Valhöll
Valhöll

Pistlar

Nokkur hundruð bátar á strandveiðum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 06:05

Nokkur hundruð bátar á strandveiðum

Þar með er maímánuður kominn í gang og þá er líka strandveiðitímabilið árið 2024 hafið. Þegar þessi pistill er skrifaður þá eru um 486 bátar komnir á færaveiðar og langstærstur hluti af þeim bátum eru á strandveiðum.

Það kemur kannski ekki á óvart en Sandgerði er stærsta löndunarhöfn Íslands núna varðandi strandveiðarnar. Bátarnir þar eru 47 sem hafa landað. Næsti bær á eftir Sandgerði er Ólafsvík og þar eru 42 bátar og rétt þar á eftir kemur svo Bolungarvík með 41 bát.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Veiðarnar þessa fyrstu daga í maí hafa gengið mjög vel hjá bátunum þeir hafa verið fljótir að ná skammtinum sínum sem er 800 kg af þorski.  Allt niður í þrjár klukkustundir af ná skammtinum. Og þar sem verð á fiskmörkuðum eru nokkuð góð, þá eru þessi um 800 kg af þorski að gera um 300 til 350 þúsund krónur í aflaverðmæti, ekki slæmt fyrir þriggja klukkustunda vinnu. 

Lítum aðeins á bátana, Tóki ST er með 3,7 tonn í 3 og mest 1,9 tonn í einni löndun. Alla GK 2,2 tonn, Hadda HF 2,1 tonn, Deilir GK 2 tonn, Dímon GK 1,9 tonn, Jói í Seli GK 1,8 tonn og Dóri í Vörum GK 1,8 tonn, allir með tvo róðra hver bátur.

Í allan vetur hefur verið mjög mikil og góð veiði hjá línubátunum og í raun það mikil veiði að stýring á veiðum og sjósókn bátanna hefur verið þó nokkur svo þeir myndu ekki klára kvótann sinn áður enn sumarið kæmi. Fyrsti báturinn af Suðurnesjunum er farinn í burtu en Auður Vésteins SU er farinn frá Grindavík til Stöðvarfjarðar. 

Einhamar sem gerir úr Auði Vésteins SU á eftir samtals um 511 tonna kvóta miðað við þorskígildi og mestur kvótinn sem fyrirtækið á er á Auði Vésteins SU, ríflega 300 tonn,

Líklega verða ekki margir bátar frá Suðurnesjum sem fara í burtu því það er ekkert að slakna á góðri línuveiði og til dæmis er Indriði Kristins BA komin með 48 tonna afla í aðeins þremur róðrum, landað í Sandgerði. Rétt þar á eftir er Sævík GK með 45 tonn í fjórum og landað í Grindavík.  Daðey GK er með 35 tonn í fjórum róðrum og  Hópsnes GK 22 tonn í þremur en það má geta þess að Hópsnes GK átti mjög góðan apríl mánuð þar sem báturinn varð aflahæstur báta að 21 BT í máuðinum á landinu með 164 tonna afla í nítján róðrum. Stór hluti af þessum afla var landaður í Grindavík en er komin til Sandgerðis núna. Geirfugl GK er með 20 tonn í tveimur róðrum og Margrét GK 16 tonn í tveimur róðrum. 

Annars er eitt nokkuð merkilegt með bátinn Margréti GK. Vanalega var það þannig að línubátarnir frá Suðurnesjum hurfu allir í burtu um miðjan eða í lok maí og fóru þá norður eða austur til veiðar og voru þar um sumarið og út haustið.  Margrét GK var á Neskaupstað í október árið 2022 og kom síðan til Sandgerðis og hefur róið þaðan alveg síðan í október 2022. 

Þetta vekur töluverða athygli og maður myndi ætla að veiðin væri mun minni en fyrir t.d. austan eða norðan en hún hefur reyndar ekki verið það. Bátnum  hefur gengið mjög vel á línuveiðunum yfir sumarið og haustið.  Reyndar vinnst margt með því að hafa bátana fyrir sunnan á veiðum. Til að mynda sparast mikill flutningskostnaður og líka að áhafnir bátanna geta verið með sínum fjölskyldum heima í landlegum og tími með fjölskyldum er eitthvað sem ekki er metið að verðleikum.

Eins og staðan er núna þá verður Margrét GK áfram fyrir sunnan í sumar og í haust og líklega munu eitthvað af hinum bátunum líka verða fyrir sunnan.