Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Náttúran þarf líka pláss
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 24. nóvember 2019 kl. 08:27

Náttúran þarf líka pláss

Reynir Katrínar er næmur á dýr og menn og náttúruna í kringum okkur. Frá unga aldri sá hann ljósadýrð í fjöllunum þar sem hann ólst upp fyrstu átta árin í lífi sínu, að Núpi í Dýrafirði. Í dag kallar hann sig galdrameistara og vinnur að sérstæðri listsköpun sinni og einnig býður hann upp á orkuheilun og heilsunudd í Om setrinu, Njarðvík.

Við litum á lokadag sýningar Reynis Katrínar í Duushúsum. Náttúran var í öndvegi á sýningunni og næmleiki Reynis fékk að njóta sín þegar hann spáði í Steina Guðanna fyrir gesti og gangandi en þessir steinar eru útskornir af honum sjálfum og hafa tengingu við öll norrænu goðin.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Steinar Guðanna spá fyrir um framtíð

Á sýningunni gaf að líta fallega útskorna steina sem Reynir notar í gerð altaris eða til þess að rýna í framtíðina. Listavel útskornir steinar, eitt af aðalsmerkjum Reynis Katrínar.
„Djúpalónsperlurnar og allur sá kraftur sem fylgir þeim er ég þakklátur fyrir. Þessir steinar eru fullhlaðnir af grunnorkunni og alveg tilbúnir fyrir rúnirnar. Ég er afskaplega ánægður með að hafa fengið að fara í gegnum allskonar ævintýri með mismunandi verum, bæði jarðarbúum og verum frá ýmsum víddum og sviðum með þessum steinum. Verurnar hafa hjálpað mér að sjá, skynja og finna orku frá þessum steinum og sýnt mér hvernig hægt er að nota þá. Á hugleiðsluferlinu þegar ég fór að skapa Steina Guðanna, var spennandi að upplifa öll ferðalögin. Ólík skilaboð og ólík ferðalög, sem gáfu mér margar upplýsingar. Snorra Edda var líka eitthvað sem ég studdist við, enda steinasettið hugsað út frá norrænni goðafræði,“ segir Reynir íbygginn.

Notar egg og eggjaskurn í listaverk

Eitt sinn var Reynir Katrínar þekktur fyrir risastór málverk af norrænum gyðjum en í dag vinnur hann að miklu minni verkum sem minna á forna tíma.

„Í nokkur ár hef ég verið að vinna með aðferð í málverkum mínum sem er kölluð Eggtempera, gömul aðferð sem var mikið notuð áður fyrr í málverkum. Aðferð mín er þannig, að ég safna steinum úr náttúrunni þegar ég fer í göngutúra eða ferðast um landið. Einnig er ég svo heppinn að vinir hafa sent mér steina með góðum litum. Að sjálfsögðu er ég komin með uppáhaldssteina, jaspis, sem eru gulir, rauðir og grænir og gefa afskaplega fallega liti, en ég nota líka marga aðra litfagra steina sem ég finn í náttúrunni og mala þá í duft. Litarefni steinanna er þá hrært vel saman við eggjarauðu og vatn og þá er liturinn kominn sem ég nota. Síðan nota ég ullina til að teikna með í þessar myndir – oftast svarta og til að fá hvíta hálýsingu nota ég hreinsaða eggjaskurn. Ég komst fljótt að því að það eru ekki til bláir steinar í íslenskri náttúru og fannst mér það áhugavert því að uppáhaldslitir mínir eru bláir tónar. En jarðarlitirnir, sem ég fæ úr steinunum, passa mjög vel við vinnuna mína í andlegu málunum í samskiptum mínum við orku jarðar,“ segir Reynir aðspurður um aðferðina.

Vefsaumur Reynis listamanns

„Ég sat með myndvefsrammann hennar mömmu fyrir framan mig og var að byrja að vefa. Rólega birtist mér á hægri hönd kona að handan sem mér fannst vera frá Japan. Við byrjuðum að hafa samskipti þar sem hún sagði mér að hún hefði starfað við vefnað fyrir keisara og fylgdarlið hans. Ég spurði hana hvort hún væri japönsk en þá brást hún illa við og sagðist vera kínversk. Oft höfum við átt stundir saman eftir þennan fyrsta fund okkar og þá fæ ég að njóta þess að skoða meira af því sem hún gerði og er að gera. Að sjálfsögðu ræðum við saman um önnur mál líka – hversdagslega hluti og höfum gaman. Í vefsaumi mínum er ég mest að nota ullina ásamt hör, bómull, silki og margskonar útsaumsgarn sem ég finn á ólíklegustu stöðum,“ segir Reynir án þess að blikna og við, sem erum ekki vön veruleikamynd Reynis, þurfum aðeins að melta upplýsingar sem þessar.

Ertu svona tengdur náttúrunni Reynir?

„Já, ég er það og finn einnig miklar tengingar við náttúruanda, goð og verur á hærra tíðnisviði. Ég hef minnst að segja við framliðna heldur á ég samskipti mín, þegar ég vinn að listsköpun minni og heilun annarra, við verur á æðri sviðum þar sem orkutíðnin er fínni og hærri. Ég fæ einnig ýmsar upplýsingar frá náttúrunni, eins og þær að þegar við mennirnir erum að þétta byggð þá erum við að loka á heilunarmátt náttúrunnar sem okkur mannfólkinu stendur til boða þegar við leyfum opnum svæðum að lifa. Þegar náttúran fær að taka meira pláss þá er meira jafnvægi heilsufarslega fyrir okkur mannfólkið. Náttúran er heilög og við þurfum á henni að halda til að vera fullkomnlega heilbrigð. Þess vegna líður okkur svona vel úti í náttúrunni því hún læknar okkur og hleður.“