Heklan
Heklan

Íþróttir

Keflvíkingar áfram taplausir heima og með montréttinn um jólin
Fimmtudagur 18. desember 2025 kl. 22:41

Keflvíkingar áfram taplausir heima og með montréttinn um jólin

Keflavík vann Njarðvík 93:83 í grannaslag Reykjanesbæjar í Bónusdeild karla í körfuknattleik í kvöld eftir spennandi leik þar sem gestirnir leiddu í hálfleik en heimamenn kláruðu af miklum krafti á lokakaflanum. Með sigrinum eru Keflvíkingar áfram taplausir á heimavelli á tímabilinu og montrétturinn er þeirra um jólin.

Leikurinn hófst á kafla sem Njarðvíkingar vilja gleyma: þeir skoruðu ekki körfu fyrstu fjórar mínúturnar og Keflavík komst í 6:0. Njarðvík náði þó fljótt takti, Dominykas Milka og Dwayne Lautier komu þeim inn í leikinn og eftir jafnan fyrsta leikhluta var staðan 15:14 fyrir Keflavík.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í öðrum leikhluta var Njarðvík lengi vel skrefi á undan og komst m.a. í 10 stiga forskot þegar leið á. Keflavík svaraði hins vegar með öflugum lokakafla. Craig Moller setti stóran þrist og Egor Koulechov setti niður vítaskot til að saxa á muninn. Í hálfleik var staðan 42:44 fyrir Njarðvík og allt galopið.

Seinni hálfleikur var spennuþrunginn fyrir bæði lið, sem skiptust á forystu og jöfnuðu ítrekað. Stemmningin í BLUE-höllinni fór stigvaxandi. Fyrir lokaleikhlutann var Keflavík með naumt forskot, 63:61.

Í fjórða leikhluta voru heimamenn svellkaldir. Milka jafnaði 66:66 með afar mikilvægum þristi, en Keflavík svaraði strax. Darryl Morsell setti risastóran þrist og seinna kom höggið fyrir Njarðvík þegar Craig Moller setti annan þrist og staðan fór í 89:81 þegar um mínúta var eftir.

Milka fékk sína fimmtu villu og var úr leik en hann hafði verið stigahæstur gestanna. Keflavík kláraði svo af öryggi og landaði 10 stiga sigri, 93:83.

Keflavík - Njarðvík 93:83 // 18. desember 2025

VF jól 25
VF jól 25