Bygg
Bygg

Íþróttir

Erfitt tap hjá Njarðvík í öðrum leik úrslitanna
Dinkins í sókninni gegn Haukum. Hún brilleraði gegn Keflavík í undanúrslitum en hefur ekki náð sér á strik í úrslitunum. Mynd/karfan.is
Sunnudagur 4. maí 2025 kl. 23:22

Erfitt tap hjá Njarðvík í öðrum leik úrslitanna

Kvennalið Njarðvíkur tapaði sínum öðrum leik gegn Haukum í úrslitum Bónus deildar kvenna í körfubolta í Icemar höllinni í kvöld, staðan í seríunni þá 2-0. Leikurinn var spennandi meginhluta leiks en Haukar voru töluvert ferskari og orkumeiri í lokin og unnu að lokum 72-90.

Haukar byrjuðu fyrsta leikhluta betur og ljóst að þær ætluðu að halda áfram sömu ákefðinni í pressuvörninni, sérstaklega á Brittany Dinkins sem tók boltann upp sjaldnar í þessum leik en í þeim síðasta. Ljónynjurnar virkuðu þó tilbúnari fyrir varnarleik Hauka og áttu þær auðveldara með að brjóta niður pressuvörnina upp allan völlinn. Tempóið í byrjun leiks var mjög hratt og voru bæði lið að skjóta boltanum þegar lítið var liðið af skotklukku en Njarðvík leiddi að lok fyrsta leikhluta, 22-19.

Njarðvík byrjaði annan leikhluta sterkt og setti Emilie Hesseldal tóninn með frábærri „and one“ körfu sem kveikti vel í stuðningsmönnum Njarðvíkur. Varnarleikur heimakvenna varð þéttari því lengra sem leið á leikhlutann og var Njarðvík komið 10 stigum yfir þegar annar leikhluti var hálfnaður. Haukastelpur héldu þó áfram að spila mjög stífa vörn, náðu að stela boltum sem gáfu þeim auðveldar körfur og voru þær fljótar að jafna leikinn á meðan Njarðvík klikkuðu úr auðveldum skotum. Eftir æsispennandi fyrri hálfleik var það Njarðvík sem enduði hálfleikinn þremur stigum yfir, 41-38.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Áfram var leikurinn í járnum í byrjun þriðja leikhluta og skiptust liðin á stigaskori. Haukar voru hins vegar töluvert orkumeiri þegar leið á leikhlutann og sættu Njarðvík sig við misgóð skot á meðan að Haukar náðu að hlaupa í bakið á Njarðvíkingum. Agressívur varnarleikur Hauka liðsins kom þeim þó í klandur og voru lykilleikmenn komnar í villu vandræði snemma í þriðja leikhluta. Haukar voru komnar í 7 stiga forskot þegar bandaríski leikmaður Hauka var tekinn út af með fjórar villur. Það virtist þó ekki skipta miklu máli því aðrir leikmenn Hauka stigu upp á meðan sóknarleikur Njarðvíkur hélt áfram að vera tilviljunarkenndur en Njarðvíkingar skoruðu aðeins 7 stig í öllum leikhlutanum. Haukar leiddu leikinn í lok þriðja leikhluta, 48-57.

Fjórði leikhluti byrjaði ekki vel fyrir Njarðvík, þær töpuðu boltanum í sinni fyrstu sókn og fengu þrist í andlitið sem kom Haukum þrettán stigum yfir. Hlutirnir voru farnir að líta illa út fyrir Njarðvík þegar Haukar settu þrjú þriggja stiga skot snemma í leikhlutanum en Paulina Hersler í Njarðvíkurliðinu hélt áfram að draga vagninn í sókninni og minnkaði muninn í 10 stig um miðjan leikhluta. Haukaliðið hélt þó áfram að skjóta vel fyrir utan og virtust margir leikmenn Njarðvíkur orkulausir undir lok leiks á meðan Haukar fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum. Heilt yfir var það samheldin og þéttur varnarleikur Hauka sem braut Njarðvík og  staðan því í lok leiks 72-90 fyrir Haukum og Haukar því komnar 2-0 yfir í úrslitaseríunni.

Hjá Ljónynjunu var Paulina Hersler langbest en hún skoraði 25 stig og tók 11 fráköst en eru komnar með bakið við vegg og eiga verðugt verkefni fyrir sér á miðvikudaginn þegar þær mæta á Ásvelli í þriðja leik úrslitaseríunnar í Bónus deild kvenna.

Njarðvík-Haukar 72-90 (22-19, 19-19, 7-19, 24-33)
http://kki.is/widgets_game.asp?season_id=128585&game_id=6029811
Njarðvík: Paulina Hersler 25/11 fráköst, Brittany Dinkins 14/8 fráköst/5 stoðsendingar, Emilie Sofie Hesseldal 14/15 fráköst/6 stoðsendingar, Hulda María Agnarsdóttir 8/6 stoðsendingar, Sara Björk Logadóttir 5, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 4, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2, Kristín Björk Guðjónsdóttir 0, Veiga Dís Halldórsdóttir 0, Katrín Ósk Jóhannsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0.
Haukar: Lore Devos 18/10 fráköst, Diamond Alexis Battles 17/8 fráköst/5 stoðsendingar, Rósa Björk Pétursdóttir 15/12 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 10/4 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 9, Agnes Jónudóttir 8, Sigrún Björg Ólafsdóttir 8, Þóra Kristín Jónsdóttir 5/8 stoðsendingar, Halldóra Óskarsdóttir 0, Inga Lea Ingadóttir 0, Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir 0, Anna Lóa Óskarsdóttir 0.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Jakob Árni Ísleifsson, Jón Þór Eyþórsson
Áhorfendur: 368
Viðureign: 0-2

Texti: Jón Ragnar Magnússon.