Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Systurbátarnir hafa aldrei landað á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 22. nóvember 2024 kl. 06:11

Systurbátarnir hafa aldrei landað á Suðurnesjum

Ekki er nú hægt að segja að mikið hafi verið um að vera í höfnunum á Suðurnesjum frá því að síðasti pistill var skrifaður því veðráttan hefur heldur betur verið afleit og ekkert sjóveður verið. Sem dæmi um hversu leiðinlegt veðrið hefur verið í nóvember má nefna að Margrét GK hefur aðeins náð að fara í tvo róðra og er komin með 13,4 tonn. Sömuleiðis hefur Dúddi Gísla GK aðeins náð tveimur róðrum en náði reyndar þriðja róðrinum um svipað leyti og þessi pistill var skrifaður. Aflinn hjá honum um 12 tonn í þremur róðrum.

Í raun þá má segja að allir bátar hafi lítið sem ekkert getað róið eins og dragnótabátarnir Benni Sæm GK og Siggi Bjarna GK, báðir einungis með fjóra róðra. Sigurfari GK með fjóra róðra líka en hann var reyndar á sjónum þegar þessi pistill var skrifaður og var ekki kominn í land, því er ekki vitað um aflann hjá honum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rólegt hefur verið hjá netabátunum en þó hóf Erling KE veiðar og hefur landað 10 tonnum í tveimur róðrum, landar í Njarðvík og Friðrik Sigurðsson ÁR er líka  kominn á veiðar. Síðasta vetur var Friðrik Sigurðsson ÁR að veiða fyrir Hólmgrím og um 20 tonn af ufsa voru færð af Halldóri Afa GK sem Hólmgrímur á, yfir á Friðrik Sigurðsson ÁR. Svo lesa má úr því að Friðrik Sigurðsson ÁR eigi að eltast við ufsann því Hólmgrímur hefur gert út all nokkra stóra netabáta eins og Tjaldanes GK og Grímsnes GK, haustin voru oft sá tími sem  þessi bátar voru að eltast við ufsa.

Eins og staðan er núna er Kap VE eini netabáturinn sem er á veiðum fyrir sunnan sem hefur eitthvað fengið að ufsa. Hefur Kap VE landað 113 tonnum í þremur róðrum og af því er ufsi 37 tonn.

Ef við lítum aðeins á togarana þá er enginn þeirra að landa á Suðurnesjum. Sóley Sigurjóns GK er að ganga vel fyrir norðan og er komin með 287 tonn í tveimur löndunum og landar á Siglufirði. Þaðan er aflanum ekið til vinnslu í Garð og Sandgerði.

Jóhanna Gísladóttir GK er með 228 tonn í þremur túrum og landar fyrir austan, á Eskifirði og Djúpavogi. Áskell ÞH 209 tonn í þremur, landað á Neskaupstað. Sturla GK 192 tonn í þremur. Pálína Þórunn GK 68 tonn í tveimur, landað í Hafnarfirði. 

Hulda Björnsdóttir GK fór í annan prufutúr og hefur landað samtals 17,3 tonnum í þessum tveimur prufutúrum, landar í Hafnarfirði því þar fara stillingar fram á tækjum sem eru í skipinu.

Reyndar eru stóru línubátarnir að mokveiða fyrir norðan, Sighvatur GK er kominn með 319 tonn í tveimur róðrum og mest 161,7 tonn í einni löndun. Páll Jónsson GK er rétt á eftir með 295 tonn í tveimur róðrum og mest 160.7 tonn í einni löndun.

Núna á Íslandi eru aðeins fimm stórir línubátar á veiðum, tveir frá Grindavík, tveir frá Rifi, Tjaldur SH og Rifsnes SH og síðan Núpur BA frá Patreksfirði, en hann og Tjaldur SH eru systurbátar.

Og reyndar er það nú þannig að allir þessir þrír bátar; Tjaldur SH, Rifsnes SH og Núpur BA hafa aldrei landað í höfnum á Suðurnesjunum.