VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Mannlíf

„Að hlusta á börn syngja er algjör vítamínsprauta“
Fimmtudagur 25. desember 2025 kl. 04:56

„Að hlusta á börn syngja er algjör vítamínsprauta“

Hjördís Rós Egilsdóttir, tónmenntakennari í Myllubakkaskóla, lifir og hrærist í tónlist, í kennslustofunni, á sviðinu, í stúdíói og jafnvel á TikTok. Hún segir tónlistina vera sitt „líf og yndi“ og drauminn nú vera að semja og gefa út eigin lög.

Hjördís Rós er fædd og uppalin í Keflavík og gekk alla hefðbundnu skólagönguna þar: Litla skóla, Myllubakkaskóla, Holtaskóla og að lokum Heiðarskóla þar sem hún útskrifaðist í fyrsta 10. bekk skólans.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Áhuginn á íþróttum var lítill en listirnar tóku fljótt yfir.

„Það hefur alltaf verið leiklist og tónlist. Við vorum alltaf að búa til leikrit og dansa og syngja, ég söng eiginlega öllum stundum,“ segir hún og hlær.

Mikilvæg fyrirmynd í barnaskóla var umsjónarkennarinn Marta Eiríksdóttir sem sá strax að Hjördís var listræn og fékk hana til að blómstra í söng, ljóðalestri og bekkjarsýningum.

Í 7. bekk fór Hjördís í stúlknakór Tónlistarskóla Keflavíkur hjá Gróu Hreins, söng með honum í nokkur ár og fór meðal annars til Bandaríkjanna á kóramót og tóku upp plötu. Um 15 ára aldur tók hún þátt í söngvakeppni Fjörheima, vann þá keppni og fór áfram á Samsuð og Samfés.

„Í kjölfarið skráði mamma mig í söngnám hjá Hjördísi Einars. Ég var í klassísku námi hjá henni í nokkur ár, lærði að lesa nótur og byggja upp röddina. Það gaf mér ótrúlega góðan grunn,“ segir hún.

„Ég fann mig í djassi og blús – þar mátti ég vera pínu krumpuð.“

Eftir klassíska námið fór Hjördís að leita meira að sínum eigin hljómi. Hún fann hann loks þegar hún fór í rytmískt söngnám hjá Birtu Rós.

„Þar kynntist ég djassi og blús og fann að þar voru áhrif sem hentuðu mér. Ég kem frá tíma þar sem þú áttir eiginlega að vera eins og Celine Dion eða Mariah Carey eða þú varst ekki neitt,“ segir hún.

„Í djassi og blús máttu vera pínu krumpuð, leika þér að nótunum og ráða hvernig lagið flæðir. Það var rosalegt frelsi og þar fann ég styrkleikana mína.“

Hjördís gekk svo til liðs við kórinn Vox Felix og þar fann hún sjálfstraustið eflast enn frekar. „Rafn Hlíðkvist fyrrum kórstjóri Vox Felix leyfði mér ekki að vera með neinar efasemdir um sjálfa mig. Ég fékk lög sem ég hélt að ég gæti aldrei sungið, meðal annars stór og mikil gospellög. Þá verður maður bara að treysta röddinni og þegar það small hugsaði ég: Já, þetta verður bara lífið mitt, á meðan ég hef rödd.“

Tónmenntakennari sem kennir „allt í gegnum tónlist“

Í dag starfar Hjördís Rós sem tónmenntakennari í Myllubakkaskóla, hún rekur einnig lítinn söngskóla hér í bæ undir nafninu Söngskóli Hjördísar og samhliða því að vera í Masters-námi í Háskóla Íslands til að ljúka kennsluréttindum.

„Ég er að kenna tónmennt en í raun kenni ég bara allt í gegnum tónlist,“ útskýrir hún.

Hún kennir 4.–7. bekk tónmennt og heldur söngstundir fyrir alla nemendur í 1. til 7. bekk einu sinni í viku. Yngstu börnin fá fjölbreytt úrval af íslenskum lögum en á miðstigi er farið í alls konar ferðalög um íslenska og erlenda tónlist: Bubba, Bítlana, Eurovision-lög og vinsæl nútímalög til að nefna nokkur dæmi.

„Börnin eru bara eins og svampar,“ segir hún. „Þau elska lög eins og Horfðu til himins, Stál og hnífur, Danska lagið og svo mætti lengi telja. Að hlusta á þau syngja hástöfum er algjör vítamínsprauta.“

Í kennslunni notar hún mikið svokölluð Orff-hljóðfæri – Xylophon-a, trommur, hristur, málmspil og fleira og nemendur sem eru í hljóðfæranámi mega koma með sín eigin hljóðfæri inn í tímana.

„Svo erum við að búa til tónlist í GarageBand. Þar get ég látið þau semja, hlaða upp lögum og prófa sig áfram. Þar læt ég þau finna að þau geti sjálf skapað tónlist, ekki bara endurtekið það sem einhver annar samdi og skrifaði.“

„Söngskólinn er svo lítið hliðarverkefni en fyrir 3 árum síðan fékk ég ábendingu um að slíka þjónustu vantaði í bæjarfélagið okkar. Mér þótti það tilvalið verkefni fyrir mig og hefur það fengið að vaxa og blómstra nú í þrjú ár og er ég hvergi nærri hætt.“

TikTok sem gluggi inn í söngstundirnar

Til að leyfa fólki að heyra hvað er í gangi í söngstundunum byrjaði Hjördís að setja myndbönd á TikTok, fyrst undir sínu nafni, síðan undir nafni Myllubakkaskóla þar sem hún starfar.

„Oftar en ekki voru það bara ég, nemendurnir og umsjónarkennararnir sem heyrðu það sem er í gangi í tímunum. Ég hugsaði: Fólk verður að heyra þetta, þetta er svo ótrúlega fallegt,“ segir hún.

Eitt myndbandið, þar sem krakkarnir syngja Róa með Væb rétt fyrir Eurovision, tók sérstakt flug og var kommentað og deilt frá ólíkum áttum.

„Ég er samt engin samfélagsmiðlastjarna,“ bætir hún við og hlær. „Helstu áhorfendur eru nemendur mínir en það er líka bara dásamlegt.“

Kósíbandið og jólin sem vara allt árið

Samhliða kennslu og námi syngur Hjördís í Kósíbandinu, sem hún stofnaði ásamt samstarfsfélögum úr Myllubakkaskóla, þeim Arnóri Sindra, Birnu og Hildi Bjarney.

„Bryndís Guðmundsdóttir, fyrrum skólastjóri Myllubakkaskóla, bað okkur um að setja saman prógram til að kveðja samstarfsfólk sem var að hætta. Við vissum öll að við gátum sungið, svo við hentum í dagskrá og úr varð hljómsveitin Sumarfrí. Svo þróaðist það yfir í Kósíbandið,“ útskýrir hún.

Bandið syngur mestmegnis í tveimur til þremur röddum, stundum fjórum, og kemur fram á árshátíðum, brúðkaupum, jarðarförum, partíum, á Ljósanótt og síðast en ekki síst í Aðventugarðinum þar sem þau eru nú að fara í fjórðu jólin.

„Þetta er heilsársverkefni, ekki bara jólaprógram,“ segir hún. „En okkur langar að gera miklu meira, ekki bara vera ljúft og gott kósýband. Okkur langar að gefa út eitthvað af ábreiðunum okkar ásamt því að fara út í frumsamið efni líka.“

Afmælisgjöfin sem varð fyrsta útgáfulagið

Þótt draumurinn sé að semja meira sjálf er fyrsta lagið sem Hjördís gaf út í eigin nafni ábreiða. Mamma hennar varð 70 ára í september og hún vildi gefa henni eitthvað sem ekki væri hægt að kaupa í búð.

„Mamma er svo ótrúlega nægjusöm, hún á allt og biður aldrei um neitt. Þá hugsaði ég: Ég ætla að gefa henni lag,“ segir Hjördís.

Hún leitaði til Hlyns Þórs Valssonar og Óla Þórs, sem hafa verið henni miklir stuðningsaðilar, og bað þá um að taka upp uppáhaldslag mömmu hennar, Teach Your Children. Upptakan fór fram í Stúdíó Paradís með úrvalshljóðfæraleikurum.

„Ég var svo stressuð að púlsinn var í 112 þegar ég mætti,“ segir hún brosandi. „En þegar við byrjuðum að taka upp og lagið fór að myndast sá ég fljótt að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Það voru fagmenn með mér í liði og vildu gera allt til að gera þetta að fallegri gjöf til mömmu.“

Svo bjó hún til myndband með myndum af mömmu í gegnum árin og myndböndum frá barnabörnum sem komust ekki í afmælið.

„Lagið vakti mikla lukku og mátti sjá tár á hvarmi gesta í afmælisveislunni,“ segir hún. „Ég hef alveg fengið að heyra að þetta hafi verið besta afmælisgjöfin.“

Fyrir áhugasama má finna lagið inni á Spotify.

Fjölskylda, nám og framtíðardraumar

Það er nóg að gera hjá Hjördísi. Hún á þrjár dætur, ellefu, tólf og fimmtán ára, með manninum sínum Ara Lár Valssyni. Það virðist allt stefna í að dæturnar ætli að feta sama farveg og njóta foreldrarnir þess til hins ýtrasta að fylgjast með þeim vaxa og dafna í gegnum listina.

„Eftir ár verð ég vonandi búin að klára námið og get þá nýtt orkuna mína í fleiri sköpunarverkefni,“ segir hún. „Mig langar að gera miklu meira með Kósýbandinu og gefa út fleiri lög.“

Draumurinn um eigið efni er alls ekki langt undan.

„Ég hef lengi verið svolítið hrædd við að semja sjálf,“ viðurkennir hún. „Ég verð samt að breyta því hugarfari, því þegar öllu er á botninn hvolft, hverju hef ég þá að tapa? Ég held að það verði næsta skref, að láta bara vaða,“ sagði Hjördís að lokum.

VF jól 25
VF jól 25