Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Pistlar

Auðvelt að nálgast ufsakvóta
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 21. júlí 2023 kl. 08:20

Auðvelt að nálgast ufsakvóta

Allt að gerast á Reykjanesskaganum og þegar að þessi pistill er skrifaður er enn eitt eldgosið hafið, núna rétt sunnan við fjallið Keili. 

Þetta mun væntanlega þýða að sumrinu árið 2023 sé þar með lokið því undanfarin tvö eldgos, þegar að vindáttin var þannig að reykurinn frá gosinu stóð yfir bæina eða Reykjanesbrautina, þá var alltaf einhver væta í skýjunum.

Nóg reyndar um þetta gos. Kannski ekki mikið hægt að tengja sjávarútveginn við eldgos – nema kannski nafnið Keilir. Því jú, nokkir bátar hafa heitið Keilir, þó svo þeir hafi nú ekki verið gerðir út frá Suðurnesjum að undanskildum bát sem hafði skipaskrárnúmerið 1420. Sá bátur er núna á Siglufirði og búið að rífa brúnna af honum og taka mikið í gegn. Hann heitir Örkin SI núna og er notaður í ferðamennskuna.

Þessi bátur hét Keilir GK frá 1998 til 2000 og var þá gerður út frá Sandgerði, var svo seldur til Siglufjarðar og hélt Keilisnafninu en var þá orðinn Keilir SI og með því nafni réri báturinn allt til 2017. Síðustu árin réri báturinn á netum frá Njarðvík og Sandgerði og lagði þá upp aflann hjá Hólmgrími sem ég hef skrifað ansi oft um hérna í þessum pistlum.

Síðasta löndun bátsins var í Grindavík um miðjan maí árið 2017 og var þá báturinn með 2,3 tonn í einni löndun.

Talandi um netaveiðar þá er ekki einn einasti bátur á netaveiðum núna í júlí og í júni var enginn heldur á netum frá Suðurnesjum nema smábáturinn Byr GK sem landaði í Keflavík um 1,8 tonni í tveimur róðrum. Núna eru aðeins fjórir netabátar á Suðurnesjum, það er Erling KE, Maron GK og Halldór Afi GK og sá fjórði er Hraunsvík GK sem stundar núna strandveiðar.

Þessi vika gæti verið síðasta vikan sem strandveiðibátarnir geta róið, því að stutt er í að þorskvótinn klárist sem var úthlutaður í þennan flokk, eða rúmlega tíu þúsund tonn.

Smábátasjómenn og smábátafélögin í kringum landið óskuðu eftir því við sjávarútvegsráðherra að hann myndi auka kvótann um fjögur þúsund tonn. Sjávarútvegsráðherra sagði pent nei, búið væri að úthluta öllum heimildunum.

Svo hvað gera sjómenn þá? Eins og fram hefur komið hérna þá er mjög stór floti af færabátum og strandveiðibátum sem róa frá Grindavík og Sandgerði, langflestir frá Sandgerði, allt upp í 69 bátar sem landa þar á einum degi.

Jú, ansi margir ætla sér að fara að veiða ufsa því nóg er eftir að ufsakvóta. Til að mynda þá á Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem gerir út frystitogarann Guðmund í Nesi RE, um 1.900 tonna óveiddan ufsakvóta. Nesfiskur ehf. á um 700 tonn af óveiddum ufsakvóta.

Alls var um 67 þúsund tonnum af ufsakvóta, miðað við óslægt, úthlutað núna fiskveiðiárið 2022–2023 og er búið að veiða um 31 þúsund tonn af ufsa. Það þýðir að um 36 þúsund tonn eru óveidd af ufsanum og því ætti nú að vera auðvelt fyrir færakallanna að nálgast ufsakvóta.

Helsta vandamálið með það er að það er töluvert af þorski á sama svæði og ufsinn er og af honum er ekki nema um tólf  þúsund tonn eftir.