Íþróttir

Njarðvík og Þróttur enn án sigurs
Elís Már skorar fyrir Víði gegn Létti í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 16. maí 2021 kl. 08:05

Njarðvík og Þróttur enn án sigurs

Víðismenn sigruðu KFS í 3. deild

Bæði Njarðvík og Þróttur gerðu jafntefli í sínum leikjum í annarri deild karla í knattspyrnu í gær en liðunum var spáð tveimur efstu sætum deildarinnar fyrir mót. Á sama tíma tapaði Reynir fyrir KF sem er á toppi 2. deildar ásamt ÍR.

2. deild karla:

Magni - Njarðvík 2:2

Njarðvíkingar léku gegn Magna frá Grenivík í Boganum á Akureyri. Það voru heimamenn í Magna sem komust yfir skömmu fyrir leikhlé (42') en Bergþór Ingi Smárason jafnaði leikinn snemma í síðari hálfleik (47').

Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum kom Magnús Þórðarson Njarðvík yfir (80') en hann varr þá nýkominn inn á. Magnamenn jöfnuðu leikinn þremur mínútum síðar og þar við sat.

Þróttur - Fjarðarbyggð 1:1

Þróttarar tóku á móti Fjarðarbyggð á Vogaídýfuvellinum í Vogum og komust yfir í leiknum á 23. mínútu þegar fyrirliðinn Andy Pew skoraði.

Þróttarar fengu fjölmörg færi til að auka forystuna en þeim var refsað á 79. mínútu þegar Fjarðarbyggð jafnaði leikinn og úrslitin 1:1.

Reynir - KF 0:2

Reynismenn töpuðu fyrir KF á Blue-vellinum í gær en KF hefur unnið báða sína leiki til þessa og vermir toppsætið ásamt ÍR.

Markalaust var í hálfleik en á 50. og 73. mínútu skoraði KF og Reynismenn náðu ekki að svara. Reynir sigraði Hauka í fyrstu umferð og er því með þrjú stig.

3. deild karla:

Víðir - KFS 3:2

Víðir tók á móti KFS frá Vestmannaeyjum á Nesfisk-vellinum í gær og hafði betur.

Það tók Víðismenn sautján mínútur að brjóta ís Eyjamanna þegar Elís Már Gunnarsson skoraði. KFS jafnaði leikinn á 30. mínútu með marki úr vítaspyrnu og staðan 1:1 í hálfleik.

Aðeins fjórum mínútum eftir að seinni hálfleikur hófst komust Víðismenn aftur yfir, nú með marki frá Aaron Robert Spear (49') en aftur jafnaði KFS (56').

Það var svo Sigurður Þór Hallgrímsson sem átti lokaorðið og skoraði sigurmark Víðis á 74. mínútu og Víðir er komið með þrjú stig í 3. deild karla í knattspyrnu.