Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Mannlíf

Hátíðarræða – 17. júní 2019
Miðvikudagur 19. júní 2019 kl. 06:55

Hátíðarræða – 17. júní 2019

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ flutti ræðu dagsins á 17. júní í skrúðgarðinum. Hún vonast til að frelsi, hlýja og samkennd megi vera einkunnarorð Reykjanesbæjar um ókomna tíð.

Hér er ræða Hilmu:

Gleðilega hátíð!

Til hamingju með 75 ára lýðveldishátíð!

Til hamingju með lýðræðið!

Ég þakka þann heiður sem mér er sýndur með því að fá að taka þátt í hátíðarhöldum dagsins með þessum  virðulega hætti.

Takk.

Ég á minningar af hátíðarhöldum í þessum sama skrúðgarði frá því að ég var stelpuskott og sýndi hér fimleika. Sum atriðin okkar voru langdregin og önnur lítið áhugaverð en stundum vorum við ferlega flottar og skemmtilegar. Ég er þakklát þessari reynslu og viss um að hún hafi haft meiri áhrif á mig en ég hef áður talið.

Þátttaka í samfélaginu er öllum mikilvæg. Okkur er það mikilvægt að vera gildandi í því samfélagi sem við búum í og fá að tilheyra. Það hef ég alltaf fengið og er meðvituð um þau forréttindi.

Við sem erum í þessum forréttindahópi ættum að leggja okkur fram um að skapa rými fyrir aðra – aðra sem er það meiri áskorun að taka þátt og tilheyra. Ef allir fá að tilheyra og vera hluti af heildinni myndum við heild – aðeins þannig. Og það er það sem við viljum vera. Við viljum vera HEILD. Þessi gildi getum við aðeins ræktað með hlýju.

Með hlýju í garð samfélagsins – hlýju í garð náungans – hlýju í garð umhverfisins.

Samfélag okkar er fjölmenningarsamfélag og það ætti því að vera okkur öllum óhjákvæmilegt að vera í persónulegum samskiptum við fólk af ólíkum uppruna. Ástæða þess að ég nefni þetta á þessari stund er sú að það hefur sýnt sig að persónuleg tengsl og vinátta er lykillinn að jákvæðu og vinsamlegu samfélagi.

Samfélag sem einkennist af virðingu gagnvart meðborgurum er HLÝTT samfélag.

Um daginn rakst ég á ljóð eftir Stefán Finnsson sem ber heitið HLÝJA. Það átti vel við þá og á vel við núna:

Til er gjöf falleg að fornu og nýju
er fyllir andann mikilli hlýju.
Henni er gefin mörgum mönnum
margir þrá hana í dagsins önnum.

Hún umvefur allt á fagnaðar-fundi
faðmar okkur í saknaðar-lundi.
Þið þekkið öll hennar þagnareiða
og þrek og hún vill engan meiða.

Er ofin í daga og drauma manns
en deyr ef sér ekki til lands.
Og hefur þann sið frá kyni til kyns 
að klæðast litum himinsins.

Þaðan er hún komin að sögnum sagna
við skynjum það þó allt brenni til agna.
Sverð hennar og skjöldur er gjöfin 
er siglir með langt yfir höfin.

Þetta var Hlýja.

Munum eftir okkur sjálfum, munum eftir þeim sem okkur þykir vænt um, munum eftir náunganum, samfélaginu og umhverfinu okkar.

Þannig gerum við hvern dag betri og eflum það samfélag sem við óskum okkur helst að deila með öðrum.

Ég tel mig geta fullyrt að lýðræðislegt samfélag er okkur mikils virði. Grundvöllur lýðræðis er: Að vald er ekki bundið forréttindum. Lýðræðið er þátttaka borgara, upplýstur skilningur borgara og að ALLIR hafi rétt til þátttöku.

Varðveitum lýðræðið og verum stolt af því.

Tökum pláss í samfélaginu okkar og styðjum aðra til þess að tilheyra heildinni.

Fögnum lýðræðinu - Fögnum lýðveldishátíðinni.

Megi frelsi, hlýja og samkennd vera einkunnarorð Reykjanesbæjar um ókomna tíð – okkur öllum til heilla.

Góða skemmtun í dag.

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna