Fráveitan í Sandgerði undir miklu álagi
Suðurnesjabær vinnur að viðgerðum og langtímalausnum
Miklir rigningarkaflar undanfarnar vikur hafa sett fráveitukerfið í Sandgerði undir mikið álag og margir íbúar orðið þess varir. Starfsfólk Umhverfismiðstöðvar Suðurnesjabæjar brást þegar við með hreinsunum og neyðardælingum og hefur síðan unnið markvisst að því að létta á kerfinu og fyrirbyggja frekara tjón.
Á vettvangi hafa lykilsvæði verið skoðuð, rennslishindranir fjarlægðar og viðbragð styrkt með færanlegum búnaði þegar úrkomuspár hafa gert ráð fyrir mikilli rigningu.
Samræmd vinnuáætlun
Unnið er í samstarfi við verktaka og sérfræðinga að viðgerðum, greiningu og langtímalausnum. Nú liggur fyrir samræmd vinnuáætlun þar sem veikir hlutar kerfisins eru settir í forgang. Lögð er áhersla á að ljúka þeim endurbótum sem þegar eru hafnar og bæta rennslisöryggi á helstu álagspunktum.
Einnig er hafin yfirferð á rekstri og viðhaldi kerfisins. Þar er m.a. unnið með rafrænan kortagrunn og myndatökur í lögnum svo ákvarðanir byggist á nýjustu gögnum. Ljóst er að töluvert verk bíður á næstu árum til að tryggja varanlegar endurbætur á fráveitunni.
Hvatning til íbúa
Sveitarfélagið þakkar í tilkynningu íbúum jákvæð og tillitssöm viðbrögð og biðlar til áframhaldandi samvinnu. Minnt er á að hreinlætisvörur og klútar eiga heima í sorpinu en ekki í klósettinu, og að fita og olía fari í ílát áður en þeim er fargað. Reglulegt viðhald á gildrubrunnum og fitugildrum skiptir einnig miklu máli til að minnka líkur á stíflum og bakflæði þegar mikið rignir.
Áframhaldandi vinna
Suðurnesjabær heldur áfram reglulegu viðhaldi og forgangsverkefnum á næstu vikum.
Ábendingar um lykt, hægt frárennsli, bakflæði eða grun um bilun í kerfinu má senda á [email protected].
Ef um neyð er að ræða skal hringja í 112.