Stuðlaberg Pósthússtræti

Íþróttir

Ólafi Eyjólfssyni veitt starfsmerki UMFÍ
Heiðursviðurkenningarhafarnir.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. mars 2021 kl. 12:24

Ólafi Eyjólfssyni veitt starfsmerki UMFÍ

Aðalfundur UMFN var haldinn miðvikudaginn 17. mars

Ágætis mæting var á fundinn sem var markaður sóttvarnaraðgerðum þetta árið.

Ólafur Eyjólfsson var endurkjörinn sem formaður og var sitjandi stjórn endurkjörin að undanskilinni tveimur breytingum, þ.e. Þórdís Björg Ingólfsdóttir, varamaður, var kjörin aðalmaður í stað Jennýjar L. Lárusdóttur og varamaður kjörinn Hámundur Örn Helgason í stað Þórdísar. 

Formaður fór yfir ársskýrslu stjórnar og Gunnar Þórarinsson fór yfir ársreikning félagsins og var hann samþykktur samhljóða.

Gestir  frá  UMFÍ, þeir Guðmundur Sigurbergsson og Lárus B. Lárusson, mættu á fundinn og tók Guðmundur til máls. Hann fór í stuttu máli yfir síðasta ár þar sem engin mót voru haldin á vegum UMFÍ en stefnt væri að mótum þetta árið. Hann minnti einnig á að stór hluti tekna UMFN sem og annarra félaga komi frá Íslenskri getspá sem er afar mikilvægt í rekstri félaganna en því miður eru erlend félög stórtæk hér á landi og skila engum tekjum til félaganna. 

Guðmundur kom færandi hendi þar sem hann veitti Ólafi Eyjólfssyni starfsmerki UMFÍ sem „veitt er fyrir frábært átak eða afrek í félagsstörfum, skipulagsstörfum, framkvæmdastjórn eða á íþróttasviði. Til grundvallar þarf ekki að liggja langt samfellt starf“.

Ólafur með starfsmerki UMFÍ, með honum á myndinni er Guðmundur Sigurbergsson.

Heiðursviðurkenningar voru veittar eftirtöldum:

Silfurmerki (veitt fyrir fimmtán ára frábært starf/keppni í þágu félagsins):

Sigurður H. Ólafsson, fyrir knattspyrnudeildina.

Bronsmerki (veitt fyrir tíu ára frábært starf/keppni í þágu félagsins):

Anna Gunnlaugsdóttir, fyrir sunddeildina.

Einara Lilja Kristjánsdóttir, fyrir aðalstjórn/körfuknattleiksdeild.

Guðbjörg Jónsdóttir, fyrir þríþrautardeildina.

Gunnlaug F. Olsen, fyrir lyftingadeildina.

Guðmundur S. Gunnarsson, fyrir júdódeildina.

Ólafur Thordersen afhenti Ólafsbikarinn, að þessu sinni til Guðnýjar B. Karlsdóttir fyrir starf hjá unglingaráði körfuknattleiksdeildarinnar þar sem hún hefur verið í stjórn í um tólf ár, þar af sem formaður frá 2018. Mikil ábyrgð er á herðum unglingaráðsins og hefur Guðný stýrt þessu af mikilli elju og dugnaði með sinni stjórn.

Nokkrir stigu í pontu, þ.á.m. Friðjón Einarsson sem fór yfir framkvæmdir Reykjanesbæjar í bæjarfélaginu sem muni nýtast íþróttafélögunum og gjörbreyta allri aðstöðu, sem og framlag bæjarins með tilkomu rekstrarsamningsins í upphafi síðasta árs. 

Framkvæmdastjóri, Jenný L. Lárusdóttir, sagði að Reykjanesbær hafi staðið sig gríðarlega vel á síðasta ári hvað varðar stuðning við félögin í bænum og tiltekur sérstaklega rekstrarsamninginn sem kom inn á mjög erfiðum tíma rétt fyrir Covid-19 sem hafi hjálpað mikið við rekstur deildanna og ber að þakka bænum sérstaklega fyrir sinn góða stuðning.

Guðný tekur við Ólafsbikarnum.