Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Sr. Fritz Jörgensson: „Hátíðsdagur sem mikið var lagt upp úr“
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 21. mars 2021 kl. 07:16

Sr. Fritz Jörgensson: „Hátíðsdagur sem mikið var lagt upp úr“

Séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Keflavíkurkirkju fermdist á sumardaginn fyrsta árið 1975 og man að það var ágætis veður þennan dag. „Ég fermdist klukkan ellefu um morguninn og þurfti því að vakna snemma. Ég bjó í Árbæjarhverfinu sem var úthverfi í Reykjavík og kirkjan okkar var ekki tilbúin þegar ég fermdist þannig að við fermdust í Dómkirkjunni í Reykjavík. Í minningunni er þetta hátíðsdagur sem mikið var lagt upp úr.“

– En fermingarfræðslan?

„Fermingarfræðslan var ekki það skemmtilegasta sem ég gerði. Mér fannst hún mjög leiðinleg. Við mættum í safnaðarheimilið einu sinni í viku yfir veturinn og hlustuðum á séra Guðmund Þorsteinsson fara yfir fræðslu sem mér þótti oft frekar illskiljanleg.“

– Þurftirðu að læra mikið utan að?

„Já, við áttum að læra heilmikið utan að og allt eitthvað sem mér fannst ekki spennandi að eyða tíma í að læra. Svo áttum við að fara með textann okkar og fleira utan að í fermingunni sjálfri og það var verulega kvíðvænlegt fyrir mörg í hópnum.“

– Hvernig var veislan?

„Veislan var skemmtileg. Hún var haldin heima og undirbúningurinn stóð í lengri tíma. Það þurfti að flytja allt fram og til baka svo allir kæmust fyrir. Allt var heimagert á þessum tíma. Mamma og ömmur mínar og fleiri tóku þátt, þannig að það var heilmikil samvinna í þessu. Svo kom fullt af fólki. Ég á góðar minningar af veislunni, fannst hún skemmtileg.“

– Altarisgangan, var veisla eftir hana líka?

„Altarisgangan var haldin einhverjum vikum eftir ferminguna en það var ekki veisla eftir hana.“

– Fékkstu margar gjafir?

„Já, ég fékk mikið af gjöfum. Ég fékk skartgripi, til dæmis hring og ermahnappa en annar þeirra er týndur en hinn á ég enn. Síðan fékk ég sjálftrekkt Pierpoint úr sem enn er til en virkar því miður ekki lengur. Ég fékk líka fallegar bækur, Biblíu sem enn er til – og svo fékk ég fullt af peningum.“

– Hvernig varstu klæddur?

„Ég var í brúnum, uppháum skóm sem voru með þrettán sentimetra háum hælum og fimm sentimetra sólum. Svo var ég í brúnum leðurjakka og drappaðri skyrtu með svona litlu, ljósbrúnu mynstri. Kraginn á skyrtunni var svo látinn vera út yfir kragann á jakkanum. Síðan var ég í dröppuðum terylene-buxum sem voru frekar þröngar að ofan en með útvíðum skálmum. Því miður komst ég ekki í fermingarmyndirnar mínar en læt eina ljósmynd fylgja með sem ég á, af mér og mömmu, sem er víst tekin nokkrum dögum fyrir fermingu.“

– Fórstu í klippingu?

„Nei, ég held ég hafi haft betur og fengið að sleppa því. Ég var alltaf með sítt hár og minnir að það hafi verið sært tiltölulega nýlega þannig að ég slapp við fermingarklippingu.“