Íþróttir

Klemminn fagnar 30 ára afmæli á gamlársmorgun
Mánudagur 29. desember 2025 kl. 09:47

Klemminn fagnar 30 ára afmæli á gamlársmorgun

Á gamlársdag, miðvikudaginn 31. desember, verður árlega áramótahlaupið Klemminn haldið í 30. sinn – ótrúlegt en satt. Fyrirkomulagið verður með sama sniði og síðustu ár, enda hefur það gefist vel, en í tilefni af þessum stóru tímamótum verður í ár einnig safnað til góðs málefnis.

Hlaupið fer fram frá kl. 07:00 til 12:05 og er miðað við að þátttakendur verði komnir í mark fyrir kl. 12:05, en þá verður hópmyndataka. Að henni lokinni verður boðið upp á skúffuköku og kakó í leikfimisal Heiðarskóla og geta þeir sem vilja einnig farið í sturtu.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Hefð sem dregur að fjölda þátttakenda

Undanfarin ár hafa 30–70 manns tekið þátt, ýmist með því að hlaupa og/eða hjóla hringinn (23,5 km) eða fara hluta leiðarinnar.

Leiðin er sem fyrr:

  • Frá Heiðarbóli 37 í Reykjanesbæ til Sandgerðis
  • þaðan út í Garð
  • og endað aftur á Heiðarbólinu

Vinsælt hefur verið að hlaupa:

  • úr Garðinum (10 km) eða
  • frá kirkjugarði Reykjanesbæjar (3 km).

Safnað fyrir Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG

Klemminn hefur aldrei verið styrktarhlaup og verður það áfram, nema á stærri tímamótum eins og nú. Í tilefni 30 ára afmælisins stendur til að styrkja Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG, sem er að safna fyrir lyfjadælum og töskum – búnaði sem á að auðvelda sjúklingum að vera heima.

Baukur verður á staðnum.

Einnig er hægt að leggja inn á reikning í Landsbankanum: 0123-15-123439 Kt.: 040963-2359

Þeir sem ætla að taka þátt eru hvattir til að mæta á gamlársmorgun og eiga saman hressilega stund – og þeir sem vilja geta jafnframt lagt söfnuninni lið á þessum tímamótum Klemmins.