Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Nokkrir bátar réru á milli jóla og nýárs
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 6. janúar 2023 kl. 06:08

Nokkrir bátar réru á milli jóla og nýárs

Maður er varla búinn að skrifa pistil um að árið 2022 sé liðið þegar árið 2023 er komið í gang. Þetta var líka lítið frí fyrir suma því bæði jól og áramót lentu á helgi.

Í Grindavík voru þrír bátar sem réru á milli hátíða, það voru Óli á Stað GK, Hulda GK og Daðey GK. Hulda GK var með 17,5 tonn í fjórum róðrum, Óli á Stað GK var með 21,6 tonn í fjórum og Daðey GK 16 tonn í tveimur. Voru þetta einu bátarnir sem réru frá Grindavík á milli hátíða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í Reykjanesbæ var enginn bátur og engin löndun milli hátíða og í raun voru landanir í desember í Reykjanesbæ aðeins 22 sem er nú vægast sagt hroðalega lítið. Allt voru þetta landanir frá bátunum hans Hólmgríms.

Í Sandgerði kom Pálína Þórunn GK með 52 tonn í einni löndun en togarinn var búinn að vera við veiðar utan við Sandgerði. Færabáturinn Guðrún GK fór eina sjóferð og vekur það nokkra athygli því það er mjög sjaldgæft að færabátur rói svona seint á árinu. Guðrún GK kom með 1,4 tonn í land í einni löndun.

Margrét GK var með 10,4 tonn í einni löndun. Benni Sæm GK var með 10 tonn í einni og Sigurfari GK var með 12 tonn í þremur, báðir á dragnót.

Ef við lítum aðeins á hafnirnar á Suðurnesjunum fyrir árið 2022, þá lítur það svona út:

Í Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík, voru landanir samtals 614 og var aflinn samtals um tæp 3.400 tonn. Svo til uppistaðan í löndunum í þessum höfnum var frá bátunum hans Hólmgríms; Maron GK, Halldóri Afa GK og Grímsnes GK. Smávegis makríll kom í Keflavík, eða samtals 147 tonn í 91 löndun. Þessi makríll var svo til eini makríllinn sem veiddist á færi á landinu, auk smávegis frá Ólafsvík.

Í Grindavík voru landanir alls 1.468 og var tæpum 33 þúsundum tonna afla landað þar. Stór hluti af þeim afla kemur frá frystitogurum því Hrafn Sveinbjarnarsson GK og Tómas Þorvaldsson GK lönduðu langmestum hluta sínum þar, eða tæpum 15 þúsund tonnum.

Langmestur hluti þessara landana kom á vertíðinni og bátarnir skiptust á að landa þar og í Sandgerði. Enginn uppsjávarfiskur kom til Grindavíkur árið 2022 og í raun kom enginn uppsjávarfiskur á neinar hafnir á Suðurnesjunum nema makríllinn sem minnst er á hérna að ofan.

Sandgerði hefur um árabil verið með stærri löndunarhöfnum landsins og þar voru landanir alls 2438 og aflinn tæp 13 þúsund tonn. Aðeins einn togari landaði þar reglulega, Pálína Þórunn GK, en á árum áður voru allt upp í fimm togarar sem lönduðu þar reglulega, t.d. Sveinn Jónsson GK, Ólafur Jónsson GK, Berglín GK, Sóley Sigurjóns GK og Haukur GK.

Hvorki rækja né humar kom á land í Sandgerði og gerði það ekki heldur í hinum höfnunum nema smá rækja kom í Njarðvík þegar Sóley Sigurjóns GK kom þangað með um 4,5 tonn í lok rækjuvertíðar sinnar.

Heilt yfir held ég að Sandgerðishöfn og Grindavíkurhöfn geti verið nokkuð sáttar við sinn hlut fyrir árið 2022 en staðan lítur ekki eins vel út fyrir Reykjanesbæ og höfnina þar – og það væri mikill munur ef loðnuverksmiðjan í Helguvík myndi verða ræst aftur því það er frekar ömurlegt að vita af því að loðnan sem veiðist, þegar hún gengur hérna í kringum Suðurnesin, fer öll til vinnslu á Austurlandi eða í Vestmannaeyjum.

Samantekt: Heildarlandanir alls 4.520 og heildarafli alls um 49 þúsund tonn á Suðurnesjum árið 2022.