Pistlar

Laufey okkar!
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 06:00

Laufey okkar!

Ég er vandræðalega spennt fyrir kvöldinu í kvöld. Ég er svo heppin að vera að fara á tónleika með Laufeyju og get hreinlega ekki beðið. Eins og allir Íslendingar er ég að rifna úr stolti yfir nýjasta Grammyverðlaunahafanum okkar, dáist að þessari stórkostlega hæfileikaríku tónlistarkonu sem er að leggja heiminn að fótum sér. Þegar maður býr í útlöndum verður maður jafnvel ennþá stoltari.  Ég þarf að segja öllum frá henni og hversu ótrúlegt ferðalag hennar að heimsfrægð hefur verið. Það skemmtilega er að flestir hafa þegar heyrt af henni. Hún er nefnilega algjörlega búin að meika það.

Ég bjó í Bandaríkjunum þegar Björk var á svipuðum stað í heimsfrægðinni og var svo heppin að sjá hana á tónleikum í New York árið 1995. Ég gleymi því aldrei hvað ég var stolt þegar salurinn hreinlega trylltist þegar hún steig á svið. Það sem var svo magnað var að meirihluti tónleikagesta kunni greinilega öll lögin utan að og söng hástöfum með, líka með lögunum sem voru á nýútkomnu plötunni og ég hafði varla heyrt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er ákveðinn samnefnari með þessum tveimur stórkostlegu tónlistarkonum, tónninn í tónlistinni þeirra er nýr, frumlegur, ferskur og framandi. Þær búa til strauma í stað þess að elta þá og ná fyrir vikið óskiptri athygli.

Íslenskt tónlistarlíf er magnað og hreint með ólíkindum hversu marga heimsfræga tónlistarmenn við „eigum“ – því auðvitað á íslenska þjóðin í þeim hvert bein. Og við Suðurnesjamenn ekki síst – Of Monsters and Men er sko hljómsveitin okkar, með Keflvíkinginn Brynjar og Garðbúann Nönnu í forgrunni. Algjörlega frábær. Það eru mikil verðmæti fyrir litla þjóð að „eiga“ svona góða listamenn – menningarlegt gildi að sjálfsögðu, en einnig og ekki síst á venjulega efnahagsmælikvarða með allri þeirri landkynningu sem velgengni þeirra fylgir. Bravó!

Ég hlakka ótrúlega mikið til kvöldsins. Get hreinlega ekki beðið!