Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Lífið í Ashram fyrir vestræna drottningu
Laugardagur 15. febrúar 2020 kl. 07:54

Lífið í Ashram fyrir vestræna drottningu

Ég er stödd á Govardhan Eco Village sem var stofnað af Radhanath Swami, bandarískum munki. Bókin The Journey Home fjallar um sögu þessa einstaka manns, hún er skyldulesning, ég meina það! Hér er allt lífrænt og sjálfbært eins og hægt er. Sem dæmi þá er vatnið notað tvisvar. Allt sem kemur úr klósettum, vöskum og sturtum er notað til þess að vökva blómin. Það er að segja það sem er í fljótandi formi, hitt sem er í föstu formi er notað sem áburður. Jebb, svoleiðis er það. Í Ashram (jógasetri) er boðið upp á þrjár vegan-máltíðir á dag og te, ekkert kaffi og ekkert sem inniheldur koffín.

Ashram er staður til þess að stunda jóga, hugleiðslu og aðrar andlegar æfingar til þess að vaxa og þroskast sem einstaklingur. Í Ashram er hvorki þörf né pláss fyrir lúxus. Tilgangurinn er að fara inn á við, aftur í grunninn og fá tækifæri til þess að skoða venjur og mynstur í daglegu lífi. Skoða hvað þjónar okkur og hvað ekki. Erum við að halda áfram veginn af gömlum vana, án þess að vera meðvituð? Hér er einnig tími til þess að skoða hvernig manneskjur við viljum vera og hver leiðin sé til þess að verða sú manneskja. Endurskoða gildi og viðhorf okkar og jafnvel  uppfæra ef við metum það þannig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það voru nokkrir gistimöguleikar í boði fyrir okkur jóganemana. Vestræna drottningin sem tekur hlutina stundum alla leið valdi að sjálfsögðu einföldustu gistinguna. Þá búum við í sambýli með munkum og verðandi munkum og deilum baðherbergi með þeim. Við komuna hingað voru okkur lagðar eftirfarandi línur: Hyljið líkamann, axlir og leggi á göngu um bygginguna og þorpið (ekkert að vera að rugla munkana í ríminu). Spara klósettpappírinn og ekki setja hann í salernið heldur ofan í ruslafötuna (ekki hægt að gera áburð úr klósettpappír). Það er ekki nauðsynlegt að sturta niður eftir lítið piss. Inni á baðherbergjunum er stór stálfata til þess að nota við minni líkamsþvott, þegar ekki er þörf á sturtu, en einnig heppileg til þess að þvo þvottinn sinn í höndunum. Við hliðina á klósettinu er lítill sturtuhaus til skolunar, þannig að við hverja klósettferð þarft þú að taka meðvitaða ákvörðun, velja um að splæsa i klósettpappír eða að skola.

Nú skyldi „simple living, high thinking“ tekið alla leið. Þannig að nú er staðan þannig, í 30 stiga hitanum, að við hvern þvott þarf að velja hvort það eigi að splæsa í sturtu eða þvott í fötunni og ef splæst er í sturtu, þá setur maður óhreina þvottinn í fötuna. Tekur fötuna með í sturtuna svo afgangsvatnið safnist þar, svo þvær maður í höndunum um leið og maður þvær sér í sturtunni. Einnig er praktískt, þegar splæst er í sturtu, að fara í hana um kvöldmatarleytið svo hárið nái að þorna fyrir nóttina, enginn hárblásari hér. Verst er þó þegar maður lendir í því að þurfa að pissa á nóttunni, að fara að klæða sig, þið vitið til að skottast á klóið. Þetta er ekki langt, svona 30  metrar en ég gæti hitt mýs og froska. En mamma benti mér á að vera nú ekkert að vesenast í því að fara á klóið á nóttunni. „Una mín, náðu þér i fötu og pissaðu bara í hana á nóttunni, góða besta, fólk hefur pissað í koppa í aldaraðir.“ Já, einmitt elsku mamma, ég hugsa málið.

Á þessum degi þegar þetta er skrifað er barnabarnið mitt, hún Una mín, fjögurra ára. Ég hef verið sorgmædd í dag yfir því að hafa ekki verið til staðar fyrir mömmu hennar í afmælisstússinu, bara að vera með stelpunni minni í þessu, ég var heldur ekki til staðar í fyrra. Ég er búin að koma upp fjórum börnum og fyrirmyndin mín í lífinu, hún mamma mín, hefur alltaf verið með mér í öllum afmælum með öll börnin mín. Ég hef ákveðið að missa ekki af næsta afmæli hjá Unu litlu.

Namaste.
Una Sig.