landa í Sandgerði.

Stóru línubátarnir voru á veiðum utan við Sandgerði og inni í Faxaflóanum en þegar þessi pistill var skrifaður voru bátarnir ekki búnir að landa. Páll Jónsson GK og Sighvatur GK voru utan við Sandgerði og Valdimar GK var inni í Faxaflóanum.

Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 28,3 tonn í fjórum róðrum og er þegar þetta er skrifað aflahæsti dragnótabátur landsins. Siggi Bjarna GK 19,5 tonn í fjórum og Benni Sæm GK 15,2 tonn í þremur.

Hjá togurnum kom Pálína Þórunn GK með 34 tonn til Sandgerðis eftir tvo daga á veiðum en báturinn var á veiðum rétt utan við Sandgerði. Sturla GK var þar líka á veiðum en kom til Grindavíkur með 32 tonna afla.

Nokkuð góð byrjun en það stefnir í að næsti pistill verði ekki með mikið af aflatölum því löng brælutíð er í gangi núna.