Public deli
Public deli

Pistlar

Loftbrú
Föstudagur 12. janúar 2024 kl. 06:04

Loftbrú

Brá undir mig betri fætinum um jólin og fór í tíu daga heimsókn á töfraeyjuna Tenerife. Hafði aldrei skilið hvað væri svona spennandi við að heimsækja spænska smáeyju rétt vestan við Afríku.

Um er að ræða einstaklega vinsælan áfangastað fyrir sólþyrsta Íslendinga enda veðrið á eyjunni einstaklega milt og gott. Eftir heimsókn í matvöruverslun þar sem hægt var að kaupa bæði léttvín, bjór og sterkt vín ásamt öllu því sem við erum vön að fáist í slíkum verslunum er annað en hægt að staldra við og spyrja sig. Hvernig er þetta hægt? Við vorum fjögur í heimili þessa tíu daga og öll í fríi. Innkaupin eftir því. Þrjátíu bjórar, fjórar léttvínsflöskur, nóg af beikoni, egg, jógurt, ávextir, brauð, mjólk, kornflex, álegg, eiginlega bara allt sem þarf í morgunverð í tíu daga og hóflega léttvínsdrykkju og snakkerí í sólinni. Verð alls 25.000 krónur tæpar. Greitt í Evrum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kjarasamningalotan framundan á að snúast byggingu loftbrúar frá Íslandi til Tene. Allir Íslendingar skuli dvelja á Tenerife í a.m.k. tvær vikur á tímabilinu frá 15. október til 15. mars. Til að losna við skammdegið og fá að kynnast verðlagi sem er í einhverjum allt öðrum veruleika. Þrátt fyrir að vera smáeyja langt frá ströndum Spánar virðist flutningskostnaður ekki leggjast mjög þungt á vörukostnað á Tenerife, ólíkt eyju sem er fimmtíu sinnum stærri og liggur fjögur þúsund kílómetrum norðar í Atlantshafinu. Íbúar Tenerife eru 950.000 og á árinu 2022 tóku þeir á móti 5,8 milljónum ferðamanna meðan vinir þeirra í norðri voru að sligast undan heimsóknum 1,7 milljóna ferðamanna.

Að sjálfsögðu þykir Tenebúum gott að leigja út íbúðir á Airbnb svo fasteignaverð er nokkuð hátt miðað við hvað gengur og gerist. Betra finnst þeim að kynnast fólki í gegnum Airbnb, hafna íbúðaleigunni en fá leiguna greidda með reiðufé í staðinn. Evrum, ekki krónum. Þannig geta séðir fengið afslátt. Nýi vinur minn Kristof sagði mér að ég fengi betra verð ef ég myndi bara hringja beint í hann næst.

Skildi því vel atriðið í áramótaskaupinu um konuna sem fór í jólatene, golftene, páskatene og sumartene. Þetta eru bara sparnaðarferðir.