Pistlar

Gosfarir
Laugardagur 10. apríl 2021 kl. 07:46

Gosfarir

Eins og svo margir aðrir þá ákvað ég að henda mér í „göngutúr“ til þess að sjá með berum augum gosið í Geldingadölum. Valdi reyndar alveg kolvitlausan dag þar sem veðrið var svo dásamlegt og ætlunin var að sjá herlegheitin í ljósaskiptunum. Fleiri en ég fengu reyndar þessa snilldar hugdettu og algjört umferðaröngþveiti myndaðist í Grindavík. Margir bæjarbúar áttu erfitt með að komast heim á leið eftir vinnu og veit ég um nokkra afar fúla sem komust ekki einu sinni í Vínbúðina! Við feðgar gerðum gott úr þessu enda til verri staðir en Grindavík til að vera fastir á og ákváðum bara að leggja í Grindavík, lengja gönguna sem eftir á að hyggja var kannski ekki besta hugmynd ársins. Eftir aðeins of langa göngu komum við að brekkunni góðu (á leið B) og það var ansi krefjandi fyrir gamla en guttinn minn (sjö ára) þaut upp án vandræða. Sá stutti gerði mikið grín af pabba sínum. „Þurfum við að stoppa svona oft,“ sagði hann nokkrum sinnum en gamli varð aðeins að fá að blása reglulega. Skil vel að fólk hafi örmagnast þarna enda sá maður allt of mikið af illa búnu fólki þarna á ferðinni. Lakkskór og gallastuttbuxur ekki beint góður útbúnaður fyrir fjallgöngu enda er þetta ekkert annað. Við feðgar vorum þreyttir en ekki örmagna þegar við sáum loksins gosið góða og það gerði ferðina vel þess virði.

Þetta er bara eitthvað sem erfitt er að lýsa í orðum en mörg ykkar eflaust búin að kíkja upp eftir og vitið nákvæmlega hvað ég á við. Hvet ykkur öll sem eigið þetta eftir að fara en að sjálfsögðu skipuleggja ykkur vel og fara eftir öllum fyrirmælum. Verð að hrósa björgunarsveitunum okkar, sérstaklega þeim í Þorbirni, en þetta fólk er alveg hreint magnað. Góður maður sótti okkur feðga svo á Suðurstrandarveg hjá upphafspunkti gönguleiðar. Við áttum enga orku eftir til að labba þaðan aftur upp í Grindavík. Nú þegar þessi orð eru rituð hefur þriðja sprungan opnast á svæðinu og gosið í Geldingadölum er nú umvafið jarðeldum. Þar sem fólk stóð fyrir viku síðan og virti fyrir sér gos er nú bullandi gos. Litla túristagosið okkar er að stækka og framhaldið mjög svo áhugavert. Við vonum það besta og viljum auðvitað ekki að þetta fari að ógna mannvirkjum eða heilsu fólks. Ef þessar sprungur halda áfram að poppa upp á sama hraða og í gatnakerfi Reykjanesbæjar þá er reyndar voðinn vís.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024