ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Viðskipti

Heimamenn kaupa lóð og fasteignir kísilverksmiðjunnar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 1. júlí 2025 kl. 14:24

Heimamenn kaupa lóð og fasteignir kísilverksmiðjunnar

Suðurnesjafyrirtækið Reykjanes Investment ætlar að þróa og endurskipuleggja svæði kísilverksmiðjunnar.

Landey ehf., dótturfélag Arion banka hf., hefur undirritað samkomulag við félagið Reykjanes Investment ehf. um kaup þess á fasteignum og lóðum í Helguvík á Reykjanesi þar sem um tíma var starfrækt kísilverksmiðja. Kaupverð er trúnaðarmál.

Um nokkurra ára skeið hefur Arion banki leitað kaupenda að Helguvík með það markmið að þar geti byggst upp annars konar starfsemi. Því er ánægjulegt að nú taki Reykjanes Investment við eignunum en félagið hyggur á þróun á svæðinu og frekari uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í nánu samstarfi við Reykjanesbæ og Reykjaneshafnir.

Reykjans Investment ehf. er byggingar- og þróunarfélag sem leggur áherslu á skapandi og vandaða uppbyggingu á Suðurnesjum. Að baki félaginu standa einkafjárfestar sem eiga það sameiginleg að hafa djúpar rætur á Suðurnesjum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Sigurgeir Rúnar Jóhannsson, Reykjanes Investment:

„Við hjá Reykjanes Investment erum spennt fyrir því verkefni að þróa og endurskipuleggja þetta frábæra og vel staðsetta svæði, samfélaginu okkar til heilla. Það er einlægt markmið okkar að þarna verði atvinnustarfsemi í sátt við umhverfi sitt sem nýtur góðs af þeim frábæru innviðum sem eru allt í kring, eins og höfninni og flugvellinum, og því kraftmikla samfélagi sem er á Reykjanesi.“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar:

„Þetta eru ánægjuleg tímamót fyrir íbúa svæðisins þar sem ákveðinni óvissu um þá starfsemi sem lagt var upp með verður nú vonandi endanlega eytt. Við hlökkum til samtalsins og samstarfsins við nýja eigendur en hagsmunir bæjarins og hafnarinnar fara saman með þeirri uppbyggingu og tækifærum sem kaupin geta leitt af sér.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Helguvíkin er svæði sem getur hýst margvíslega starfsemi og haft jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Það eru því góð tíðindi að nú taki heimamenn við keflinu, fólk sem þekkir vel til á Reykjanesi og hefur á undanförnum árum sinnt uppbyggingu á svæðinu.  Nýir eigendur eru með metnaðarfulla framtíðarsýn og verður spennandi að sjá Helguvík fá nýtt hlutverk.“

Frá undirritun kaupsamnings Arion banka og Reykjanes Investment. F.v. Sigurgeir Rúnar Jóhannsson og Viktoría Hrund Kjartansdóttir frá Reykjanes Investment, Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion banka.