Íþróttir

Lífsnauðsynlegur sigur í Eyjum
Sandra Voitaine skoraði gegn sínum gömlu félögum í Eyjum. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 11. september 2023 kl. 08:30

Lífsnauðsynlegur sigur í Eyjum

Keflavík vann góðan útisigur á ÍBV í næstsíðustu umferð úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Lokatölur urðu 1:2, Keflavík í vil.

Með sigrinum er Keflavík jafnt ÍBV að stigum fyrir lokaumferðina en með þremur mörkum óhagstæðara markahlutfall.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það verður því mikil spenna í lokaumferðinni þegar Keflavík mætir Selfossi á heimavelli og ÍBV fer til Sauðárkróks en öll liðin berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Tindastóll stendur best að vígi (23 stig) og nægir jafntefli gegn ÍBV til að tryggja sæti sitt í Bestu deild kvenna en Keflavík og ÍBV eru með 21 stig. Selfoss er fallið með ellefu stig.

Ameera Abdella Hussen var stórgóð í liði Keflavíkur, gríðarlega ógnandi á kantinum og lagði upp sigurmarkið.

ÍBV - Keflavík 1:2

Keflvíkingar voru meira ógnandi en Eyjakonur frá byrjun en talsverðar taugaveiklunar virtist gæta hjá leikmönnum beggja liða. Framherjum voru mislagðir fætur fyrir framan mark andstæðinganna þar til Melanie Claire Rendeiro átti góða fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Sandra Voitaine skallaði í mark ÍBV (34').

Eyjakonur svöruðu að vörmu spori (37') og þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 1:1.

Í seinni hálfleik voru bæði lið að ógna en Keflavík skoraði sigurmarkið eftir darraðadans í teig ÍBV, Eyjakonum mistókst að hreinsa frá og að lokum skoraði Melanie Claire Rendeiro sigurmarkið (83').

Úrslitin voru Keflvíkingum lífsnauðsynleg og hleypa mikilli spennu í lokaumferðina sem verður leikin á laugardag klukkan 14:00.

Rendeiro lagði upp fyrra markið og skoraði það seinna.