Pistlar

Aflafréttir: Páls saga Jónssonar GK
Föstudagur 29. nóvember 2019 kl. 07:23

Aflafréttir: Páls saga Jónssonar GK

Eitthvað fór lítið fyrir pistlinum í síðasta blaði Víkurfrétta þótt að ég hafi setið við skriftir fyrir um viku síðan. Það voru þó nokkrir sem höfðu samband og spurðu út í hvar hann væri. Pistillinn fór reyndar ekki í blaðið heldur fór inn á vefinn vf.is. 

Tíminn líður og það styttist óðfluga til mánaðamóta og þar af leiðandi líður að því að síðasti mánuðurinn á þessu herrans ári 2019 líti dagsins ljós. Þetta þýðir líka að þá loksins fara bátarnir, sem hafa verið fyrir norðan og austan land, að koma suður og þá helst til Grindavíkur. Stóru línubátarnir þaðan hafa allir verið að veiðum fyrir austan og norðan land og hafa ekkert verið að landa í Grindavík í haust nema að nokkrum túrum undanskildum. 

Nóvember er reyndar búinn að vera mjög góður aflamánuður hjá línubátunum og hafa Grindavíkurbátarnir allir komið með fullfermi í land. Sighvatur GK hefur mest komið með 139 tonn. Páll Jónsson GK 111 tonn, Hrafn GK 112 tonn, Fjölnir GK 132 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 120 tonn, Sturla GK 122 tonn, Kristín GK 106 tonn og Valdimar GK 86 tonn.

Talandi um Pál Jónsson GK, þá líður nú að því að núverandi Páll Jónsson GK hætti í útgerð því að glænýr Páll Jónsson GK, sem hefur verið í smíðum í Póllandi, er svo til að verða klár og búist við að hann komi til landsins snemma á næsta ári.

Nýi báturinn er 42,36 metrar á lengd eða tveimur metrum lengri en núverandi Páll Jónsson GK og mælist 964 brúttótonn á meðan sá gamli mælist 402 brúttótonn. Munar þarna miklu um að nýi Páll Jónsson GK er breiðari en sá gamli og að auki er nýi báturinn hærri.

Gamli Páll Jónsson GK var smíðaður í Þýskalandi árið 1967 og hét fyrst Örfirisey RE. Undir því nafni var báturinn mjög atkvæðamikill á loðnuveiðum og náði því að verða aflahæstur nokkrar loðnuvertíðir undir þessu nafni, Örfirisey RE. 

Báturinn var seldur árið 1972 til Akraness og fékk þar nafnið Rauðsey AK og með því nafni var báturinn alveg til ársins 1993 eða í 21 ár. Undir nafninu Rauðsey AK stundaði báturinn mjög mikið loðnuveiðar og var bátnum þá breytt í þá veru sem hann er í dag. Það er að segja að hann var lengdur, byggt yfir hann og ný brú sett á bátinn sem var mun hærri en sú gamla. 

Báturinn var í Húsavík frá 1993 til 1996 og hét þar Björg Jónsdóttir ÞH. Hann var Arnþór EA frá 1996 til 1999 þegar að hann var seldur til Djúpavogs og fékk þar nafnið Goðatindur SU 57. Hann var með því nafni í tvö ár þangað til Vísir ehf keypti bátinn árið 2001 og fékk þá nafnið Páll Jónsson GK.

Báturinn reri ekkert árið 2001 því þá var endalega verið að breyta honum í línubát en fram að þeim tíma hafði báturinn verið með búnað um borð til þess að stunda nótaveiðar, bæði á síld og loðnu. Þess má geta að fullfermi var hjá bátnum, þegar hann stundaði loðnuveiðar eftir breytingar og þegar hann hét Rauðsey AK, var um 620 tonn.

Tonnin sem Páll Jónsson GK hefur landað í gegnum þessi 52 ár eru orðin mjög mörg. Ekki hef ég tekið það saman hvað það er mikið enda er nokkuð verkefni að reikna það út. Örlög bátsins verða líklegast þau sömu og örlög annarra báta sem hafa lokið hlutverki sínu hér við land, að fara í síðustu siglingu sína yfir hafið í brotajárn erlendis.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is