Pistlar

Pulsusjoppur
Föstudagur 26. ágúst 2022 kl. 10:00

Pulsusjoppur

Hverjum hefði dottið i hug fyrir fáum árum  að ofsahiti, vatnsskortur og gróðureldar yrðu að vandamáli í Evrópu á sama tíma og eitt versta sumar í ungra manna minnum ræður ríkjum á Íslandi? Samt hafði verið við því varað. Það var nefnilega ekki í gær sem fyrst var varað við hnattrænni hlýnun af völdum brennslu jarðefnaeldssneytis. 

Árið 1896, eða fyrir 126 árum síðan, spáði sænski fræðimaðurinn Svante Arrhenius á  því að hækkuð gildi carbon dioxide í lofhjúpnum kynni að valda gróðurhúsaáhrifum svipuðum þeim og við erum að verða vitni að í dag. Hann var talinn neikvæður þá.  Allt frá seinni parti síðustu aldar hafa vísindamenn nánast hrópað um hættuna. Hagsmunaöfl talað niður hættuna og pólitíkusar reynt að halda sig frá umræðunni, væntanlega vitandi að þær breytingar sem við þyrftum að gera á lífsháttum okkar gætu mælst illa fyrir. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú ætti öllum að vera ljóst hver staðan er. Við höfum ekki leyfi til að bíða lengur með aðgerðir. Okkur hefur  hér í Reykjanesbæ tekist að leggja okkar af mörkum. Hafnað stóriðjuáformum sem leitt hefðu til enn meiri mengunar. Framundan er breyting á hugarfari og jafnvel lífsstíl að einhverju marki. 

Hér í Reykjanesbæ eru margar bensínstöðvar þar sem hægt er að fá jarðefnaeldsneyti  á alltof háu verði, ásamt pulsum og kók. Reykjanesbær er fjórða stærsta bæjarfélag landsins með eina hraðhleðslustöð sem Orka Náttúrnar í Reykjavík rekur. Orkufyrirtækin á Suðurnesjum hafa ákveðið að vera stikkfrí. Olíufélögin sem byggt hafa upp aðstöðu til þjónustu virðast ekki ætla að taka þátt í framtíðinni, heldur einblína á sölu jarðefnaeldsneytis þar til síðasti dropinn verður seldur, og enda þá ferilinn  sem pulsusjoppur. 

Það er ljóst að í þessum efnum þurfum við að taka okkur á. Hvetja orkufyrirtæki og þjónustuaðila til að koma upp hraðhleðslustöðvum sem víðast. Hingað munu engir vilja eða geta komið séu innviðirnir ekki i lagi, ekki einu sinni til að kaupa sér pulsu, á meðan ekki er tryggt að þeir komist aftur til baka.