Pistlar

Mánuður eftir!
Þriðjudagur 8. desember 2020 kl. 16:14

Mánuður eftir!

„Árið 2020 verður viðburðaríkt ár. Ár rottunnar gengur í garð á kínversku nýári, víða um veröld verður gengið til kosninga og haldnir verða stórir íþróttaviðburðir. Þetta verður spennandi og skemmtilegt ár.“ Á þessum orðum hófst grein í einum miðlanna hérna heima í byrjun janúar á þessu ári.

Enginn sá það fyrir að árið 2020 yrði algjörlega glatað, nöturlegt en jafnframt afar lærdómsríkt. Fyrst og fremst leiðinlegt samt. Þökkum fyrir það að einungis einn mánuður er eftir af þessu ári, 2021 verður betra það er bara ekki fræðilegur möguleiki á öðru. Ef það á að fara yfir einhverja jákvæða hluti þá ber fyrst að nefna þá staðreynd að við eigum aldrei eftir að taka mörgu sem sjálfsögðum hlut aftur, t.d. að faðmast, fara í sund eða hreinlega að heimsækja nánustu ástvini.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Annað jákvætt er svo reyndar að það fer sumum hreinlega betur að vera með grímur, það er bara þannig. Hitti einn í Nettó um daginn sem yfir höfuð ég nenni ekkert að heilsa því það lekur af manninum fýlan, núna sá ég ekki skeifuna og gríman hans mesta gjöf. Eurovision, kannski ágætt að því öllu var slaufað því lag Daða var ansi gott og væntingar okkar miklar, hefðum verið skotin niður að venju. Hérna fyrir sunnan hefur höggið verið hvað mest, atvinnuleysið í tölum sem sjaldan eða aldrei hafa sést áður. Við erum baráttufólk og mér heyrist meiri bjartsýni og hugur í mönnum fyrir árinu 2021, það er jú að koma bóluefni sem skal og verður öllu að bjarga. Tveggja metra reglan, metra reglan, sóttkví, boð og bönn, sundleysið, lokun golfvalla, engar íþróttir, gjaldþrot, þunglyndi … þetta er komið gott. Það sem mestu máli skiptir er þó að vonandi hverfur þessi ansans veira sem hefur dregið 27 manns til dauða til þessa. Aðgerðir vegna veirunnar hafa svo valdið skaða sem verður ekki mælanlegur fyrr en eftir einhver ár, það verður ekki minna. Nú verðum við bara að snúa bökum saman og ákveða það hér og nú að árið 2021 verði árið sem táknar upprisu og gleði. Það verða margir sem ég á eftir að faðma þétt að mér á næstu mánuðum og mikið væri ég til í að sjá eitt stykki bólusetningu með hverjum seldum miða á þorrablótin í janúar! Væri það ekki gargandi snilld að fagna nýju ári þannig. Langsótt en menn verða að láta sig dreyma, annars rætist það ekki. Nú snýst þetta um að þrauka … aðeins lengur!

Örvar Þór Kristjánsson