RNB 17 júní
RNB 17 júní

Íþróttir

Þarf að komast í hitann
Rubén Lozano Ibancos er 26 ára gamall Madrídarbúi sem leikur fótbolta með Þrótti í Vogum. Í fyrra lék hann með Fjarðabyggð en Rubén er nú á sínu öðru keppnistímabili á Íslandi. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 5. júní 2021 kl. 08:29

Þarf að komast í hitann

Ég er mættur í Vogana þar sem ég hafði mælt mér mót við Rubén. Þróttarar eru klára æfingu og að henni lokinni kemur Rubén til mín og kynnir sig. Hann er lágvaxinn, snaggaralegur og brosmildur þessi framherji sem hefur fallið svo vel inn í lið Þróttar í ár. Við setjumst inn í félagsheimili Þróttara, fáum okkur kaffi saman og hefjum okkar spjall.

Rubén segist vera alinn upp í Madrid á Spáni. Þar lék hann með knattspyrnuliðinu Periso en þegar honum bauðst tækifæri til að koma til Íslands og spila fótbolta gat hann ekki sagt nei. „Þetta var bara of spennandi tækifæri til að sleppa. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og þetta hefur svo sannarlega verið allt öðruvísi en það sem ég hef áður kynnst; veðrið hér, landslagið, fótboltinn ... ég kann vel við mig hér.“

Rubén lék með liði Periso í Madrid. Mynd af vef Periso

– Svo þú byrjaðir á Austfjörðum, hvernig kunnirðu við þig þar?

„Það var fínt, þetta er lítill bær, ekki of margt fólk. Landslagið þar er afskaplega fallegt, það var gaman að fá að sjá það. Svo nú er ég hérna og það er allt annað landslag, öðruvísi fallegt. Mér hefur verið tekið afskaplega vel af bæjarbúum, liðsfélögum og forsvarsmönnum Þróttar – og ég hef náð kynnast mörgu góðu fólki hér í Vogunum.“

– Og ertu einn hérna eða með fjölskyldu?

„Síðan ég flutti hingað í Vogana hefur kærastan mín verið með mér. Á síðasta tímabili var ég bara einn en það voru spænskir liðsfélagar með mér fyrir austan, svo það var auðveldara fyrir mig. Núna er ég eini Spánverjinn í liðinu en var svo heppinn að kærastan var tilbúin að flytja hingað til mín og það er heilmikill stuðningur í henni. Mér finnst hún mjög hugrökk að leggja í þetta því við höfum ekki verið það lengi saman, síðan í nóvember – en þetta er líka upplifun fyrir hana.“

  Hvernig er svo dagurinn hjá þér svona alla jafnan?

„Ég byrja að vinna á morgnana í verksmiðju Benchmark Genetics og vinn þar í átta tíma, síðan eru æfingar eftir vinnu sex daga vikunnar. Dagurinn er þétt skipaður; vinna, æfing, ræktin og svo þarf maður að hvíla sig.“

– Hefurðu þá aldrei stundað aðrar íþróttir, alltaf verið í fótbolta?

„Nei, ég byrjaði svona sjö ára gamall í júdó en það var bara í stuttan tíma. Átta ára fór ég svo að æfa fótbolta og hef verið í honum síðan. Fyrst var ég á vinstri kantinum, eins og þú veist kannski þá elska ég að hlaupa, en núna vil ég helst vera í sókninni.“

Hér skorar Rubén fjórða mark Þróttar gegn Haukum án þess að Anton Freyr Hauks Guðlaugsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur, komi nokkrum vörnum við. VF-mynd: Hilmar Bragi

– Áttu þér einhver áhugamál fyrir utan fótboltann?

[Rubén hlær] „Nei, ég hef engan tíma til að stunda neitt annað. Það er bara einn frídagur í vikunni hjá mér og honum eyði ég með kærustunni.

Síðasta sumar spilaði ég golf í fyrsta sinn á ævinni, eða reyndi að slá boltann – það er erfitt en mér þótti það gaman. Vandamálið er samt að ég er örvhentur svo það gerði þetta enn erfiðara. Kannski prófa ég það aftur seinna.

Ég og kærastan mín höfum ferðast lítillega um Ísland, séð einhverja fossa, strandir og þess háttar ... og auðvitað höfum við heimsótt gosstöðvarnar. Við fórum að nóttu fyrir svona þremur vikum síðan, það eru engin orð til að lýsa þessu. Það er alveg magnað að upplifa svona í návígi, ótrúlegt. Um helgina fórum við svo í Sky Lagoon, mjög fínn staður.“

Rubén og Sara, kærastan hans, njóta lífsins í Sky Lagoon.

– Hvað gerir hún, er hún í vinnu hér?

„Já, hún vinnur í fataverslun í Reykjavík. Við erum að vonast eftir að finna vinnu handa henni hér í Vogum eða í nágrenninu. Hún tekur strætó í bæinn á hverjum degi, og ég þarf að skutla henni upp á stoppistöð og sækja aftur, svo það væri miklu hentugra fyrir okkur ef hún gæti unnið hér á svæðinu.“

– Hverjar eru svo framtíðaráætlanir þínar?

„Úff, ég lifi í núinu. Ég vil auðvitað eiga gott tímabil með Þrótti og ég held að við eigum eftir að vinna deildina. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum hérna og vil auðvitað spila í efstu deild – en ég er alveg viss um að við förum upp núna og spilum í næstefstu deild á næsta ári. Eftir stórsigra í tveimur síðustu leikjum (1:5 gegn ÍR og 4:1 gegn Haukum) hefur sjálfstraustið aukist og okkur líður vel með liðið.

Í sambandi við menntun og framtíðarstarf þá hef ég sótt námskeið eftir skólagöngu en ég hef alltaf einbeitt mér að fótboltanum og menntunin hefur setið á hakanum. Mig langar að læra nudd eða fara í einkaþjálfun eða eitthvað slíkt. Ef ég ílengist á Íslandi er aldrei að vita nema ég fari í nám með fótboltanum.“

– Segðu mér aðeins frá fjölskyldunni þinni á Spáni.

„Ég á tvö eldri systkini, bróður og systur, þau búa bæði á Spáni. Hún býr á austurhluta Spánar en bróðir minn býr í Madrid eins og ég. Ég bý ennþá hjá foreldrum mínum og þau hlakka til að heimsækja mig á Íslandi. Á síðasta tímabili var það ómögulegt út af Covid en við vonum að það gangi upp núna í sumar.

Ástandið er að skána á Spáni, það er ekki eins gott og hér en sífellt fleira fólk er að fá bóluefni og ástandið batnar dag frá degi. Á síðasta ári vorum við innilokuð í húsinu í þrjá mánuði, það var hræðilegt.

Svo erum við Spánverjar líka öðruvísi en þið Íslendingar. Við viljum fara oft út og hitta fólk, borða úti, fara á barinn og þess háttar, það er í okkar menningu og það reynir virkilega á okkur að hanga bara heima. Þið eruð líka svo heppin að búa á þessari eyju, það er auðveldara að stjórna ferðalögum fólks til og frá landinu. Heima er allt opnara og svo er líka allur þessi fólksfjöldi sem gerir það enn erfiðara að hafa stjórn á þessari veiru.

Ég ætla samt að reyna að komast heim til Spánar eftir tímabilið í ár, ég er virkilega farinn að þurfa á hitanum að halda. Síðasta sumar var ég á Íslandi og svo aftur núna, ég bara þarf að komast í hitann,“ segir Rubén að lokum og hlær.

Rubén með foreldrum sínum, Pepe og Marisol.