Pistlar

Tíðin vægast sagt hræðileg!
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. febrúar 2023 kl. 06:28

Tíðin vægast sagt hræðileg!

Ja hérna hér. Nú er komið svo til inn í miðjan febrúar og tíðin er vægast sagt búin að vera hræðileg. Stóru línubátarnir hafa flúið norður í land og hafa verið að landa á Skagaströnd, t.d Sighvatur GK með 228 tonn í tveimur róðrum og Páll Jónsson GK með 136 tonn í einum. Gísli Súrsson GK er í Breiðarfirðinum og hefur náð að komast í fimm róðra með 64 tonn.

Af bátunum sem eru að landa á Suðurnesjunum þá hefur aðeins gefið á sjóinn í tvo daga þegar að þessi pistill er skrifaður. Margrét GK var með 23 tonn í tveimur róðrum, Óli á Stað GK með 14 tonn í tveimur, Daðey GK með 10,8 tonn og Sævík GK 9,9 tonn, Hópsnes GK með  8,4 tonn og Katrín GK með 3,4 tonn, allir eftir einn róður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tveir færabátar náðu að fara í róður og voru báðir að veiðum við Garðskagavita og þar af leiðandi að veiða þorsk. Þetta voru Líf NS með 1,8 tonn í tveimur róðrum og Hafdalur GK með 434 kíló í einni löndun.

Varla er nú hægt að segja að eitthvað meira líf sé hjá dragnótabátunum. Þeir hafa líka aðeins komist í tvo róðra, t.d Siggi Bjarna GK með 26,6 tonn, Benni Sæm GK með 26,4 tonn og Aðalbjörg RE með 8,2 tonn.

Hjá netabátunum þá er líka sama sagan, rétt svo komist í tvo róðra. Maron GK með 1,4 tonn í einni löndun, Grímsnes GK 11,7 tonn í einni og Erling KE með 7,2 tonn í tveimur róðrum. Halldór Afi GK var með 599 kíló í einni löndun. 

Ef við lítum á togaranna, þá er Sóley Sigurjóns GK með 243 tonn í tveimur túrum, landað á Siglufirði. Sturla GK  með 113 tonn í þremur túrum, landað  í Grindavík og Þorlákshöfn. Jóhanna Gísladóttir GK með 90 tonn í einni löndun á Ísafirði. Pálína Þórunn GK með 30 tonn í Hafnarfirði.  Áskell ÞH með 28 tonn og Vörður með ÞH 24 tonn, báðir eftir eina löndun og báðir lönduðu í Grindavík.

Svo já, þetta er svo til allt saman það sem af er febrúar. Sjaldan eða aldrei hefur tíðin verið jafn hörmuleg og hefur verið núna í febrúar og landanir bátanna vægast sagt skelfilega fáar. Spurning hvort þetta haldi áfram, í það minnsta þá er veiðin góð þegar bátarnir komast á sjóinn. Og til marks um það þá hafa ansi margir 29 metra togarar verið að toga rétt utan við Sandgerði við fjögurra mílna línuna, t.d Þinganes SF frá Hornafirði sem hefur landað 152 tonnum í tveimur róðrum í Þorlákshöfn en sem veitt var utan við Sandgerði. 

Svo jú, það er fiskur þarna fyrir utan en veðurguðirnir ekki á þeim skónum að gefa nein færi á að fara út og veiða.