Mikill ávinningur af gjaldfrjálsum skólamáltíðum
Hlutfall þeirra sem nýtti sér skólamáltíðir jókst í skólum á Suðurnesjum. Fjölbreyttari salatbar og gæði skólamáltíða hjá Skólamat. Stöðug þróun í gangi, segir Jón Axelsson hjá Skólamat.
Foreldrar, skólastjórnendur og sveitarfélög sjá mikinn ávinning af gjaldfrjálsum skólamáltíðum í grunnskólum landsins. Það er mat starfshóps sem innviðaráðherra skipaði til að leggja mat á nýtingu og áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða, að vel hafi tekist til á fyrsta skólaári eftir að skólamáltíðir í grunnskólum urðu gjaldfrjálsar á síðasta hausti. Fjöldi nemenda sem nýtti sér skólamat í skólum á Suðurnesjum jókst um 6% en hlutfallið áður en boðið var upp á gjaldfrjálsar skólamáltíð var hátt.
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar segir að vel hafi til tekist en fyrirtækið var í góðu samstarfi við sveitarfélög sem reka leik- og grunnskóla en fyrirtækið er að þjónusta nær alla skóla á Suðurnesjum en einnig miklum fjölda skóla utan Suðurnesja.

Gott samstarf
„Þegar ákveðið var að sveitarfélögin á Íslandi myndu fella niður gjaldskrá skólamáltíða í grunnskólum sem hluta af kjarasamningum á almennum vinnumarkaði ákváðu stjórnendur Skólamatar að óska eftir samstarfi við Samtök íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaða þess samstarfs var útfærsla sem var tekin upp hjá þeim skólum sem Skólamatur þjónustar. Útfærslan fólst í því að forráðamenn grunnskólanemenda skrá nemandann í mataráskrift eins og áður, ef óskað er eftir því að nýta þjónustuna. Sveitarfélagið greiðir hinsvegar að fullu fyrir hvern skráðan nemanda, þar sem forráðamenn greiddu áður skv. gjaldskrá. Ef nemandi nýtir sér ekki matinn með því að skrá áskriftanúmer í mötuneyti skólans þá fellur mataráskriftin niður. Þannig er sveitarfélagið ekki að greiða fyrir þjónustu sem ekki er veitt og Skólamatur ekki að gera ráð fyrir nemendum sem ekki nýta sér matinn. Með þessu kerfi tókst m.a. að halda matarsóun og nýtingu hráefna í sömu hlutföllum og áður en gjaldfrelsið var tekið upp,“ segir Jón.
„Við ætlum okkur að halda áfram að bæta gæði skólamáltíða í leik- og grunnskólum á Íslandi og auka ánægju og meðvitund markaðarins um almenna skólamáltíð. Það gerist með upplýstri umræðu, starfsfólki og vel útfærðum leiðum og verklagi.“
Fjölbreyttari salatbar og enn betri gæði máltíða
Hátt hlutfall nemenda á Suðurnesjum hefur nýtt sér skólamáltíðir undanförnum árum en með upptöku gjaldfrelsis jókst nýtingin enn frekar að sögn Jóns, þ.e. fleiri nemendur nýttu sér skólamatinn eftir að skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar.
„Við ætlum okkur að halda áfram að bæta gæði skólamáltíða í leik- og grunnskólum á Íslandi og auka ánægju og meðvitund markaðarins um almenna skólamáltíð. Það gerist með upplýstri umræðu, starfsfólki og vel útfærðum leiðum og verklagi. Við höfum fjárfest í góðum og sérhæfðum búnaði, bæði til matreiðslu og hugbúnaðar sem bætir skipulag og mælir ánægju. Þannig hefur okkur tekist að standa að stöðugum umbótum og þróun skólamatarins í takt við væntingar okkar.
Framundan er átak í því að þróa aukna fjölbreytni í salatbar sem er nú þegar í öllum grunnskólum. Við höfum fjárfest í búnaði sem getur framleitt ferskt bygg og pastarétti sem við teljum að verða spennandi og holl viðbót og valkostur fyrir nemendur og starfsfólk.
Þetta er dæmi um það sem við erum stöðug að þróa og bæta í samstarfi við nemendur, foreldra og starfsfólk skóla,“ segir Jón Axelsson.
Skólamatur opnaði nýbyggingu við starfsemina árið 2023.