ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Mannlíf

One evening in July
Mynd: Magnús Andersen
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 15. júní 2022 kl. 11:26

One evening in July

Hreinræktuð heimalöguð djassplata

Platan One Evening in July eftir djasssöngkonuna og lagahöfundinn Marínu Ósk Þórólfsdóttur er væntanleg í ágúst. Platan er „hreinræktuð, heimalöguð djassplata,“ eins og Marína orðar það en á henni má finna lög á íslensku og ensku auk einnar ábreiðu. Platan One Evening in July er frumraun Marínu í að gefa út eigin djasslög en hún segir djasstónlist eiga sérstakan stað í hjarta hennar. „Af einhverjum dásamlegum ástæðum er það sú tónlist sem ég hef hlustað mest á síðustu ár, sú tónlist sem ég hef spilað mest á giggum og sú tónlist sem ég elska mest að grúska í,“ segir Marína.

One Evening in July verður einnig gefin út á vínylplötum og geisladiskum og ákvað Marína því að setja af stað hópfjármögnun á Karolina Fund til að fjármagna útgáfuna. „Ég er mikill aðdáandi vínylplatna og finnst mjög notalegt að setja gamlar djassplötur á fóninn, setjast niður og einfaldlega hlusta. Það er bara eitthvað við það að vera með snertanlegt eintak af tónlist í höndunum og þá athöfn að „setja eitthvað á fóninn“, það er eitthvað svo fallegt og hlýlegt,“ segir hún.

Artwork: Rebecca Santo

Djassinn gefur tækifæri til að tjá tilfinningar

Aðspurð hvers vegna djasstónlist varð fyrir valinu segir hún: „Það má eiginlega segja að djassinn bjóði mér upp á það sem ég þarf til að lifa og hrærast í tónlist; frelsi til að impróvísera og leyfa innsæinu að ræða, fallegar laglínur og myndræna, rómantíska texta í stíl þar sem ég get tjáð tilfinningar á þann hátt sem er mér eðlislægt. Svo er djasstónlist bara svo skemmtileg að hafa á fóninum.“

Marína hóf tónlistarferil sinn í Tónlistarskólanum í Keflavík þar sem hún lærði á þverflautu. Hún er með Bachelorgráðu í djasssöng frá Conservatorium van Amsterdam í Hollandi og meistaragráðu í „Jazz Performance“ frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi. Marína hlustaði mikið á djasstónlist á námsárum hennar erlendis og fann að sú tónlist átti vel við hana sem söngkonu og lagahöfund. „Lagasmíðavöðvinn tók nefnilega kipp og það byrjuðu að flæða upp úr mér lög í svipuðum stíl, lög sem líktust þessum gömlu djasslögum sem ég var að hlusta á,“ segir hún. Þá segir hún gömul djasslög oft vera rómantísk og textar þeirra oftar en ekki uppfullir af myndríkum lýsingum um hjartans mál. „Þar sem ég er mjög myndræn í mínu daglega lífi og nálgast tilfinningar mikið út frá myndlíkingum til að skilja þær betur, þá hentar þessi textastíll mér mjög vel, bæði til að flytja en einnig þegar kemur að því að semja,“ segir Marína.

Æskuár Marínu

Marína ólst upp á Berginu í Keflavík og rifjar upp uppeldisár sín þar: „Bergið var dásamlegur staður að alast upp á. Það var eiginlega bara einn stór leikvöllur og mikið frelsi. Ég man vel eftir björtum sumarkvöldum þar sem maður var úti að leika sér langt fram eftir kvöldi,“ segir hún. 

Faðir Marínu, Þórólfur Þorsteinsson, oftast kallaður Dói, hefur verið duglegur að semja lög í gegnum tíðina og hafa þau mörg hver verið mikið spiluð innan harmonikku samfélagsins á Íslandi. Dói samdi meðal annars lagið „Draumur um Bergið“ sem fjallar um tíma þeirra á Berginu. „Hann hafði áður samið lag um uppeldisstað hans, Fáskrúðsfjörð, og bað hann mig sem sagt að semja texta við þetta lag sem fjallar um uppeldisstað okkar systra, Bergið, en við erum tvær systurnar. Ég samdi textann þegar ég bjó í Amsterdam með dálitla heimþrá og þar sem lagið hafði þegar fengið nafnið „Draumur um Bergið“ fannst mér það passa að lýsa æskuslóðunum líkt og ég væri að ferðast þangað í draumi,“ segir Marína. 

Á yngri árum fékk Marín oft að koma fram á vegum tónlistarskólans. Marína segir þá reynslu hafa hjálpað henni þegar hún var að feta sín fyrstu skref í að koma fram. Þá segir hún áhuga sinn á söng hafa kviknað fyrst þegar hún var unglingur. „Þann áhuga á ég mikið að þakka þeim mögnuðu konum sem unnu í Myllubakkaskóla á þeim tíma og stóðu fyrir leiksýningum og tónleikum, en það voru þær Díana Ívarsdóttir, Íris Dröfn Halldórsdóttir og Gunnheiður Kjartansdóttir,“ segir Marína. 

Hvað er framundan?

Marína segir mikið vera á döfinni í tónlistinni, þar á meðal tónleikahald í tengslum við plötuna. „Gaman að segja frá því að strákarnir sem spila með mér á plötunni koma til Íslands í ágúst til að spila á útgáfutónleikum plötunnar. Þess utan verða tónleikar á Múlanum djassklúbbi um mitt sumar og hjá djassfjelaginu í Suðurnesjabæ í ágúst.“

Karolina Fund-söfnunin: https://www.karolinafund.com/project/view/3779

Samfélagsmiðlar Marínu: facebook.com/marinaoskmusic

Instagram.com/marinaoskmusic