Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Íþróttir

Kristinn að gera það gott í Hollandi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. mars 2023 kl. 07:55

Kristinn að gera það gott í Hollandi

„Takmarkið er að komast í sterkari deild, ég tel mig hafa möguleika á því ef ég held áfram á sömu braut og ég hef verið á í vetur,“ segir körfuknattleiksmaðurinn Kristinn Pálsson.

Körfuknattleiksmaðurinn Kristinn Pálsson frá Njarðvík, sem síðast lék með liði Grindavíkur áður en hann hélt á vit atvinnumennskuævintýranna í Hollandi, hefur verið að gera það gott að undanförnu. Hann kom til Íslands í síðustu viku til að taka þátt í undirbúningi landsliðsins fyrir leikina tvo en var ekki valinn í endanlegan hóp fyrir leikina. Honum hefur gengið vel í atvinnumennskunni í Hollandi á þessu tímabili.

„Liðið sem ég spila með í Hollandi heitir Aris Leeuwarden og er í efstu deild sameiginlegar deildar Hollands og Belgíu. Þessar nágrannaþjóðir ákváðu fyrir tveimur árum að sameina deildirnar og er fyrirkomulagið í raun nokkuð flókið. Fyrst er spilað við liðin í sama landi og fimm efstu komast í Gulldeild og þá er spilað heima og að heiman við liðin frá hinu landinu. Svo er úrslitakeppni milli liðanna frá sama landi og í lokin úrslitakeppni allra liðanna. Okkur var spáð í sjöunda sæti og hefðum þá farið í Silfurdeildina en við náðum fjórða sætinu og erum ánægðir með það. Þessi deild er ansi sterk, það voru fjögur lið úr hollensku deildinni í Champions league eða Eurocup í fyrra og fimm lið frá Belgíu, það segir nokkuð. Belgíska deildin var metin sterkari og það er verið að reyna rífa þá hollensku upp með því að sameina deildirnar. Það eru engin takmörk á útlendingum og í mínu liði er Ástrali, Kanadamaður og tveir Bandaríkjamenn. Ég er eini Evrópumaðurinn utan Hollands. Þessi deild er sterkari en sú íslenska en allt öðruvísi, hér er lítið um að einhver einn leikmaður sé að skora mjög mikið og menn eru í mesta lagi að spila rúmar tuttugu mínútur í leik og nánast rúllað á öllum tólf leikmönnunum. Við erum fjórir sem erum að skora í kringum tíu stig í mínu liði, sjálfur er ég með 11 stig og ? fráköst að meðaltali.“

Stefnir í sterkari deild

Kristinn er vanur því að búa erlendis eftir að hafa farið ungur til Ítalíu til að spila körfubolta og var svo í þrjú ár í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hann kann vel við sig í Leeuwarden sem er 100 þúsund manna borg en hann stefnir hærra. „Stefnan að klára tímabilið sterkt í Hollandi en ef við förum alla leið þá verður spilað fram í júní. Takmarkið er að komast í sterkari deild, ég tel mig hafa möguleika á því ef ég held áfram á sömu braut og ég hef verið á í vetur,“ sagði Kristinn að lokum.