Mannlíf

Fegurst í heimi
Sunnudagur 28. desember 2025 kl. 04:42

Fegurst í heimi

Guðrún Bjarnadóttir glæsileikinn holdi klædd

Hún er heimskona, á því er enginn vafi. Stórglæsileg er rétta orðið yfir Guðrúnu Bjarnadóttur, sem er fimmtug á þessu ári, en slær flestum öðrum konum við í unglegu og fersklegu útliti. Hún hefur kynnst því og býr í lúxusíbúð í París, auk þess sem hún á heimili í Genf og á Kanaríeyjum. Guðrún ólst upp í Innri-Njarðvík og var þá sem hún kallar ósköp venjulegur krakki og unglingur. Henni gekk vel í skóla, hún lagði stund á leiklist og sótti kirkju með foreldrum sínum. Í dag er hún ekkja, á uppkominn son sem er á leið í háskólanám, og hún vinnur m.a. að störfum fyrir krabbameinssjúka. Guðrún var á heimaslóðum í sumar, þegar hún var viðstödd 50 ára afmæli Njarðvíkurbæjar og afhenti þar Forseta Íslands merki bæjarins að gjöf. Þrátt fyrir að Guðrún sé lítið fyrir að tala við fjölmiðla samþykkti hún að veita okkur viðtal og segja okkur frá lífi sínu sem fegurðardrottning, fyrirsæta, eiginkona og móðir.

Byrjaði í tískuskóla

Guðrún fór fyrst að koma fram þegar hún gerðist félagi í leikfélagi á Suðurnesjum og tók þátt í fjölda leikrita. Um nítján ára aldur dreif hún sig hins vegar í tískuskóla Sigríðar Gunnarsdóttur og þar kom fyrst upp sú hugmynd að hún tæki þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

„Þetta var fyrsti tískuskólinn á Íslandi og Sigríður bað mig um að koma í keppnina. Ekki það að mig langaði svona að fara í fegurðarsamkeppnina, heldur var ég að hugsa um hvað það væri nú flott að fá svona fínar ferðir erlendis. Ég hugsaði bara um ferðirnar, ekkert um það hvort það væri gaman að vera labbandi um á sundbolum eða annað þess háttar. Enda hef ég aldrei haft gaman af því að koma fram í sundbol, ekki heldur að láta mynda mig svoleiðis eftir að ég varð fyrirsæta. Ég er með svo ljósa húð og brenn auðveldlega, svo ég hef engan áhuga á því að standa á baðströnd í átta tíma á dag.“

Guðrún sigraði í keppninni um Ungfrú Ísland og í kjölfarið fylgdi keppnin um Ungfrú Norðurlönd og Ungfrú Evrópu. Guðrún varð þar í einu af fjórum efstu sætunum og hlaut vikuferð til Parísar að launum. Þarna var tækifærið komið og Guðrún nýtti sér það til fullnustu.

„Ég var auðvitað mjög ánægð að fá þarna viku í París með uppihaldi og öllu, þú getur rétt ímyndað þér. Ég dreif mig og talaði við konu sem var með umboðsskrifstofu í París og byrjaði að vinna þar. Ég var voðalega heppin, en þetta var ég allt búin að ákveða sjálf fyrir löngu. Ég ætlaði mér að gera þetta! Það er ekki eins og fólk banki upp á hjá manni og segi: „Þú ert svo sæt, viltu verða módel?“ Svoleiðis gerist þetta ekki. Þetta er hörð samkeppni og allir skilja það og þú getur þótt sæt á Íslandi en þegar út er komið eru kannski fjörutíu stúlkur sem eru miklu fallegri en þú að bítast um sama starfið. Samkeppnin er voðalega hörð og þetta er grimm vinna, það þarf grimmd til að ná áfram í þessu fagi. Því miður heldur margt fólk enn þá að þetta sé eitthvað lúxuslíf, en þetta er vinna eins og hvað annað.“

Hagaði sér eins og toppstjarna

Guðrún fór á blað eitt og mætti þar þremur stúlkum sem allar voru með myndamöppu og biðu á undan henni. Sjálf átti Guðrún engar myndir í möppu svo hún greip til annarra ráða!

„Það var annað hvort að duga eða drepast. Konan á skrifstofunni sagði: „Myndirnar þínar, takk!“ og þá svaraði ég:

„Óh, ég er orðin svo leið á myndunum mínum, ég er ekki einu sinni með passamyndina mína.“ Auðvitað gat ég ekki farið að segja að ég ætti engar myndir! Ég hagaði mér því eins og ég væri toppstjarna frá Bandaríkjunum og þau tóku því. Seinna sagði ég vinkonu minni sem var toppmódel og síðar einkaljósmyndari Brigitte Bardot frá þessu og hún fór að skellihlæja og spurði svo hvernig í ósköpunum ég hefði þorað þessu! Þá svaraði ég: „Ég hafði viku til umráða í París, það var ekki um annað að ræða!“

Ég hef alltaf látið svona, til dæmis einu sinni í Bandaríkjunum var ég að sækja um starf og maðurinn sagði að ég væri ekki hans týpa. Þá horfði ég beint á hann og sagði: „Ég er guðdómleg, ef ég er ekki þín týpa, hver er það þá?“ Viti menn, hann bókaði mig um allt. Svona er fólk, ef maður er öruggur með sig. Maður þarf ekki einu sinni að vera svo öruggur með sig, heldur láta þeim finnast þeir vera að missa af einhverju, að missa af því sem mun selja blaðið þeirra.“

Að selja sjálfan sig

„Auðvitað er maður bara að selja, en þegar maður selur sjálfan sig þá má maður ekki taka sig of persónulega. Ég er ekki að selja sálu mína, ég er bara að selja útlit mitt. Útlitið er bara húsið, ég er ekki að selja það sem er fyrir innan gluggana.“

– Nú ert þú komin inn á Parísarmarkaðinn, hvað gerðist næst?

„Ég tók mér íbúð á leigu með franskri vinkonu minni sem var líka módel og við höfðum það voða gaman. Svo hringir Einar Jónsson í mig frá Íslandi og segir að ég verði að fara á Langasand (Long Beach) og taka þátt í Miss International-keppninni. Hann sagði mér að leyfa bara einhverjum öðrum stelpum að nota tækifærin í París. Þetta var um það bil ári eftir að ég var kosin Ungfrú Ísland. Áður höfðu stúlkurnar alltaf farið í þessa keppni sama ár en núna var þetta breytt og við höfðum meiri tíma til að undirbúa okkur. Margar stúlkur fóru t.d. í söng og fleira til þess að venja sig við að koma fram áður en í stóru keppnina yrði komið. Mér hafði gengið mjög vel sem ljósmyndafyrirsæta og ég er þannig að ég reyni alltaf að gera allt eins vel og hægt er. Þetta er öðruvísi í dag. Núna segja sumar stúlkur bara: „Rektu mig, ég er hvort sem er orðin fræg.“ Þær vilja verða frægar en þær vilja ekki hafa neitt fyrir því. Þetta er hörð vinna sem þarf að hafa fyrir. Það þýðir ekkert að vera að rífast við fólk, því þá ertu búin að missa kúnnann. Maður hefur ekki efni á því, hvar svo sem maður er, því þá færðu bara óorð á þig.“

Stóra keppnin á Langasandi

Þrátt fyrir að hugurinn lægi í fyrirsætustörfunum í París dreif Guðrún sig í keppnina á Langasandi. Hún segist hafa farið því ekki vildi hún svíkja loforð, auk þess sem pabbi hennar hafi skammað hana og sagt að hún yrði að klára það sem hún byrjaði. Aðstandendur keppninnar gengu meira að segja svo langt að hringja í vinkonu Guðrúnar og báðu hana um að reyna að hafa áhrif á hana. En Guðrún fór þrátt fyrir að þessar keppnir væru henni ekki að skapi. Og kannski var það þessi yfirvegun hennar sem gerði útslagið því heim kom hún með kórónuna.

„Mig langaði ekkert til þess að gera þetta, og ég held að þess vegna hafi ég verið svona afslöppuð. Og mig langaði alls ekkert til þess að vinna, ég hugsaði ekki einu sinni út í það. En ég sigraði og því fylgdu að sjálfsögðu gjafir og annað þess háttar. Nema í þetta skiptið kom svolítið sérstakt atvik upp. Þannig var að fyrir keppnina voru allar stúlkurnar látnar skrifa upp á samning um að ferðast fyrir eitthvað ákveðið fyrirtæki bæru þær sigur úr býtum. Oft var þetta stórfyrirtæki á borð við Coca-Cola eða kannski einhverjir sundbolaframleiðendur og þessi fyrirtæki styrktu sigurvegarann til ferða um heiminn í heilt ár þeim til kynningar. Nema hvað, að það gleymdist að láta okkur skrifa undir þennan samning! Þegar að krýningunni var komið kemur formaður keppninnar og borgarstjórinn og þeir segja að nú eigi ég að skrifa undir. Þeim datt náttúrulega ekki í hug að ég, lítil stelpa, myndi fatta þetta og ég spurði: „Þarf ég að vinna fyrir þessum verðlaunapeningum, eða er þetta gjöf? Ef þetta er gjöf þá er það í lagi, þá skrifa ég ekki undir. Annars máttu láta stúlku númer tvö fá verðlaunin og hún skrifar undir og ferðast með ykkur.“ Þeir sögðu síðar að þeir hefðu varla trúað því hvað ég var hörð.“

Ekki fegurðardrottningartýpa

– Þér hefur sem sagt ekki fundist þetta neitt spennandi?

„Nei, ekki fyrir svona týpu eins og mig. Ég leit aldrei á mig sem neina fegurðardrottningu. Ég leit aldrei á mig sem einhverja fegurðardrottningartýpu, eða sexy Marilyn Monroe-týpu, ég hugsaði bara aldrei út í svoleiðis. Mig langaði bara að ferðast, en þetta langaði mig ekki út í. Ef ég hefði skrifað undir hefði ég verið á flakki um heiminn í því að opna fyrirtæki og vera í veislum. Ef að ég hefði ekki verið byrjuð að starfa sem módel hefði málið kannski litið öðruvísi út. En ég var auðvitað voðalega heppin að það skyldi gleymast að láta skrifa undir!“

Í París og New York

Guðrún sneri aftur til Parísar og hélt áfram að vinna sem fyrirsæta, nú með titilinn Miss International í farteskinu. Næstu þrjú árin skipti hún árinu á milli heimsborganna New York og Parísar. En hún fann sig ekki eins vel í Bandaríkjunum og í Evrópu þar sem fleiri ferðalög voru í boði, á móti mikilli inniveru á stofum í New York. En skyldi Ísland ekki hafa verið í huga hennar á þessum tíma?

„Mér finnst í dag, og fannst þá, alveg yndislegt að búa á Íslandi, en bara í þrjá mánuði á ári. Hér er of kalt fyrir mig.“

– Hafðirðu alltaf ætlað þér að búa erlendis?

„Já, og þess vegna fannst mér ekkert merkilegt við þessa hluti sem ég var að gera. Þetta hafði ég alltaf ætlað mér, ekki það að verða fegurðardrottning, hvað þá alheimsfegurðardrottning, það ætlaði ég aldrei. En sá góði árangur sem ég náði í fyrirsætustörfunum var nokkuð sem ég ætlaði mér frá upphafi.“

Var ekki í giftingarhugleiðingum

Hvað með karlmenn? Gat fegursta kona heims nokkurn tímann fengið frið fyrir karlmönnum? Skyldi hún ekki hafa fengið tugi bónorða á viku? Tvítug, gullfalleg fyrirsæta í París, var hún ekkert á leið í hnapphelduna?

„Nei, ég var ekki í neinum giftingarhugleiðingum. Mig langaði aldrei að vera gift, þó svo að ég gifti mig svo síðar. Það er gífurlega erfitt að vera gift og starfa sem ljósmyndafyrirsæta. Ég hætti að vísu fyrirsætustörfunum í smá tíma þegar ég átti Sigmar og ætlaði að breyta mínu lífi. En það slitnaði upp úr sambandinu við föður Sigmars, sem er franskur, og það varð til þess að ég ákvað að halda módelstörfunum áfram. Þetta var starf sem virtist henta mér vel og ég breytti bara um aðferð við vinnuna. Ég fór að vinna fimm mánuði á ári, á haustin og á vorin. Þarna var ég orðin það þekkt að ég gat gert það sem ég vildi. Ég var mikið á Íslandi og gifti mig svo seinna ítölskum manni og fór þá að búa á þremur stöðum, á Spáni, í Evrópu og París.

Sigmar var mikið hjá foreldrum mínum, en alltaf á sumrin hjá mér. Hann var á Íslandi á veturna því ég vildi að hann næði algerlega tökum á íslenskunni. Hefði hann búið úti hefði hann orðið að algerlega frönsku barni. Tíu ára gamall kom hann út til mín alfarið. Það er góður aldur til að koma, upp á að læra tungumálið.“

Ekki ein af þessum kerlingum sem segja allan sannleikann

Guðrún er ekki mikið fyrir að opinbera sitt einkalíf, það finnur maður strax. En hún er ófeimin við að segja frá því sem henni þykir mikilvægt í sínu lífi, en þegar hún er spurð út í framtíðina er hún óræð.

„Ég er ekki ein af þessum kerlingum sem segja allan sannleikann. Ég er ekkja í dag, ég missti manninn minn úr krabbameini og ég bý enn þá erlendis. Ég hef í rauninni ekki tekið neinar ákvarðanir um hvað ég ætla að gera, ég er ekkert að flýta mér. Við bjuggum saman í tólf ár, ég og Bastiano Bergese. Ég varð ekkja fyrir tveimur árum og ég hafði hætt módelstörfum algerlega þegar ég gifti mig. Síðan þá eru fjórtán ár. Það varð að velja og hafna, því annað hvort hefði alltaf setið á hakanum. Við lifðum samt ekki venjulegu fjölskyldulífi. Sonur minn var í heimavistarskóla í Frakklandi og við hjónin bjuggum í þremur löndum. Maðurinn minn vann við kauphöllina, svo í raun og veru skipti það ekki máli í hvaða landi við vorum, hann þurfti bara síma og faxtæki. Ég fylgdi honum þangað sem hann fór.“

– Hvernig kunnirðu við það?

„Ég get sagt þér það að þessi viðskipti áttu nú ekki við mitt taugakerfi. Ég lærði mikið og hann sagði að ég gæti þetta alveg ein, því ég kynni allt og þekkti alla, enginn gæti platað mig. En ég gæti ekki verið í þessu, fólk þarf að hafa sérstakt skap og taugar til að geta staðið í svona viðskiptum. Það er til mikið af mönnum sem fá hreinlega slag þegar stóra tapið verður! Það þarf að hafa stáltaugar. En okkur gekk vel og ég var hans hægri hönd í þessum málum.“

Ennþá á heimshornaflakki

Bastiano lagði grunninn að stofnun Krabbameinsfélags á Spáni og þar starfar Guðrún í dag. Hún heldur sig þó úr sviðsljósinu og lætur öðrum eftir forstöðustörfin. Aðspurð segist hún þó líka hafa tíma til þess að „gera eitthvað skemmtilegt“.

– Getum við sagt að þú lifir rólegu lífi í dag?

„Já, en ég veit ekki alveg hvernig þetta verður. Ég var að hugsa um að fara út í innanhússarkitektinn, en ég hef enga ákvörðun tekið.“

– Þú ert samt ennþá á heimshornaflakki?

„Já, og ég hef verið frá því ég var tvítug. Ég vinn smávegis, af því að ég er tilneydd, svo maður geti haldið því sem maður hefur. En það skiptir ekki máli hvar maður er í dag, maður notar bara símann. Það getur vel verið að ég fari út í eitthvað sérstakt, en ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir um það, maður á aldrei að flýta sér með neitt.“

Ekki fara út í fyrirsætustörf of ung

– Hvað finnst þér um fyrirsætustörfin í dag, getur þú ráðlagt þeim sem áhuga hafa á slíkum störfum eitthvað?

„Ég myndi bara ráðleggja foreldrum að láta börnin sín ekki fara of ung út í eitt eða neitt. Það eru svo margar hættur í dag og æskuna fær maður aldrei aftur. Mér finnst að þau þurfi að vera nálægt foreldrum, vinum og skólafélögum alla vega til átján, nítján ára aldurs. Að fara að hugsa út í þetta fjórtán, fimmtán ára, finnst mér alveg agalegt! Það er orðið svolítið sorglegt að horfa upp á þetta í dag, þegar stúlkurnar eru teknar, málaðar og greiddar og svo látnar standa eins og litlar dúkkur. Þær geta ekkert sjálfar lengur, kunna ekkert sjálfar og þegar þær eru orðnar tuttugu og fimm, sex ára gamlar eru þær bara búnar! Í dag geta stúlkur ekki gert þetta að alvinnu sinni eins og það var á mínum tíma.“

– Er orðin meiri samkeppni og harka í þessu núna?

„Ég myndi kannski ekki segja það, en stúlkurnar eru orðnar svo miklu yngri og það er hættulegt, því þetta er harður „bransi“. Það er allt í lagi að fara út í þetta, ef maður er tilbúinn til þess að finna sér eitthvað annað um 25–26 ára aldur. Lengur er ekki hægt að gera þetta að atvinnu. Það verður að undirbúa sig undir eitthvað annað. Auðvitað má búast við því að stúlkur hafi áhuga á einhverju sem tengist fyrirsætustörfunum, hönnun, snyrtingu, leiklist eða sönglist til dæmis.“

Heilsan er fegurð

En hvernig fer Guðrún að því að líta svona stórkostlega vel út?

„Ég hef alltaf hugsað um heilsuna, því heilsan er fegurð. Matarræði og svefn skipta miklu máli. Auk þess fer ég alltaf í læknisskoðun á hverju ári og læt taka blóðprufur. Maður getur ekki skipt um líkama, það er ekki nóg að hugsa um fegurð að útliti, því fegurð kemur líka innan frá. Fólk sem hefur farið illa með sig, kannski eyðilagt í sér nýrun, það sér á því. Auðvitað sést það á útlitinu. Mér finnst það mjög áríðandi, fyrst og fremst að hugsa um heilsuna. Ég held að yngri kynslóðin geri mun meira af því í dag en eldri kynslóðin. Heilbrigði er undirstaða alls.“

Guðrún Bjarnadóttir er lýsandi dæmi um heilbrigði. Hún geislar af lífsgleði og hreysti. Hún er ein af þessum manneskjum sem öllum Íslendingum finnst þeir eiga eitthvað í. Hún segist enn þá vera Njarðvíkingur í eðli sínu og hún kemur reglulega heim. Samband hennar við fjölskylduna er náið þó að fjarlægðirnar séu miklar. Foreldrar hennar heimsækja hana og faðir hennar hefur meira að segja notað tækifærið og stundað listnám þegar til Parísar er komið. Hún hittir enn þá gömlu vinkonurnar úr gaggó þegar hún kemur heim, og er sjálfri sér samkvæm. Sonur hennar býr í næsta nágrenni við hana í París, en hann kemur til með að búa í bæði Tokyo og New York í tengslum við nám sitt. Hvað framtíðin ber í skauti sér er óráðið, Guðrún á enn þá heimili í þremur löndum og samkvæmt nýrri íslenskri bók er hún ein af auðugustu íslensku konunum. Hennar mesti fjársjóður hlýtur þó ávallt að verða hennar heilsteypti persónuleiki, heilbrigður lífsstíll og íslensk fegurð.