Mannlíf

Jólabrunch hjá mömmu og pabba er ómissandi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 24. desember 2022 kl. 07:51

Jólabrunch hjá mömmu og pabba er ómissandi

Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar í Vogum, hefur þann skemmtilega jólasið að ganga með fjölskyldu sinni og vinum niður Laugaveg á Þorláksmessu og dansa í kringum jólatréð á Austurvelli.

Hvernig var árið 2022 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið 2022 var bara mjög gott, áttum margar góðar stundir saman á árinu en það sem stendur upp úr eru ferðalög um landið og utanlandsferð til Krítar í september.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég myndi segja það.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það var alltaf sett upp á Þorláksmessu þegar ég var yngri en það hefur farið upp nokkrum dögum fyrr eftir að ég fór að búa sjálf – en mér finnst alltaf eitthvað svo huggulegt að setja það upp á Þorláksmessu þannig, hver veit? Kannski fer það upp þá í ár.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Skemmtileg jólaminning þegar ég og systir mín sátum fyrir framan jólatréð og sungum jólalög á meðan við biðum eftir að mamma og pabbi voru búin að ganga frá í eldhúsinu og við gætum opnað pakkana.

En skemmtilegar jólahefðir?

Fjölskyldan mín og vinafólk okkar hittist alltaf á Þorláksmessu, við borðum saman kvöldmat niður í miðbæ og löbbum Laugaveginn. Stoppum alltaf við jólatréð á Austurvelli, dönsum kringum tréð og syngjum lagið Göngum við í kringum. Erum alltaf um tuttugu saman og náum við því allan hringinn í kringum tréð. Fullt af fólki stoppar oft og fylgist með og stundum taka aðrir þátt en við tökum alltaf bara þetta eina lag og höfum gert í tuttugu og eitthvað ár.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Það er mjög misjafnt. Reyni að vera snemma í þessu eða að minnsta kosti vera búin að ákveða hvað ég ætla gefa öllum. Er kannski að kaupa seinustu gjafirnar í kringum 15. desember í seinasta lagi.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Jólabrunch hjá mömmu og pabba á jóladag.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Hmm, hef alltaf fengið mjög fallegar og góðar gjafir en ætli það sé ekki þegar ég fékk fyrsta símann minn.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Svolítið síðan snjallúrið mitt dó og mig hefur langað í nýtt í síðan en ekki látið verða að því að kaupa mér þannig. Ég er búin að óska eftir nýju úri.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Við verðum hjá tengdaforeldrum mínum þessi jól en ég er ekki viss hvað þau ætla hafa. Hefðin sem ég er alin upp við er hamborgarhryggur í aðalrétt með ýmsu góðu meðlæti og rósakálssúpa í forrétt en þessi súpa var alltaf hjá langömmu og hefur haldist þannig síðan.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ég ætla reyna slaka á og njóta með fjölskyldunni minni. Búið að vera mikið álag seinustu mánuði og það verður gott að komast í smá frí – komast í gönguferðir og lesa kannski skemmtilega bók.

Petra Ruth (l.t.h.) með systkinum sínum.