Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

Ætlaði að kaupa kleinur en fór út með málverk
Rut til vinstri, Helga hægra megin.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 28. júní 2025 kl. 06:20

Ætlaði að kaupa kleinur en fór út með málverk

Mæðgur mála saman í Grindavík á nýjan leik. Gamla vinnustofan gjöreyðilagðist í hamförunum.

Mæðgurnar Helga Kristjánsdóttir og Rut Ragnarsdóttir, eru listmálarar frá Grindavík og vilja hvergi annars staðar mála en þar. Helga sem hefur málað í aldarfjórðung var komin með glæsilega vinnuaðstöðu í iðnaðarhverfinu svokallaða í Grindavík en það hverfi fór einna verst út úr hamförunum og húsnæði Helgu gjöreyðilagðist.

Rut sem í grunninn er gullsmiður en lærði að mála fyrir u.þ.b. tíu árum, var búin að búa ásamt fjölskyldu sinni í Grindavík í tvö og hálft ár fyrir rýmingu og var byrjuð að mála með mömmu sinni í Vörðusundinu.

Helga Kristjánsdóttir

Helga leigði m.a. húsnæði í Kópavogi eftir hamfarirnar en hefur verið í Grindavík síðan í júní í fyrra og eftir að hún leitaði til bæjaryfirvalda varðandi húsnæði, var henni bent á Gerðavelli 17 þar sem Hérastubbur bakari hefur ráðið ríkjum. Mæðgurnar kunna einkar vel við sig við hliðina á bakaríinu og segir sagan að fólk hafi ætlað sér að kaupa kleinu en hafi villst og komið út með málverk í staðinn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Helga sem er lærður hárgreiðslumeistari og vann við það fyrstu starfsárin, segir að málarinn hafi lengi blundað í sér.

„Ég var að klippa í tæp tuttugu ár en klippi bara pabba og kallinn minn í dag. Ég var búin að taka kennaranámið í hárgreiðsluiðn og langaði  að fá vinnu við það en ekkert bauðst og því ákvað ég í raun að venda kvæði mínu í kross og einbeita mér að málverkinu. Sem lítil stelpa var ég alltaf teiknandi og í hárgreiðslunni er mikið unnið með liti, það er verið að lita hárið, setja strípur o.s.frv. en ég hafði alltaf mjög gaman af allri litablöndun. Ég byrjaði á að fara á myndlistarnámskeið í Keflavík og fékk strax mikinn áhuga, fór svo í Myndlistarskóla Kópavogs og einnig í teiknun í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Ég lærði mjög mikið þar hjá ólíkum kennurum en árið 2002 fluttum við hjónin til Barcelona með fjölskylduna og ég settist þar á skólabekk í Escola Massana centre d'Art i Disseney í eitt ár. Þetta var frábær tími, ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki frá Katalóníu og lærði mikið og hef ekki stoppað síðan, er dugleg að sækja námskeið, bæði hérlendis og erlendis í ólíkum listformum eins og olíumálun, vatnslitun og grafík, maður getur sífellt verið að þróa sig sem listmálari. Ég hef staðið fyrir því að fá kennara til Íslands og einnig haldið námskeið sjálf með fínum árangri. Það er einnig ómetanlegt hvað ég hef kynnst mörgu listafólki á þessu flakki mínu og margir af þeim hafa heimsótt Ísland, elska náttúruna og landið okkar,“ segir Helga.

Rut Ragnarsdóttir.
Úr gullsmíði í myndlist

Rut byrjaði sinn listferil ekki sem myndlistarkona heldur nam gullsmíði. Hún var búin að búa í Grindavík í tvö og hálft ár þegar hamfarirnar dundu yfir og vill hvergi annars staðar vera.

„Ég kynntist málaralistinni í gegnum mömmu, byrjaði bara sjálf að mála en ákvað svo í covid að skella mér til Barcelona til að læra þetta betur og hef verið að mála á fullu síðan þá má segja. Við fjölskyldan vorum búin að búa í Grindavík í tvö og hálft ár þegar rýmingin átti sér stað og ég var búin að vera að mála með mömmu í Vörðusundinu en það húsnæði eyðilagðist. Við fjölskyldan búum í Sunnusmáranum í Kópavogi eins og svo margir Grindvíkingar og ég hafði eitthvað verið að mála inni í stofu heima en það er ekki ákjósanlegt. Því var æðislegt að komast hingað inn og ég keyri til Grindavíkur flesta daga. Við erum búin að gera hollvinasamning, sem betur fer þurftum við ekki að henda neinu úr búslóðinni okkar, gátum geymt í húsinu hans afa. Ég hef sankað að mér því sem þurfti til að búa til heimili aftur í Grindavík og við lítum á það sem sumarhús og ætlum að sjá hvernig þetta verður í sumar. Börnin mín eru alsæl með að geta verið í Grindavík, ég treysti þeim fullkomlega enda er bærinn alveg öruggur að mínu mati. Ég var byrjuð að kenna myndlist á yngsta stiginu í Hópsskóla og kunni vel við mig í því, vonast til að geta haldið því áfram þegar skóli hefst á ný í Grindavík en hvenær það verður þori ég ekki að leyfa mér að vona neitt, það er svo vont að vera vona eitthvað sem verður svo ekki. Við verðum bara að leyfa þessu að ganga yfir, vera bjartsýn og vera tilbúin í uppbygginguna þegar að henni kemur. Ég hlakka mikið til þegar samfélag byggist upp á nýjan leik í Grindavík, ég og mín fjölskylda munum taka þátt í þeirri uppbyggingu og þangað til ætla ég að mála og skapa list,“ segir Rut.

Fjölmargar myndir eru til sýnis á Gerðavöllunum.

Kleinu-málverk

Helga er bjartsýn á framtíð Grindavíkur og er afar ánægð með að vera komin með vinnuaðstöðu í Grindavík á nýjan leik.

„Ég er búinn að vera alfarið heima  í Grindavík síðan í júní í fyrra, hafði leigt mér aðstöðu fyrir þann tíma í Kópavogi til að mála, málaði upp í sumarbústað og í bílskúrnum hér í Grindavík en ákvað svo að kanna hjá Grindavíkurbæ hvort eitthvað húsnæði væri til staðar fyrir mig. Ásrún, forseti bæjarstjórnar, benti mér á þetta frábæra húsnæði sem er nálægt heimilinu mínu svo þetta hentar fullkomlega. Við þurftum ekki mikið að gera, opnuðum á milli herbergja svo það er mjög bjart hér inni og það fer mjög vel um okkur mæðgur hér.

Mér finnst mjög mikilvægt að einhver sé starfandi hér við menningu og listir, við erum búnar að vera með opið í u.þ.b. tvo mánuði og hefur verið mikið rennerí af fólki. Sumir voru bara að koma í bakaríið en enduðu í kaffi hjá mér og löbbuðu út með málverk svo ég get ekki annað sagt en ég sé mjög ánægð að vera komin hingað. Það er æðislegt að vera hér með dóttur sinni, ég var búin að vera ein að mála í mörg ár og Rut er mjög hvetjandi og okkur finnst frábært að hafa félagsskap af hvorri annarri. Ég ætla áfram að vera bjartsýn á framtíð Grindavíkur, það er gaman að sjá hversu margir eru að gera hollvina samning við Þórkötlu og koma gamla heimilinu sínu í stand. Fólk þarf bara að koma á sínum forsendum, máta sig við þennan nýja veruleika og ég er sannfærð um að þegar fólk prófar að gista og vaknar við fuglasönginn og rólegheitin hér heima, að þá verði ekki aftur snúið. Ég heyri þó nokkuð af fólki utan Grindavíkur sem kemur í heimsókn, það hélt að staðan væri miklu verri en hún raunverulega er, fréttaflutningur hefur verið alltof neikvæður og núna er bara bjart framundan held ég og vona,“ sagði Helga að lokum.

Mæðgurnar ná mjög vel saman og hvetja hvora aðra til dáða.

Listaverk eftir Helgu.

Rut málaði þessar myndir.