Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Ómissandi hlutir
Föstudagur 1. desember 2023 kl. 06:00

Ómissandi hlutir

Við erum dugleg að taka upp allskonar ósiði frá Ameríku. Sérstaklega í nóvember. Allir eiga þessir dagar það sameiginlegt að þeir kosta. Dagur einhleypra, Svartur föstudagur, Net mánudagur eru allt dagar þar sem verslunareigendur reyna með allskonar gylliboðum að fá okkur til að kaupa eitthvað sem þeir vilja meina að við getum ekki verið án, á verði sem býðst aldrei aftur.

„Við kaupum hluti sem við þurfum ekki fyrir pening sem við eigum ekki, til að ganga í augun á einhverjum sem við þekkjum ekki,“ sagði formaður neytendasamtakanna nýlega í viðtali. Örugglega orð að sönnu í tilfelli margra þeirra sem versla á þessum tilboðsdögum. Við kaupum allskonar hluti sem við vissum ekki einu sinni að við þyrftum, vegna þess að verðið er svo gott. Setjum það svo inn í skáp eða í geymslu, þangað til við höldum að við þurfum að nota það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verð að viðurkenna að sjálfur er ég ótrúlega ginkeyptur fyrir orðinu afsláttur. Hef í gegnum lífið keypt allskonar dót sem ég hef talið að ég gæti ekki verið án. Var reyndar minntur rækilega á það nýlega þegar við hjónin minnkuðum við okkur húsnæðið og fórum á eftirlaun. Ég hafði reiknað með að áður en flutningarnir hófust að við þyrftum nú ekki að losa okkur við mikið, helst væri það að finna í skóskáp konunnar eða fataskáp en annað kom í ljós. Bílskúrinn varð vandamálið.

Ég átti mörg sett af allskonar verkfærum, allt saman nauðsynlegt á þeim tíma sem þau voru keypt en höfðu í tímanna rás safnast upp í góðan lager, lá nánast óhreyfður. Átti til að mynda átta tegundir af dúkahnífum sem ég vissi ekki af og sennilega tvöhundruð blöð í þá. Sem minnti mig svo á sögu þegar ég lánaði tvíburabróður mínum bílskúrinn til að dytta að ferðabílnum sínum. Mér er sagt að við séum alveg eins, þó hann virki mun eldri þegar ég horfi á hann.

Hann hafði ætlað sér að leggja teppi í bílinn en hafði gleymt að taka með sér dúkahníf, sem var jú forsenda þess að hann gæti dúkalagt. Kom til mín og spurði hvort ég ætti ekki dúkahníf. Ég leit yfir hvað ég ætti en sá ekki dúkahnífinn í snöggu bragði. Sagði: „Nei, þú verður að skreppa í Húsasmiðjuna og kaupa þér einn.“

Hann fór af stað og kom til baka. Hafði ekki keypt neitt. Hann hafði lent í þessum daglega tvíburamisskilningi okkar bræðra. „Ég spurði afgreiðslumanninn hvar dúkahnífarnir væru,“ sagði hann. „Þú átt allavega fimm dúkahnífa,“ hafði afgreiðslumaðurinn svarað, „keyptir einn í síðustu viku.“ Hann reyndi að útskýra að hann væri ekki ég. Afgreiðslumaðurinn sýndi skilning en sendi hann til baka. Sagði að ég hefði verið þarna í síðustu viku og fengið góðan afslátt af þessum dúkahníf sem ég keypti. „Hann er bara svo nískur, hann gæti bara lánað honum hnífinn í stað þess að sitja á honum sem ómissandi dýrgrip,“ hafði afgreiðslumaðurinn sagt. Eftir litla leit fannst hnífurinn og hann gat klárað verkið. 

Ég skyldi þá að ég væri einn þessara umhvefissóða sem ég væri stöðugt að gagnrýna, og hef nú fengið að heyra það reglulega í fimmtán ár, undir þeim formerkjum að ég tímdi ekki að lána það sem ég hefði keypt á afslætti. Það væru ómissandi hlutir.