Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Að flokka eða flokka ekki
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 24. september 2021 kl. 10:10

Að flokka eða flokka ekki

Miklar breytingar framundan í meðhöndlun úrgangs. Norðfirðingurinn Steinþór Þórðarson sem tók við sem framkvæmdastjóri Kölku 2019 segir mikilvægt að nota næsta ár til undirbúnings

„Enginn vafi er á því að framundan eru miklar breytingar í umhverfismálum og meðhöndlun úrgangs. Réttara væri að orða það þannig að breytingaskeiðið sé þegar hafið. Í júní var frumvarp um þetta efni samþykkt á Alþingi og það felur í sér verulegar breytingar. Við höfum næsta ár til að búa okkur undir þær en lögin taka gildi 1. janúar 2023,“ segir Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku. Hann kom til starfans „korter í kóvíd“ og Norðfirðingurinn unir hag sínum mjög vel á Suðurnesjum.

Við hittum Steinþór á skrifstofu hans í Kölku í Helguvík. Umhverfismál eru eitt af stóru málum framtíðarinnar í samfélaginu og einn þáttur í þeim efnum sem snýr að okkur mannfólkinu, íbúunum, er að við þurfum að taka okkur á í flokkun úrgangs. „Að flokka úrgang frá heimilum og fyrirtækjum er ekki markmið í sjálfu sér. Ef allur úrgangur fer í sama farveginn á endanum skiptir litlu hvort hann er flokkaður eða ekki. Flokkun er forsenda þess að hægt sé að beina efninu í þá farvegi sem eru heppilegastir fyrir umhverfið. Á endanum eru þeir farvegir heppilegastir fyrir efnahagslífið einnig.

Public deli
Public deli

Frá starfssvæði Kölku í Helguvík.

Í meginatriðum eru það tvær leiðir sem eru farnar í þeirri vegferð að flokka úrgang. Við, ég og þú, sem eigum úrganginn, flokkum hann heima hjá okkur eða við skilum honum óflokkuðum. Í því tilfelli flokkar móttökuaðilinn efnið. Við það verður til kostnaður sem einhver þarf að bera. Á endanum eru það við sjálf sem borgum reikninginn. Núverandi fyrirkomulag á Suðurnesjum er blanda af þessu tvennu. Við flokkum heima og á móttökuplönum og þeir samstarfsaðilar sem taka frá okkur endurvinnanlegt efni flokka það gjarnan frekar áður en þeir ráðstafa því til endurvinnslu. Markmiðið er að efni sem berst til endurvinnsluaðila sé ómengað og hæft til endurvinnslu. Í flestum tilvikum er eitthvað frákast þar sem hluti þess efnis við teljum endurvinnanlegt þegar við flokkum heima stenst ekki kröfur.“

„Þetta fer allt í sömu hrúguna á endanum!“

„Við sem vinnum í þessum geira heyrum því oft fleygt að það sé ekki til neins að vera að flokka. Þetta fari allt í sömu hrúguna, í brennslu eða urðun. Að endurvinnsla sé bara blekking. Sannleikskornið í því er að dæmi um þetta eru til. Þau eru þó undantekningar og þeim fer fækkandi. Ástæður þess að endurvinnsluefni hefur verið brennt og urðað eru margar og margvíslegar og það er óþarfi að rekja þær. Í sumum tilvikum er aðstæðum um að kenna. Í afar fáum undantekningartilfellum hefur hlekkur í keðjunni brugðist án þess að boðlegar skýringar á því sé að finna.

„Baráttan fyrir bættri nýtingu auðlinda jarðar, m.a. með því að endurnýta og endurvinna meira en nú er gert stendur og fellur með því að allir séu með.“

Stóra myndin er sú að stundum höfum við verið á undan nauðsynlegri uppbyggingu innviða. Við höfum flokkað áður en leiðir til endurvinnslu hafa verið opnaðar. Þróun á lausnum er hins vegar hröð og þessi mishröðun flokkunar og úrvinnslu minnkar stöðugt og mun brátt heyra sögunni til. Heimurinn allur keppist við að skapa farvegina og markmiðið er skýrt. Úrgang skal minnka með endurnýtingu og endurvinnslu, urðun verður að minnka stórlega og brennsla þarf að einskorðast við efni sem á sér ekki aðra betri farvegi. Ábatinn af því er stórlega minnkað kolefnisfótspor eftir úrganginn okkar og minna álag á auðlindir jarðar. Börnin okkar munu, fyrir vikið, erfa jörð sem sem á sér framtíð.“

Miklar breytingar í kortunum

Óháð öllum laga- og reglugerðabreytingum er ljóst að vilji landsmanna til að gera betur er skýr. Steinþór segir að allur þorri landsmanna vilji stíga framfaraspor í þessum efnum og muni ekki endilega bíða eftir gildistöku nýrra laga til að taka af skarið.

„Fyrirtæki og stofnanir vilja líka ganga lengra og setja sér markmið um bætta úrgangsmeðhöndlun. Þeim er svo fylgt eftir með mælikvörðum, grænu bókhaldi og stefnu um samfélagslega ábyrgð.“

Hlutverk hins almenna borgara

Steinþór segir að hlutverk bæjarbúa sé mikið og að þeir vandi flokkunina eins og kostur er.

„Eins og áður sagði er um tvennt að velja. Að hinn almenni borgari vandi sína flokkun heima við eða að sveitarfélögin, sem eru ábyrg fyrir ráðstöfun úrgangs frá heimilum, geri kostnaðarsamar ráðstafanir og kaupi flokkun frá fagaðilum. Ljóst er að yfirvofandi breytingar á lögum um úrgangsmál munu skapa talsverðan þrýsting á hækkun sorphirðugjalda. Leiðin til að halda slíkum hækkunum í skefjum er að tryggja að vel takist til með skil fólks á flokkuðum úrgangi. Því betri sem flokkunin er hjá okkur því minna þarf að vinna með efnið eftir á. Með nýjum lögum verða skapaðar hvatar til góðrar flokkunar og krafa verður gerð á sveitarfélög að laga sorphirðugjöld að frammistöðu hvers og eins eða hvers heimilis.“

Allir með

Steinþór segir að þeir sem vinni við úrgangsmál verði gjarnan varir við tvenns konar sjónarmið meðal viðskiptavina.

„Annað er að úrgangurinn sé ekki vandamál þess sem á hann heldur sveitarfélagsins, eða Kölku. Þeir sem viðra þetta sjónarmið virðast ekki hafa mikinn áhuga á umbótum í málaflokknum eða umhverfismálum yfirleitt. Á hinn bóginn er fjöldi fólks sem vill axla ábyrgð á sínum úrgangi og umgangast hann þannig að sem allra mest af honum komist aftur inn í hringrásina, til endurnýtingar eða sem hráefni. Það er fólkið sem bíður með óþreyju eftir að ný skref verði stigin í fjölgun úrgangsflokka og nýir áfangar náist í að hækka hlutfall endurvinnanlegs efnis í úrgangi. Baráttan fyrir bættri nýtingu auðlinda jarðar, m.a. með því að endurnýta og endurvinna meira en nú er gert stendur og fellur með því að allir séu með.“

Hvaða þýðingu hefur það fyrir þann sem vill ekki eða tekur ekki þátt í flokkun?

„Eins og málum er háttað núna hefur það engin bein áhrif á viðkomandi að flokka ekki. Í nýju lögunum eru hins vegar ákvæði sem knýja sveitarfélög til að innheimta sorphirðugjöld í samræmi við notkun hvers og eins á þjónustunni. Þar sem endurvinnsluefnið er gjaldfrjálst og meðhöndlun þess greidd með úrvinnslu- og skilagjöldum sem lögð eru á vöruna verður það hagsmunamál heimilanna að hámarka það magn úrgangs sem skilað er rétt flokkuðum. Leiðin til þess að forðast hækkanir á sorphirðugjöldum, sem gætu orðið umtalsverðar, verður því að flokka vel.“

Spenntur fyrir Suðurnesjum

Nú tókst þú við sem framkvæmdastjóri Kölku fyrir um tveimur árum, hver er Steinþór Þórðarson og hvaðan kemur hann?

„Ég er fæddur og uppalinn í Neskaupstað og bjó þar fram á háskólaaldur. Ég hef komið víða við á langri starfsævi en nánast óslitið frá 1995 fengist við stjórnunarstörf af ýmsu tagi. Ég var alls um ellefu ár í stóriðju og tók þátt í uppbyggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði og fór beint þaðan í ný verkefni í áliðnaði í Sádí-Arabíu. Ég hef líka fengist talsvert við ráðgjöf, unnið fyrir smásölufyrirtæki, háskóla o.fl.“

Með grenndarstöðvum sem nýlega var komið fyrir á nokkrum stöðum á Suðurnesjum er stigið skref til að auðvelda íbúum Suðurnesja að skila úrgangi í farvegi sem auðvelda ráðstöfun hans til endurvinnslu. Þá er einnig horft til nýrrar stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og áherslu á að draga stórlega úr urðun úrgangs. Framundan eru miklar breytingar á sorphirðu á landinu öllu og búast má við að flokkum úrgangs í söfnun frá heimilum muni fjölga.

Hvernig birtast Suðurnesin þér, hvernig finnst þér samfélagið hérna vera?

„Ég hef alltaf verið spenntur fyrir Suðurnesjum, alveg frá því ég var krakki. Foreldrar mínir áttu vini í Grindavík og Sandgerði og ég kom þangað oft á yngri árum. Keflavík var auðvitað, og er, stórborg á íslenskan mælikvarða og þar átti ég mörg átrúnaðargoð í tónlistinni. Ég man eins og gerst hefði í gær þegar ég kom inn í plötubúð í miðbæ Keflavíkur, tólf ára gamall, og keypti plötuna „Works II“ með Emerson, Lake & Palmer. Sú búð var himnaríki í mínum huga lengi á eftir.

Ég er mjög sáttur við samfélagið en verð þó að taka fram að ég hef nánast eingöngu búið hér á veirutímum. Ég komst þó á tónleika í Hljómahöll, korter í Covid, og sá hina ensku Tindersticks. Það var frábært og svo var komið við á Ránni á heimleiðinni. Síðan hefur fólk verið hvatt, meira og minna, til þess að halda sig heima.

Ekki spillir svo fyrir að börnin mín fjögur, sem eru á aldrinum frá 32 og niður í ellefu ára, eru öll sólgin í að koma suðureftir til mín. Þótt ég búi í Garðinum finnst mér þetta allt vera einn bær og finnst ég ekki vera að heiman þótt ég sé kominn í Reykjanesbæ, Grindavík eða Voga. Þetta er allt „heima“ og krökkunum finnst það líka.“

Góður kokteill

Hvernig gengur þér að stunda vinnu á Suðurnesjum og finnst þér vera mikill munur á kúltur og menningu og þar sem þú bjóst síðast?

„Ég hef ekki undan neinu að kvarta í vinnunni, a.m.k. engu sem ég tengi sérstaklega við Suðurnes. Hér er gott að vera og hér er gott að vinna. Ég lifði lengi í amerískri vinnumenningu og finn stundum merki um hana hér enda hafa margir Suðurnesjamenn unnið fyrir herinn. Nálægðin við sjóinn og sjávarútveginn gerir það líklega að mér finnst mjög margt líkt með menningunni hér og fyrir austan. Svo gerir e.t.v. nálægðin við höfuðborgarsvæðið það að mér finnst vinnumenningin svipuð hér og í bænum. Ég hef ekki orðið var við neina tregðu heimamanna að taka nýbúa í sátt enda er ég ekki aldeilis sá eini sem hefur flutt á Suðurnesin á síðustu árum. Mér finnst eitthvað gott við svona samfélög sem byggja á gömlum merg en hafa laðað að sér fólk víða að til búsetu. Það verður oft góður kokteill.“

Hvað með áhugamál?

„Ég hef ekki gefið mér mikinn tíma til að sinna áhugamálum í gegnum tíðina en ég hef alltaf haft áhuga á tónlist og þótt gaman að veiða silung og lax. Ég var í unglingahljómsveitum fyrir langa löngu og glamra ennþá á hljóðfæri mér til skemmtunar. Ég hef verið duglegur að sækja tónleika og oft tekist að nota ferðalög vegna vinnu til að sjá ýmsar hetjur rokksins á sviði. Ég vona að Tindersticks verði ekki síðasta hljómsveitin sem ég sé í Hljómahöll og ég hlakka líka til að heyra lifandi flutning heimamanna, bæði gömlu hetjanna og þeirra sem eru að koma fram á sjónarsviðið.

Ég gæti líka bætt því við að ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna störf sem hafa vakið áhuga minn. Fyrir vikið hef ég ekki haft ríka þörf fyrir að gera greinarmun á vinnu og einkalífi og oftar en einu sinni hefur verið gert grín að mér fyrir lestur fagrita á sólarströndum.“

Erfiðara um vik að fjölga ílátum við fjölbýlishús

Steinþór segir heilt yfir erfiðara um vik að fjölga ílátum við fjölbýlishús en einbýli. Sjónarmiðin í flokkun úrgangs sem eiga við um fjölbýlishúsin sérstaklega eru nokkur:

„Tunnukjallarar eru oft of litlir fyrir tvenns konar ílát, hvað þá fleiri. Á Ásbrú í Reykjanesbæ eru svo ekki tunnukjallarar heldur tunnugerði úti. Það hefur verið unnið að því að stækka þau en þau fara á kaf í snjó á veturna og þá hendir fólk í þá tunnu sem næst er, óháð lit hennar.

Á Reykjavíkursvæðinu er byrjað að setja niður djúpgáma þar sem þröngt er við fjölbýli. Það sem upp úr stendur er eins og nettur grenndargámur en ílátið teygir sig kannski 10 metra ofan í jörðina og tekur því verulegt magn. Við vitum að aðilar í Reykjanesbæ eru farnir að skoða þessar lausnir en vitum ekki til þess að djúpgámar séu væntanlegir suðureftir ennþá.

Við fjölbýlishús, ekki síst þar sem safnað er í 400 lítra ker, er sérstaklega viðkvæmt þetta með þessa fáu sem henda bara í eitthvað ílát. Þá eru e.t.v. græn ker með góðu endurvinnsluefni en búið að menga það með óflokkuðum úrgangi. Við gerum hvað við getum til að ná slíkri mengun úr hér í Helguvík en starfsmenn sorphirðunnar meta það hvað fer í hvort hólf á bílunum. Við teljum víst að tunna eða ker með áberandi óflokkuðu efni ofarlega sé einfaldlega tæmt í hólfið fyrir óflokkað. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt en samningar um sorphirðu gera ekki ráð fyrir vinnu verktaka við flokkun í sorphirðuferlinu.