Grindavík tapaði gegn Stjörnunni og er komið í sumarfrí
Grindavík og Stjarnan mættust í kvöld í Umhyggjuhöll Garðbæinga í hreinum úrslitaleik um að komast í lokaúrslit Bónusdeildar karla. Stjarnan hafði unnið fyrstu tvo leikina en Grindavík kom til baka og jafnaði. Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik þar sem Stjarnan leiddi með fjórum stigum, 40-36, fór allt á suðupunkt í lokin en Stjarnan hafði mest náð fimmtán stiga forskoti í seinni hálfleik. Grindavík hefði getað komist yfir í stöðunni 70-70 en það gekk ekki og Stjarnan hafði sigur, 74-70.
Grindavík byrjaði betur og komst í 3-10 en Stjörnumenn vöknuðu og komust í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar þrjár mínútur lifðu fyrsta fjórðungs, 18-17. Jafnt var á með liðunum það sem eftir lifði en Stjarnan átti betri endasprett og leiddi að loknum opnunarleikhlutanaum, 25-21.
Ólafur Ólafsson opnaði annan leikhluta með þristi og stuðningsmennirnir trylltust. Adam var ekki lengi í Paradís, Grindavík skoraði ekki næstu körfu fyrr en eftir um þrjár mínútur en á meðan komu Stjörnumenn muninum upp í tíu stig, 34-24. Grindvíkingar náðu klæðum sínum og voru betri það sem eftir lifði hálfleiksins en Stjarnan leiddi að honum loknum, 40-36.
Ólafur fyrirliði gekk fram með góðu fordæmi, var kominn með 11 stig, búinn að hitta úr 3/7 þristum sínum. Deandre Kane var kominn með 7 stig og Lagio Grantsaan kom sterkur af bekknum og var líka kominn með 7 stig.
Þeir Grindvíkingar sem gældu við að sínir menn kæmu sterkir út úr hálfleiknum varð ekki að ósk sinni, Stjörnumenn léku við hvern sinn fingur og voru að vinna leikhlutann 11-2 eftir rúmar fjórar mínútur og Grindavík í mestu vandræðum með að ná góðum skotum, svo góð var vörn Stjörnumanna. Stjörnumenn bættu í forskotið sem fór upp í fimmtán stig og öll orka þeirra megin það sem af var af fjórðungnum. Grindvíkingar virkuðu þungir og þreyttir en samt tókst þeim að búa sér til líflínu með aðeins betri leik það sem eftir lifði þriðja leikhluta, staðan að honum loknum, 62-53.
Lítið var skorað í byrjun fjórða leikhluta, 0-2 fyrir Grindavík eftir þriggja mínútna leik! Grindavík skoraði aftur og munurinn kominn niður í fimm stig. Loks brast stífla Stjörnumanna þegar tvö víti rötuðu rétt leið, tæpar sex mínútur eftir þegar leikhlé var tekið og sjö stiga munur, 64-57. Lagio setti þrist og Kane braust í gegn, tveggja stiga munur og allt á suðupunkti! Hver sóknin af fætur annarri rann út í sandinn og greinilegt að bland af þreytu og taugaspennu hafði áhrif á leikmenn. Deande Kane fór á línuna og setti bara annað vítið niður, var þá búinn að misnota fyrstu fimm vítin sín í leiknum! Stórt augnablik var þegar nákvæmlega tvær mínútur voru eftir, Hilmar Henningsson hitti úr þriggja stiga skoti og Kane braut á honum og fékk sína fimmtu villu, fjögurra stiga sókn Stjörnumanna, þeir komnir fimm stigum yfir og besti leikmaður Grindavíkur kominn út af með fimm villur! Grindavík skoraði næstu fimm stig, jafnaði leikinn og fékk boltann en náði ekki að koma skoti á körfuna. Stjarnan fékk boltann og Shaquille Rombley virtist skora löglega körfu en dómararnir þurftu að skoða hvort skotklukkan hafi verið runnin út. Dómur féll, karfan lögleg og Grindavík hafði 17 sekúndur til að gera eitthvað í málunum. Jeremy Pargo braust í gegn, virtist vera með einfalt sniðskot að setja niður en brást bogalistin og Stjarnan kláraði leikinn á vítalínunni.
Mikil vonbrigði fyrir Grindvíkinga sem ætluðu sér alla leið að titlinum í ár, eftir að hafa verið einum leik frá þeim stóra í fyrra.
Þótt Deandre Kane hafi verið nokkuð ólíkur sjálfum sér í kvöld, m.a. með því að hitta bara úr ⅙ vítaskotum sínum og úr ⅙ þristum, þá var hann samt framlagshæstur Grindvíkinga með 22 punkta (16 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar). Ólafur fyrirliði Ólafsson barðist eins og ljón en eftir frábæran fyrri hálfleik, hitti hann ekki eins vel í þeim seinni og endaði með 16 stig og 9 fráköst. Slæm vítahittni kom aftan að Grindvíkingum í kvöld, þeir hittu bara úr 13/23 vítum og munaði um minna.
Grindavík þar með komið í sumarfrí en Stjarnan mætir Tindastóli í lokaúrslitunum.