Tónmenntakennari í Reykjanesbæ keppir á Golden Girl hnefaleikamótinu
Eitt vinsælasta hnefaleikamót Norðurlandanna, Golden Girl, verður haldið dagana 30. jan.–1. feb. Mótið er virkilega vinsælt meðal og þá sérstaklega meðal kvenna sem geta tryggt sér bardaga og mikla reynslu með þátttöku í keppninni. Mótið hentar öllum getustigum og er orðið rótgróið innan hnefaleikaheimsins. Dögg Var frá Hnefaleikafélagi Reykjanesbæjar verður fulltrúi Íslands á mótinu.
Dögg hefur æft hnefaleika í þrjú ár og er spennt að leggja land undir fót og berjast sinn fyrsta bardaga í ólympískum hnefaleikum. Dögg er ættuð frá Litháen og hefur búið á Íslandi í 17 ár og gegnir núna starfi sem tónmenntakennari í grunnskólanum í Keflavík, segir í tilkynningu frá Hnefaleikafélagi Reykjanesbæjar.
Dögg æfði, til að byrja með, mest undir reynslumikilli handleiðslu Daða Ástþórssonar sem er aðalþjálfari Kolbeins Kristinssonar atvinnuhnefaleikamanns, ásamt því að hafa verið yfirþjálfari HFR áður en hann tók við yfirþjálfun hjá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Þá tók Björn Björnsson yfir þjálfuninni og hefur stýrt æfingunum sem nýr aðalþjálfari.
Að sögn Daggar bíður hennar spennandi verkefni og segir hún tilfinninguna að berjast sinn fyrsta bardaga á stóru móti vera bland af spennu og virðingu. Að fá að keppa á alþjóðlegu móti er stór áskorun en Dögg finnst ekkert skemmtilegra en að takast á við áskoranir. Hún byrjaði að stunda hnefaleika 35 ára gömul, sem er frekar seint á lífsleiðinni miðað við sportið, en hún hefur aldrei getað lagt frá sér hanskana eftir að hún byrjaði.
Undirbúningurinn hefur gengið vel. Dögg kláraði 75 day hard challenge í fyrra eftir að hafa reynt nokkrum sinnum og mistekist á smávægilegum þáttum. En áskorun er áskorun og ef henni mistekst þá þarf víst að byrja aftur. Hún hefur unnið mikið sjálf og æft oft tvisvar á dag síðastliðna hálfa árið. Hún segir að 75 daga áskorunin hafi kennt henni mikið um sjálfsagann og andlega þáttinn sem snýr að því að halda rútínu og aga. Dögg segist líða vel fyrir keppnina. Stundum finnur hún fyrir pressunni og þá kemur viðringurinn í magann en hún treystir því að hugur og líkami muni vinna saman í boxhringnum enda sé sviðið í raun ekki framandi.
Dögg segir lífið í HFR hafa orðið mjög stór hluti af lífi hennar síðustu árin og mun hún ferðast ásamt Hildi Ósk (HFR) sem tekur að sér þjálfarastöðu í ferðinni. Dögg segir þekkinguna hennar Hildar ómetanlega í ferðinni og ber mikið traust til hennar í ferðinni. Hildur er reynslumikil og þekkir ferlið inn og út. Þetta er fyrsta mótið og fyrsta keppnisreynslan en Dögg stefnir á að keppa mikið á árinu og vonast til þess að finna andstæðing hérna heima sem hún getur barist við. Þangað til mun hún halda áfram að ferðast út að keppa og sætta sig við stöðu sem dómari á keppnismótum HNÍ á meðan hún leitar eftir andstæðing.
Streymi á mótið má finna inni á vefsíðunni knockout.no.








