Keflvíkingar með sigur í fyrsta leik - Jafnt hjá UMFN og tap hjá Grindavík
Keflvíkingar tylltu sér á topp Lengjudeildar í knattspyrnu eftir leiki fyrstu umferðar í gær. Keflavík vann Fjölni á útivelli, Njarðvík gerði jafnatefli á heimavelli gegn Fylki og Grindavík tapaði á útivelli gegn nýliðum Selfoss.
Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur á Fjölni 1-3. Heimamenn skoruðu fyrsta markið sem var stórglæsilegt en Gabríel Aron Sævarsson opnaði markareikning sinn með góðum skalla og jafnaði leikinn á 30. mínútu. Staðan í hálfleik 1-1. Ígnacio Heras Anglada kom Keflavík í forystu í upphafi seinni hálfleik og Muhamed Alghoul bætti þriðja markinu við á 67. mínútu. Keflvíkingar voru miklu betri í síðari hálfleik og hefðu getað bætt við marki.
Haraldur Guðmundsson var ánægður með sigurinn og liðið og sagði gott að byrja deildina á sigri.
Njarðvíkingar fengu Fylki, sem spáð er efsta sætinu, í heimsókn og komust yfir á 30. mínútu með marki Amin Cosic. Fylkir jafnaði metin á 54. mínútu en tíu mínútum síðar gátu heimamenn náð forystu á nýjan leik þegar dæmt var víti. Dominik Radic tók vítið en slök spyrna hans endaði í fangi Ólafs Helgasonar markvarðar Fylkis.
Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn það sem lifði leiks en náðu ekki að innbyrða sigurinn. Gunnar Heiðar Þorvaldsson þjálfari UMFN var ánægður með leik sinna manna en hefði viljað klára dæmið og vinna leikinn.
Grindvíkingar heimsóttu nýliða Selfyssinga og máttu þola 2-1 tap. Selfyssingar náðu forystu á 25. mín. með marki frá Raul Comez en Grindvíkingar jöfnðu úr víti á 48. mín. Gomez var aftur á ferðinni fyrir heimamenn fimm mínútum síðar og skoraði annað mark sitt og það urðu lokatölurnar á Selfossi, 2-1.
Haraldur í viðtali við fotbolti.net
Gunnar Heiðar í viðtali við fotbolti.net