Miðflokkurinn
Miðflokkurinn

Pistlar

Bólusetningar og bjartsýni
Föstudagur 25. júní 2021 kl. 07:40

Bólusetningar og bjartsýni

Það voru vissulega stór tíðindi þegar ljósmyndari Víkurfrétta smellti mynd þegar síðustu Suðurnesjamennirnir fengu bólusetningu í síðustu viku. Það er búið að boða alla í bólusetningu sem eru skráðir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og aðrir á svæðinu hafa fengið boð frá höfuðborgarsvæðinu. Lang flestir hafa farið en einhverjir hafa ekki þegið bólusetningu en þeir eru fáir. Seinni bólusetningu lýkur í sumar. Hver hefði trúað því fyrir ári síðan að þetta myndi ganga svona vel.

Víkurfréttir fyldust með þegar fyrstu skammtarnir af sprautum með bóluefni við Covid-19 komu til Suðurnesja í upphafi árs. Þegar framlínustarfsmenn HSS höfðu fengið fyrstu sprauturnar fylgdumst við með því þegar María Arnlaugsdóttir, elsti íbúi Suðurnesja og fleiri aðeins yngri en hún, fengu fyrstu skotin. María fagnaði sprautunni og sagðist þokkaleg, að verða 100 ára. Þeim áfanga náði hún svo síðasta laugardag. Hún var hress og er búin að fara og sjá gosið. Það hlýtur að vera eitthvað fyrir aldargamla konuna.

Viðreisn
Viðreisn

Um leið og þessar fréttir hafa verið að berast hafa fleiri góðar fréttir verið að birtast að undanförnu. Þær vísa allar í jákvæða átt í atvinnulífinu og ættu að vinna á allt of háu atvinnuleysi á Suðurnesjum sem fór í 25% þegar mest var. Samherji tilkynnti í síðustu viku áform um risa landeldi á laxi sem verður á Reykjanesi, í nágrenni Reykjanesvirkjunar. Kostnaðurinn við bygginguna sem verður stærri en álvershúsin í Helguvík sem Samherji hafði hug á að nota en gekk ekki, eru 45 milljarðar króna. Á Reykjanesi standa yfir stórframkvæmdir HS Orku við stækkun Reykjanesvirkjunar. Milljarðar þar og margir milljarðar við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Milljarðar í stækkun frumkvöðlafyrirtækisins Algalífs á Ásbrú. Í vikunni fara Icelandair í fyrsta skipti yfir 100 brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í rúmt ár eða frá upphafi heimsfaraldurs.

Í kófinu hafa svo sumir barist meira en aðrir og gott dæmi um það er Hótel Keflavíkur fjölskyldan. Hún hefur sýnt skemmtilegt fordæmi um dugnað og framsýni og fagnar nú 35 ára afmæli. Hótelfeðgarnir þóttu skrýtnir árið 1986 að opna túristahótel en nú getum við sagt að þeir hafi verið framsýnir.

Framkvæmdir við ný hverfi eru ný hafnar í Suðurnesjabæ og Grindavík sem veit á gott. Gosið er að gera okkur gott og frá því sögðum við í Víkurfréttum í síðustu viku, hvernig Suðurnesjamenn ætla að nýta sér þetta magnaða gos sem fagnaði þriggja mánaða afmæli í síðustu viku. Í þeim fögnuði þarf þó að huga að einum óvissuþætti. Hvert er hraunstraumurinn að stefna? Nú þurfum við okkar allra bestu sérfræðinga til að koma með hugmyndir um það hvernig við getum haft áhrif á það.

Suðurnesjamenn hafa fengið nokkur stórverkefni í fangið á síðustu fimmtán árum, verkefni sem hafa verið erfið, eins og brottför Varnarliðsins og heimsfaraldur svo bara tvö þeirra séu nefnd. Lausnir hafa fundist og við höfum unnið okkur úr erfiðleikum sem þessum óvæntu atburðum hafa fylgt.

Það var Suðurnesjamaður sem mætti með lausn til að eiga við hraunstraum í gosinu í Eyjum 1973. Eigum við ekki að trúa því að það finnst lausn á óvissu í Fagradalsfjalli? Ég ætla að gera það.