Íþróttir

Keflavík og Njarðvík á toppi Subway-deildar kvenna
Aliyah A'taeya Collier var sterk í liði Njarðvíkur og lék vel í vörn og sókn, hún var með sextán stig og tuttugu framlagspunkta. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. nóvember 2021 kl. 23:00

Keflavík og Njarðvík á toppi Subway-deildar kvenna

Suðurnesjaliðin þrjú léku öll í Subway-deild kvenna. Grindavík hélt á Hlíðarenda og lék gegn Val en Njarðvíkingar tóku á móti Haukum í Ljónagryfjunni. Bæði Grindavík og Njarðvík töpuðu sínum leikjum en á sama tíma unnu Keflvíkingar stórsigur á Skallagrími í Borgarnesi og er komið upp að hlið Njarðvíkingum með tólf stig á toppi deildarinnar.

Valur - Grindavík 95:61

(20:16. 29:14, 24:14, 22:17)

Grindvíkingar máttu sín lítils í dag gegn sterkum Valskonum. Grindavík hélt í við Val í byrjun og munaði aðeins fjórum stigum á liðunum eftir fyrsta leikhluta (20:16). Eftir það má segja að Valsarar hafi stungið þær grindvísku af og munaði nítján stigum í hálfleik (49:30). Í seinni hálfleik juku Valskonur muninn og höfðu 34 stigur að lokum.

Hjá Grindavík var Edyta Ewa Falenzcyk langatkvæðamest með 21 stig, fimm fráköst, tvær stoðsendingar og nítján framlagspunkta. Robbi Ryan fann ekki fjölina sína og gerði aðeins tólf stig, var með sex fráköst, sjö stoðsendingar og tíu framlagspunkta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tölfræði leiks.

Edyta Ewa Falenzcyk dró vagninn hjá Grindavík en það var ekki nóg.

Skallagrímur - Keflavík 63:94

(21:24, 17:25, 9:20, 16:25)

Keflvíkingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigri á Skallagrími í kvöld þegar liðin mættust í Borgarnesi. Daniela Wallen Morillo fór á kostum í liði Keflavíkur með 22 stig, sextán fráköst, níu stoðsendingar og 41 framlagspunkta. Tunde Kilin var skammt undan Wallen en hún gerði átján stig, tók þrjú fráköst og átti sex stoðsendingar, Kilin var hins vegar með 25 framlagspunkta.

Með sigrinum eru Keflvíkingar orðnar jafnar Njarðvík að stigum í efsta sæti Subway-deildar kvenna.

Tölfræði leiks.

Daniela Wallen Morillo fór mikinn í sigri Keflvíkinga á Skallagrími.

Njarðvík - Haukar (56:63)

(16:13, 12:20, 10:13, 18:17)

Nýliðar Njarðvíkur hófu tímabilið með góðum sigri á Haukum á útivelli, eitthvað sem fæstir bjuggust við enda hafði Haukum verið spáð sigri í deildinni af flestum. Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi og það voru Njarðvíkingar sem höfðu örlítið forskot eftir fyrsta leikhluta (16:13). Annar leikhluti var í járnum þar til í stöðunni 24:21, þá settu Haukar niður þrjá þrista í röð og breyttu stöðunni í 24:30. Haukar settu fjórða þristinn niður fyrir leikhlé og leiddu með fimm stigum í hálfleik (28:33).

Seinni hálfleikur var spennandi þar sem Njarðvíkingar eltu og nörtuðu allan tímann í hælana á gestunum. Njarðvík náði að jafna í 51:51 en það voru Haukar sem reyndust sterkari á lokametrunum og lönduðu á endanum sjö stiga sigri.

Aliyah A'taeya Collier átti góðan leik og var með sextán stig, sextán fráköst og sex stoðsendingar. Lavína Joao Gomes De Silva var einnig á skotskónum og gerði 22 stig, þá hirti hún sex fráköst og átti tvær stoðsendingar.

Tölfræði leiks.

Vilborg Jónsdóttir, leikstjórnandi Njarðvíkinga, er hörð í horn að taka, snögg og úrsjónarsöm – en hana vantar samt áþreyfanlega að þora að taka skotið. Það var áberandi í leiknum í kvöld að andstæðingarnir vissu að hún myndi ekki skjóta og áttu þá mun auðveldara með að verjast gegnumbrotum hennar og sendingum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta var í Ljónagryfjunni á leik Njarðvíkur og Hauka og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á á síðunni.

Njarðvík - Haukar (56:63) | Subway-deild kvenna 21. nóvember 2021

Tengdar fréttir