Keflavíkurkirkja
Keflavíkurkirkja

Pistlar

Kirk Douglas í fimm mínútur
Föstudagur 31. mars 2023 kl. 06:36

Kirk Douglas í fimm mínútur

Það getur verið erfitt að vera ég. Ég er eineggja tvíburi og tvíburabróðir minn er svo heppinn að vera talsvert líkur mér. Þetta kemur út í ýmsum myndum, ég þarf oft að heilsa fólki sem ég þekki ekki neitt og okkur er ruglað saman endalaust. Vandamál okkar er að við erum ekki bara líkir ásjónu heldur virðumst við hafa svipaða hugsun og stundum tilsvör. Við höfum báðir gaman af að ferðast.

Ég og frúin höfðum  ákveðið að fara á Snæfellsnes. Veðrið var frábært og þegar vestur var komið ákváðum við að keyra upp á fjallsöxlina við Snæfellsjökul, útsýnið var frábært og seiðmagnað. Svo seiðmagnað að við ákváðum að ganga upp á  jökulinn. Þegar hátindinum var náð blasti við eitt það ægifegursta útsýni sem hægt er að hugsa sér. Breiðafjarðareyjarnar og Faxaflóinn lágu undir fótum okkar. Sáum grænt og fallegt tjaldsvæði niður á Arnarstapa. Þar skyldi tjaldað, grillað og haft gaman.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Þegar í Arnarstapa var komið, kom í ljós að að þetta var ekki spennandi tjaldsvæði. Þetta var kríuvarp. Nú voru góð ráð dýr. Komið að kvöldi og ekkert annað í stöðunni en að keyra á Hótel Búðir og athuga hvort þar væri laust pláss. Taldi þó réttara að  að labba fyrst inn og athuga hvað svona gisting myndi kosta. Stúlkan í afgreiðslunni sagði verðið, ég saup hveljur. „Þetta er dýrara en dýrustu hótel í New York,“ var það eina sem mér datt til hugar að segja. Ákvað að gista annars staðar þessa nótt, grillaði á ströndinni í stafalogni. Betra gat það ekki orðið.

Daginn eftir gengum við á Baulu, vitlausu megin, áður en við enduðum á tjaldsvæðinu í Húsafelli. Þá byrjuðu hlutir að gerast sem ég hafði ekki átt von á. Eftir að hafa tjaldað í fallegu rjóðri ákváðum við að skella okkur í laugina eftir átök dagsins. Þegar ofan í laugina var komið fann ég fyrir því að erlend kona horfði mjög ákveðið á mig um leið og hún mjakaði sér nær mér. Sem betur fer var eiginkonan á milli, mér til varnar. Þegar hún var alveg komin að frúnni hellti hún sér yfir hana og spurði. „Hvernig má það vera að á Íslandi séu svo margir karlmenn svona nauðalíkir Kirk Douglas?“ Sagðist hafa séð annann nákvæmlega jafn líkan Kirk Douglas á Ísafirði daginn áður. Heldur stækkaði nú sjálfsálitið hjá mér, eða allt þar til að frúin  sagði að nú væri kominn tími til að fara upp úr.

Þegar við göngum svo upp að tjaldsvæðinu sé ég skyndilega hnakkasvipinn á sjálfum mér ganga á undan mér. Hugsaði um hve mögnuð áhrif jökulsins væru en þetta átti sér eðlilegar skýringar. Þar var þá kominn tvíburabróðir minn sem hafði tjaldað hinum meginn við runnann þar sem við höfðum tjaldað í. Hann sagði sínar farir ekki sléttar.

Hann hafði þá verið á leið suður frá Ísafirði, ákveðið að gera sér dagamun síðustu nóttina og gista á Hótel Búðum. Ákvað að fara samt inn til öryggis og kanna hvað slík gisting gæti kostað. Afgreiðslukonan sagði honum það og það eina sem honum datt í hug að svara var: „Þetta er bara dýrara en dýrustu hótel í New York.“ Honum sagðist hafa brugðið við viðbrögð afgreiðslukonunnar. „Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Þú kemur bara hérna inn dag eftir dag með sömu spurningnar en aðra konu. Heldurðu að við höfum ekkert annað að gera en að standa í svona vitleysu?“

Ég ákvað að segja lítið en hugsaði þó með með mér. Hvað skyldi afgreiðslustúlkan segja ef Kirk Douglas kæmi sjálfur á hótelið?

Rándýr lokaorð hjá Hannesi. Jafnvel dýrari en dýrustu hótel í New York!