Labúbú… hvað?!
Nýjasta æðið hjá æskulýðnum í dag er lítil vera sem kallast því góða og gilda nafni Labúbú. Fyrir þá sem ekki vita eru þetta hinir ófrýnilegustu bangsar sem kosta hálfan handlegg eða allt upp í 15.000 krónur stykkið, takk fyrir pent. Og nú vilja mín börn líka eignast slík djásn. „Já mamma! Labúbú! Það eiga allir svoleiðis!“ Einmitt…
Ég reyndi að gera dóttur minni grein fyrir því að í Hong Kong væri maður að nafni Kasing Lung sem væri í þessum töluðu orðum að græða á tá og fingri einungis vegna þess að litlum kollum finnast bangsarnir sem hann hannar algjörlega ómissandi. Og ekki nóg með það heldur koma þeir í lokuðum kassa svo að það er með öllu ómögulegt að vita hvaða týpu eða hvaða lit þú færð. Eftir tvo mánuði verða svo allir hættir að vilja Labúbú og þá munu Rauða Kross búðir og fjölsmiðjur fyllast af slíku góssi. Bara svona eins og með Dubai súkkulaðið sem kostaði á tímabili 1800 krónur en fer nú hríðlækkandi í verði. Væri líklegast komið niður fyrir fimm hundruð kallinn ef ekki væri fyrir rísandi kakóverð á heimsmælikvarða.
Ég var farin að fussa og sveia yfir þessu, rétt eins og eldri kynslóðin gerði þegar ég var lítil. En það er nefnilega ekkert svo langt síðan að undirrituð VARÐ að eignast Pokémon spjöld, lukkutröll, kærleiksbangsa og Pogs spjöld. Sem svo seinna meir urðu Diesel gallabuxur, plastarmbönd, Buffaló skór og samlokusími. Ef maður ætlaði að vera maður með mönnum varð maður að eignast þessa hluti.
Ætti ég þá sem foreldri að berjast á móti neysluhyggjunni og tískubylgjum eða verð ég að játa mig sigraða? Kannski er það bara þannig að hver kynslóð á sinn Labúbú. Við foreldrar getum reynt að synda á móti straumnum og rökrætt verðmiðana en á endanum verða þessi litlu æðisgengnu undur bara hluti af barnæskunni – alveg eins og Pogs, Buffaló og samlokusímar voru fyrir okkur. Og kannski er það bara allt í lagi. Því þegar upp er staðið, þá hverfur æskan en minningarnar um það sem okkur þótti ómissandi lifa áfram – hvort sem það var Labúbú eða lukkutröll.