Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Tveir mikilvægustu leikir sumarsins eftir
Eysteins Húna Haukssonar og Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, þjálfara Keflavíkur, bíður það krefjandi verkefni að undirbúa liðið fyrir tvær mikilvægar viðureignir við Skagamenn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 23. september 2021 kl. 15:26

Tveir mikilvægustu leikir sumarsins eftir

Eysteinn Húni Hauksson, annar aðalþjálfara Keflvíkinga, hlakkar til næstu tveggja leikja sem báðir eru gegn Skagamönnum – mikilvægar viðureignir, fyrst í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar og svo í undanúrslitum Mjólkurbikars karla. Hann segist afar stoltur af liðinu fyrir sigur á Leikni á erfiðum útivelli í síðustu umferð.

„Magnað að ná að snúa sigurlausri hrinu á þessum velli af öllum, þar sem Leiknismenn eru búnir að taka tuttugu stig í sumar og þar á meða á móti toppliðum. Við höfum ekki unnið leik þarna svo ég hreinlega muni eftir,“ sagði Eysteinn. „Þetta var ákkúrat það sem við þurftum og núna er bara spennandi helgi framundan.“

Gömlu stórveldin mætast

Keflvíkingar unnu góðan sigur á Leikni um síðustu helgi með einu marki gegn engu. Það var markahrókurinn Joey Gibbs sem skoraði markið sem skildi liðin að með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu. Með sigrinum eru Keflvíkingar nú í níunda sæti með 21 stig og þeim nægir eitt stig í viðbót til að halda sæti sínu í efstu deild.

Public deli
Public deli

Baráttan verður hörð í lokaumferðinni sem fer fram á laugardaginn en Keflavík, HK (20 stig) og ÍA (18 stig)  berjast um að halda sæti sínu í Pepsi Max-deildinni. Fylkir er þegar fallið.

Á laugardag taka Keflvíkingar á móti Skagamönnum í leik þar sem ekkert verður gefið eftir. Þessi tvö lið munu svo mætast að nýju 2. október í undanúrslitum Mjólkurbikars karla.

„Þetta er alveg eins og þetta á að vera, Keflavík Skaginn, þessi gömlu stórveldi að takast á og vonandi verður troðfullur völlur af fólki því það skiptir ekkert litlu máli fyrir svona bæjarfélag að ná góðri útkomu út úr þessum tveimur leikjum – halda okkur uppi í deild þeirra bestu og halda áfram að kljást við bestu lið landsins og svo auðvitað að komast í sjálfan bikarúrslitaleikinn. Þetta er frábær staður til að vera á og mjög spennandi.

Ég vona bara að það mæti allir sem vettlingi geta valdið og láta sig varða að Keflavík eigi sæti í efstu deild.“

Eysteinn kallar eftir því að allir sem vettlingi geti valdið mæti á völlinn og hvetji sitt lið áfram í lokaleik Pepsi Max-deilarinnar í ár.

Það verður ekki auðvelt að eiga við Skagamenn, þeir eru búnir að vera í ham í síðustu leikjum.

„Já, mér finnst eins og Skagamenn séu aðeins komnir á bragðið. Þeir spila mjög skynsamlega og taka litla áhættu en eru mjög agressívir framarlega á vellinu. Við erum bara að undirbúa hvernig sé best að taka á móti þeim án þess þó að bregða út af okkar leik.

Við förum aldrei inn í leikinn með annað en að vinna, það er alveg klárt. Við ætlum okkur sigur og vonandi að hoppa upp um nokkur sæti með því að klára þennan leik.“

Þið ætlið ekkert að spá í hvað sé í gangi í leik Breiðabliks og HK.

„Nei, við græðum voðalega lítið á því. Fótboltamót ganga út á að sækja stig og enda eins ofarlega á töflunni og hægt er. Við tökum því sem Skagamenn bjóða okkur upp á en yfirleitt er það þannig að ef við náum að halda huganum við okkar leik, látum boltann ganga og vinnum allir sem einn varnarlega, þá er mjög erfitt að eiga við okkur.“