Pistlar

Play it again Sam
Laugardagur 17. apríl 2021 kl. 06:50

Play it again Sam

Bólusetningar ganga vel vestan hafs og samkvæmt heimildum er mikill áhugi þar í landi á ferðalögum til Íslands. Heyrst hefur að vel sé bókað í flugvélar Icelandair og Delta strax í maí. Það er gleðiefni fyrir okkur Suðurnesjamenn og vonandi kemst ferðaþjónustan öll á gott skrið fljótt og örugglega.

Þau gleðitíðindi bárust í vikunni að flugfélagið Play hefur fengið nýja fjárfesta og nýjan forstjóra. Sá er hokinn af reynslu. Vonandi tekst Play að taka upp þráðinn þar sem WOW hætti og bæti vel í ferðamannastrauminn til landsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við höfum nefnilega eignast nýja ferðamannaperlu. Grindavíkurgosið. Eða Hot Stuff eins og Bandaríkjamenn hafa lagt til að það verði kallað í minningu um hermenn sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli.

Grindavíkurgosið hefur hingað til verið rekið af hinu opinbera í umsjá lögreglunnar og með glæsilegu framtaki hjálparsveitanna. Við nefnilega treystum engum til að fara þangað án eftirlits. Skemmtilegustu slóðunum að gosinu sem gaman er að fara á fjórhjólum hefur verið lokað.

Í raun er allt til reiðu til að gera Grindavík frægari en Húsavík. Flottasta fjórhjólaleiga landsins er rekin þar í bæ og Bláa Lónið býr yfir bestu þekkingu á landinu til að taka við þúsundum ferðamanna á dag. Svo ekki sé minnst á frábæra veitingastaði sem er að finna í bænum.

Hot stuff er prófsteinn á hvort við höfum eitthvað lært á síðastliðnum áratug um hvernig nýta megi ferðaþjónustuna til tekjuöflunar. Loka á öllum leiðum að gosinu og erlendir ferðamenn fá eingöngu að komast þangað að gegn greiðslu. Á fjórhjóli, ofurjeppa, í þyrlu eða gangandi með leiðsögumanni. Flugfélögin myndu að sjólfsögðu öll vera með yfirflug yfir gosið á leið sinni inn á Keflavíkurflugvöll og selja aðgang að gosinu um borð. Efir gosför mætti slaka á í Bláa Lóninu. Alvöru pakki á Disney verði. Það þekkja Bandaríkjamenn.

Við þurfum að hefjast handa strax við tekjuöflun og atvinnusköpun og gera Grindavíkurgosið að kvótastýrðri náttúrauðlind. Þannig viljum við hafa auðlindirnar.
Er það ekki?