Nivea
Nivea

Pistlar

Reiða fólkið
Laugardagur 19. nóvember 2022 kl. 08:10

Reiða fólkið

Tæknina í dag er nánast ómögulegt að flýja og eru farsímar okkar og hinir fjölmörgu samfélagsmiðlar veraldarvefsins besta dæmið um það. Persónulega eyðir undirritaður allt of miklum tíma á þessum miðlum. Samfélagsmiðlar hafa vissulega helling af jákvæðum hlutum og flest okkar þekkja þær hliðar vel. Samfélagsmiðlarnir hjálpa oft fólki að brjótast úr skelinni og tengjast öðru fólki og það hefur jafnvel fundið hvort annað. Þrátt fyrir að fjölmiðlar virðist yfirleitt beina sjónum sínum að neikvæðum þáttum samfélagsmiðlanna má ekki gleyma því að þeir geta verið gríðarlega hjálplegir. Horfið t.d. bara á þættina um leitina að upprunanum!

Að nota samfélagsmiðlana á hófsaman hátt getur verið frábært. Því miður þá hafa þessir samfélagsmiðlar allir sínar dökku hliðar og eru nýttir af óprúttnum aðilum undir ýmiskonar svindl og einelti hefur þrifist þar lengi. Þar erum við fullorðna fólkið ekki barnanna best og að lesa „kommentakerfi“ fjölmiðlanna getur hreinlega verið mannskemmandi og ágæt leið til þess að losna við harðlífi. Afar sjaldan hef ég heyrt fólk tala í persónu á þann hátt sem sumir leyfa sér á netinu. Heiftin, reiðin og vanþekkingin skín út hjá þessum aðilum sem eru háværir og yfirtaka oft alla umræðu. Yfirleitt hafa skoðanir þeirra sem eru reiðastir og bitrastir á samfélagsmiðlunum alls ekki mikinn hljómgrunn í samfélaginu, það nenna bara fæstir að taka slaginn við þetta fólk á veraldarvefnum. Rétt eins og líf áhrifavalda er ekki alltaf eins mikill dans á rósum og því er stillt upp á samfélagsmiðlum þá eru skoðanir „reiða“ fólksins ekki einkennandi fyrir venjulegt fólk. Samfélagsmiðlar geta því verið blekkjandi og haft í raun og veru skaðleg áhrif – en í flestum tilfellum bara ef við leyfum það. Sjálfur hef ég oft staðið mig að því að vera öskuillur vegna skoðana annarra og hreinlega ekki geta unnt mér fyrr en ég hef komið mínu á framfæri ... sem að sjálfsögðu er hið eina rétta. Deilur og rifrildi á samfélagsmiðlunum enda sjaldnast vel, það vill nefnilega enginn tapa. Ég setti eflaust nýtt viðmið í pirring og ummælum á samfélagsmiðlum í heimsfaraldrinum enda með mjög sterkar skoðanir á þeim málum öllum. Þegar ég horfi til baka þá hugsa ég: „Þvílík tímasóun, vonandi læri ég miðaldra maðurinn og hef mig hægan í næsta faraldri.“ Þakka samt fyrir að vera ekki virkur á Twitter, þar er víst auðvelt að missa vitið á skömmum tíma enda neikvæðnin og klóakumræðan oftar en ekki yfirgengileg.

Public deli
Public deli

En það er ekki hægt að komast hjá því að sjá hluta af þessum umræðum því fréttamiðlar í dag vitna helst til of mikið í samfélagsmiðlana og sumir þeirra gera varla annað. Væri því nokkuð svo slæmt ef Musk stúti hreinlega Twitter? Held ekki.