Bygg
Bygg

Íþróttir

Fyrsta markmið Víðis að halda sér í 2. deild
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 9. maí 2025 kl. 06:10

Fyrsta markmið Víðis að halda sér í 2. deild

Góður andi og litlar breytingar á leikmannahópnum. Sveinn Þór þjálfari bjartsýnn en still væntingum í hóf.

Víðir úr Garði lenti í öðru sæti þriðju deildar í fyrra en það jafngildir fjórðu hæstu deild í knattspyrnu á Íslandi. Liðið leikur því í annarri deild í ár en það hefur ekki komist hærra síðan frægðarsólin reis hvað hæst á níunda áratugnum. Eftir fall úr efstu deild 1991 og úr þeirri næstefstu ári síðar, hefur liðið rokkað á milli þriðju og fjórðu efstu deildar íslensks fótbolta. Grindvíkingurinn Sveinn Þór Steingrímsson tók við liðinu fyrir þremur árum, þá endaði Víðir í fjórða sæti þriðju deildar og vann Fótbolti.net bikarkeppnina, sem er bikarkeppni neðri deildar liða. Liðið fór svo upp í fyrra eins og áður sagði.

Svenni stillir væntingum í hóf fyrir komandi tímabil.

„Það er talsverður getumunur á annarri og þriðju deild og held ég að mér sé óhætt að segja að gæðin eru orðin mun meiri í þessum deildum en fyrir nokkrum árum. Önnur deildin í ár hefur meiri gæði en t.d. fyrir 10-15 árum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ég er ánægður með hópinn, ég náði að halda í mest af kjarnanum, það er góður andi hjá okkur svo ég er bara nokkuð bjartsýnn en við stillum væntingum okkar í hóf og fyrsta markmiðið er að halda sæti okkar. Við erum nýliðar og horfum raunsætt á sumarið. Við förum auðvitað í alla leiki til að vinna og draumurinn væri auðvitað að vera í baráttu um að komast upp í lok tímabils. Sjáum hvað setur þegar líður á. Við gerðum jafntefli við Víking Ólafsvík í fyrstu umferð, leikur sem við áttum klárlega að vinna ef mið er tekið af færum hjá liðunum. Við gerðum ein mistök og þau leiddu til marks, áttum að fá víti að mínu mati en við dveljum ekki lengi við þann leik, tökum það góða sem við gerðum með okkur og bætum það sem við þurfum bæta og áfram gakk.

Hvað varðar sameiningu Víðis og Reynis þá vil ég sem minnst skipta mér af því og einbeiti mér bara að mínu starfi sem þjálfari Víðis. Ég skil bæði sjónarmið, þetta fer bara eftir því hvaða stefnu fólk vill taka. Með því að sameina liðin þá er raunhæft markmið að stefna hærra að mínu mati en það eru miklar tilfinningar í spilinu og mikil saga hjá báðum félögum. En það verður gaman að sjá hvað verður ákveðið.

Við Víðismenn mætum grimmir til leiks og ætlum að standa okkur en hvort þetta verði síðasta tímabilið undir merkjum Víðis verður bara að koma í ljós. Við ætlum okkur klárlega að halda sæti okkar og vera Garðmönnum til sóma,“ segir Sveinn Þór.