Lokaorð – frá sjónarhorni Lubba
Fyrir um 28 hundaárum síðan var ég bara glaður og kátur, nýkominn úr göngutúr í fallegu veðri um uppáhalds strandleiðina mína í Keflavík þegar mér var bara rétt sitt svona troðið inn í búr, eitthvað sem ég (frekar mikill forréttinda – sofauppí -hundurinn) var alls ekki vanur. Og svo var búrinu skellt inn flugvél og ég var settur með farangrinum. Mörgum hundaklukkutímum síðan – eða hundaárum eins og mér fannst það vera – var búrinu, með mér, skjálfandi og vælandi, svo skellt á færiband á Charles de Gaulle-flugvellinum í París þar sem pabbi sótti mig eins og hverja aðra ferðatösku. Það var fyrst þarna í þessari flugferð sem ég skildi hvað orðið „hundleiðinlegt“ merkir.
En þegar heim var komið á nýja heimilið okkar í París og eftir fyrsta göngutúrinn um nýja hverfið mitt, þar sem ég merkti að sjálfsögðu hvern staur, sá ég fljótt að það voru margir góðir kostir við þetta nýja umhverfi. Hér eru í fyrsta lagi miklu fleiri hundar en í Keflavík, allt frá rytjulegum rökkum upp í mjög vel snyrtar og snobbaðar tíkur. Og þar sem ég kunni ekki að gelta á frönsku þegar ég mætti á svæðið var ég glaður að sjá að það er ekki bara á Íslandi þar sem hundar heilsast með því að þefa af rassinum á hverjum öðrum. Þetta er greinilega alþjóðlegt. Hundarnir eru almennt mjög næs og almennilegir – með örfáum undantekningum þegar við strákarnir „ennþá með kúlurnar“ mætumst.
En svo er það er ekki bara fjölbreytta hundalyktin hér í París sem gleður mig því að í hverfinu okkar er líka svo margt annað til að þefa af – slátrarar, bakarar og veitingastaðir við hvert fótmál og ilmurinn... maður/hundur minn... er dásamlegur. Ég fæ vissulega aldrei neitt úr bakaríinu en þegar komið er við hjá slátraranum veit ég að von er á því að bitar geti dottið á gólfið. Mér þykir líka ótrúlega gaman að koma við á öllum þessum veitingastöðum í hverfinu þar sem við hundarnir erum alltaf velkomnir, og í viðbót við vatnið, sem mér er ávallt boðið og fært í fallegri silfurskál, detta stundum gómsætir bitar alveg óvart á gólfið. Ég hef því fengið að smakka á franskri matargerð eins og hún gerist best - en alltaf er ég þó glaðastur þegar eitthvert mitt fólk, eða gestur, kemur frá Íslandi og í töskunni leynist góðmeti eins og slátur, sviðasulta eða harðfiskur.
Það að vera hundur, búandi í þessari borg lista og menningar, hef ég alveg fundið fyrir krefjandi þörf fyrir að skapa eitthvað stórkostlegt og hef ég fengið útrásina í vegglistinni, eins og hinn frægi Banksy. Andinn kemur vanalega yfir mig í sumum af mínum fjölmörgu göngutúrum og þá, í stað þess að kúka á gangstéttina eða á grasbala, vel ég vandlega mjög áberandi vegg, helst ljósan húsvegg, og smyr „málningunni“ listrænt á hann. Ég fæ síðan hjálp frá þeim sem er að ganga með mér, vanalega pabba eða mömmu, því þegar þau, frekar fúl yfir athæfi mínu, reyna að hreinsa þetta af veggnum, verður alltaf eftir eitthvað fallegt mynstur eða mynd sem gleður gangandi vegfarendur næstu daga.
Fyrir ekki löngu náði pabbi til að mynda að strjúka þessu þannig að úr varð mynd af Eiffelturninum. En ég læt frekar fylgja þessa mynd af okkur herra Eiffel og kveð að frönskum sið – la voff!






